Posted on Færðu inn athugasemd

Það er ýmislegt hægt

Sum ykkar muna kannski eftir sjónvarpsauglýsingunni þar sem Jón Gnarr í hlutverki prentsmiðjustarfsmanns ræddi í símann við viðskiptavin sem lét sér ekki nægja svarið „Nei, það er ekki hægt“ við einhverri spurningu og spurði hvers vegna það væri ekki hægt. Þá var Jóni nóg boðið og svaraði með þjósti: „Vegna þess að það er ekki hægt.

Fyrir nokkru skrifaði ég hér færslu um það að með hjartastuðtæki sem hefur verið sett upp í Árnagarði, og öðrum byggingum Háskólans, væru eingöngu leiðbeiningar á ensku. Þessi færsla vakti nokkra athygli og rataði m.a. í blöðin, og í framhaldi af henni fékk ég póst frá umsjónaraðilum innan Háskólans þar sem það var útskýrt fyrir mér að það væri ekki einfalt mál að hafa þessar leiðbeiningar á íslensku.

Ég sat þó við minn keip og hélt því fram að þetta væri sáraeinfalt. Og viti menn - í dag kom ég í Árnagarð og sá að leiðbeiningarnar voru komnar á íslensku, þannig að þetta reyndist ekki vera óleysanlegt vandamál.  En lærdómurinn sem við getum dregið af þessu er: Þegar við spyrjum hvers vegna eitthvað geti ekki verið á íslensku eigum við ekki að láta okkur nægja svarið „Vegna þess að það er ekki hægt“. Það er nefnilega ýmislegt hægt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Jamölu eða Jömulu?

Í gær rakst ég á blaðafrétt sem hófst svo: „Íslensku Eurovisionfararnir Systur hittu í dag úkraínsku söngkonuna Jömulu, sem sigraði Eurovison árið 2016. Þær Elín, Beta og Sigga tóku á móti Jamölu eftir æfingu hennar í dag með blómvendi og spjölluðu svo við söngkonuna og stund.“

Konan sem um ræðir heitir Susana Alimivna Jamaladinova en notar listamannsnafnið Jamala. Það birtist í tveimur myndum í fréttinni – Jömulu og Jamölu. Fyrra dæmið er í þolfalli en það seinna í þágufalli en það skiptir varla máli því að seinna í fréttinni kemur myndin Jamölu líka fyrir í þolfalli. Það sem þarna skiptir máli er að um aukafall er að ræða með endingunni -u.

Í íslensku er það alveg föst regla að einkvæð orð með a í stofni fá ö þess í stað ef þau fá beygingarendingu sem hefst á u: kakaköku, kallaköllum, o.s.frv. Þessi regla er mjög föst í okkur og við beitum henni iðulega á erlend orð þegar þau eru notuð í íslensku samhengi, ekki síst erlend kvenmannsnöfn svo sem Sarah, Tarja o.fl. En málið verður eilítið flóknara þegar tvö a eru í stofninum, í orðum eins og brandari, valtari, banani, sandali, Japani o.fl.

Þá kemur tvennt til greina: Að seinna a-ið breytist í ö en hitt haldist óbreytt, eða fyrra a-ið breytist í ö og það seinna í u. Orðin brandari og valtari fylgja yfirleitt seinna mynstrinu – þágufall fleirtölu er venjulega bröndurum og völturum en sjaldan brandörum og valtörum. Orðin banani og sandali gera ýmist – bæði bönunum og banönum er algengt, sem og söndulum og sandölum. Orð eins og Japani fylgja yfirleitt fyrra mynstrinu – þágufall fleirtölu er venjulega Japönum en sjaldan Jöpunum.

Bæði mynstrin koma sem sé fyrir og hvorugt eðlilegra eða réttara en hitt, en um að gera að fylgja málhefð – nota frekar bröndurum en brandörum og frekar Japönum en Jöpunum af því að ríkari hefð er fyrir fyrrnefndu myndinni. En þegar um er að ræða nöfn sem engin hefð er fyrir í íslensku, eins og Jamala og einnig fornafn varaforseta Bandaríkjanna sem heitir Kamala, hafa málnotendur frjálst val um það hvort mynstrið þeir nota – það er smekksatriði. Jamölu og Jömulu er því jafngilt, sem og Kamölu og Kömulu.

Það er skemmtilegt í þessari frétt að þarna eru báðar myndirnar, Jamölu og Jömulu, notaðar til skiptis. Það er ekkert einsdæmi þegar um val milli beygingarmynda er að ræða að sami málnotandi noti mismunandi myndir til skiptis, alveg ósjálfrátt og án þess að gera sér grein fyrir því. Ég hef sjálfur heyrt mann nota myndirnar sandölum og söndulum með stuttu millibili, án þess að nokkuð virtist ráða því annað en tilviljun.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fyrsti apríl - eða hvað?

Frá og með deginum í dag, föstudeginum 1. apríl, er leyfilegt að segja og skrifa:

  • Það var beðið mig að fara
  • Ég var að versla mér mat
  • Keyptu þetta fyrir mig
  • Þetta er maður sem að ég þekki
  • Þau funda daglega
  • Hann réði ekki við þetta
  • Mikið af fólki kom á fundinn
  • Við hittumst ekki ósjaldan, jafnvel oft í viku
  • Þetta gerðist í lok síðasta áratugs
  • Hann hefur alltaf verið sjálfs síns herra
  • Gerið svo vel að rétta upp hend
  • Viltu dingla fyrir mig?
  • Ég vill ekki gera þetta
  • Svona er þetta á hinum Norðurlöndunum
  • Henni tókst að forða slysi
  • Ég gæti hafa gert þetta
  • Ég ætla að fá blöndu af báðu
  • Verðbólgan sígur upp á við
  • Þannig mönnum er ekki treystandi
  • Ég á von á að tapa þessu
  • Hárið mitt er farið að þynnast
  • Flokkurinn sigraði kosningarnar
  • Tíu smit greindust í gær
  • Markvörður Selfossar stóð sig vel
  • Ég geri mikið af því að lesa
  • Ég kynnti hana fyrir þessari bók
  • Hann er alveg eins og pabbi sinn
  • Mér bar gæfa til að fallast á þetta
  • Ég er að spá í þessu
  • Settu sneiðina í ristavélina
  • Ég var boðinn í mat
  • Opnunartíminn hefur verið lengdur
  • Verslunin opnar klukkan 9
  • Þetta hefur ollið miklum vandræðum
  • Ég þarf að mála hurðarnar
  • Ég er að fara erlendis
  • Ég er votur í fæturnar
  • Gatan er lokuð vegna lagningu malbiks
  • Þeir töluðu illa um hvorn annan
  • Ég opnaði hurðina og lokaði henni aftur
  • Ég sá bæði Kasper og Jesper og Jónatan
  • Ég er að fara eitthvert út í buskann
  • Það er verið að byggja nýjan veg
  • Þau tóku sitthvora bókina
  • Ég fór í kröfugöngu á fyrsta maí
  • Gæði þessarar vöru eru léleg
  • Ég senti bréfið í gær
  • Ég svaf illa í gærnótt
  • Göngum yfir brúnna
  • Mér langar í þessa bók

Eins og væntanlega hefur hvarflað að mörgum er textinn hér að ofan um nýjan málstaðal helber uppspuni og aprílgabb, enda vandlega tekið fram í upphafi að þessi staðall taki gildi 1. apríl. En öllu gamni fylgir nokkur alvara og svo var einnig um þetta. Þarna eru tilfærðar 50 hversdagslegar setningar sem allar eiga það sameiginlegt að hafa vera taldar vond íslenska eða beinlínis rangt mál, og við þeim er eða hefur verið amast t.d. í Málfarsbankanum og ótal málfarsþáttum og -hópum í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum.

Sumar þessara setninga eru vissulega þyrnir í augum margra – annaðhvort af því að þær samrýmast ekki málkennd þeirra eða þeim hefur verið kennt að þær séu rangt mál, nema hvort tveggja sé. En margar setninganna eru hluti af eðlilegu máli verulegs hluta málnotenda, og allar eiga sér áratuga sögu í málinu og eru málvenja stórra hópa. Þar með geta þær ekki talist „rangt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu – „rétt mál er það sem er í samræmi við mál­venju, rangt er það sem brýtur í bága við mál­venju“.

Ég get ómögulega séð að þessar setningar séu nokkur málspjöll. Þarna er oftast um að ræða smávægilegar breytingar á beygingarmyndum, fallstjórn eða merkingu einstakra orða – engar róttækar breytingar á málkerfinu nema þá „nýju þolmyndina“ en hún er viðbót en útrýmir ekki hinni hefðbundnu. Hundruð eða þúsundir sambærilegra breytinga hafa orðið á íslensku á undanförnum öldum án þess að þær hafi valdið rofi í málinu eða gert það ónothæft sem samskiptatæki. Þessar breytingar munu ekki heldur gera það.

Hitt er auðvitað annað mál að við erum flest alin upp við að þessar setningar séu „rangt mál“ og það er ekkert einfalt fyrir okkur að breyta þeirri skoðun – viðurkenna að það sem okkur var innrætt af foreldrum og kennurum, og höfum trúað á, sé ekki heilagur sannleikur. Ég hef sjálfur gengið í gegnum það. En allar þessar breytingar standa yfir og hafa gert það lengi – sumar eru jafnvel að mestu gengnar yfir. Því fyrr sem við hættum að berja hausnum við steininn, því betra – bæði fyrir okkur sjálf og íslenskuna.

Í nýrri bók minni, Alls konar íslenska, eru einmitt þessar 50 setningar teknar fyrir, skoðað hvers vegna hefur verið amast við þeim, sýnt fram á að iðulega er það byggt á misskilningi, og færð rök að því að við ættum að taka þær flestar í sátt sem góða og gilda íslensku. „Fréttin“ um nýjan málstaðal er vissulega aprílgabb – en ég vildi að hún hefði ekki verið það. Ég vildi að við hefðum kjark og tækifæri til að taka málstaðalinn til endurskoðunar og hætta að amast við eðlilegri þróun málsins sem ekki verður stöðvuð hvort eð er.

Þá gæfist okkur betri tími til að fást við það sem raunverulega skiptir máli: Að sjá til þess að íslenska sé notuð alls staðar þar sem þess er kostur, og unga fólkið fái jákvætt viðhorf til málsins og börnin hafi nægilega íslensku í málumhverfi sínu til að byggja sér upp traust málkerfi. Ef við fáum unga fólkið ekki til liðs við íslenskuna skiptir engu máli þótt okkur tækist að kenna öllum að segja mig langar og ég vil eins og páfagaukar.