Málfar ökuprófa
Í athyglisverðri umfjöllun í Stundinni heldur reyndur ökukennari því fram að málfar ökuprófa „villi um fyrir venjulegu fólki. Texti sé uppskrúfaður og úr takti við almenna málnotkun“. Hann segir: „Ég kom einhvern tíma að máli við þá sem stjórnuðu ökunámsdeildinni hjá Samgöngustofu og benti á þetta. Ég stakk upp á að það yrði fenginn rýnihópur fólks á prófaldri til að lesa yfir prófin og gera athugasemdir. Hvað heldurðu að þeir geri, þessi gáfnaljós? Þeir vísuðu málinu til Íslenskrar málstöðvar og að sjálfsögðu fengu þeir út að það var alveg hundrað prósent rétt íslenska.“
En texti getur verið mjög torskilinn venjulegu fólki þótt hann sé „hundrað prósent rétt íslenska“, og þetta minnti mig á bréf sem ég sendi Samgöngustofu fyrir þremur árum:
„Ég heyrði í gær viðtal við starfsmann Samgöngustofu þar sem kom fram að fallprósenta á skriflegu ökuprófi hefði farið hækkandi á síðustu árum, þótt ekkert benti til að prófin hefðu þyngst. Þetta rifjaði upp fyrir mér að fleiri en einn hafa nefnt það við mig nýlega að málfarið á spurningum í skriflega prófinu sé mjög fjarri daglegu máli og valdi oft vandkvæðum fyrir þá sem ekki eru þeim mun sterkari í íslensku. Athugasemdir við færslu mína um þetta efni á Facebook sýna að ég er ekki einn um þá skoðun að málfar spurninga á ökuprófi sé óeðlilega tyrfið og spurningarnar ekki til þess fallnar að draga fram raunverulega kunnáttu próftaka í námsefninu.
Nú hefur verið mikil umræða um að lesskilningi unglinga fari hrakandi. Spurningin er hvort hækkuð fallprósenta á að einhverju leyti rætur að rekja til versnandi lesskilnings. Það er vitaskuld áhyggjuefni ef lesskilningi fer hrakandi en það ætti ekki að leiða til þess að fleiri falli á ökuprófi. Það hlýtur að vera meginatriði að fá fram raunverulega kunnáttu fólks. Sú kunnátta fæst örugglega frekar fram með spurningum sem eru á einföldu og auðskiljanlegu máli en með torskildum spurningum sem próftakar læra svörin við utanbókar – án þess að skilja endilega hvað í þeim felst.
Faðir sem hafði verið að aðstoða seinfæra dóttur sína við undirbúning ökuprófsins talaði sérstaklega um það við mig hvernig orðalag spurninga hefði þvælst fyrir dóttur hans og valdið því að hún fékk rangt fyrir spurningar um atriði sem hún kunni í raun og veru. Flóknar eða þvælnar spurningar með tvíræðu orðalagi vefjast óhjákvæmilega meira fyrir fólki sem á undir högg að sækja af ýmsum ástæðum – er t.d. seinfært eða lesblint - án þess að slakari frammistaða þessa fólks á skriflegu ökuprófi þurfi að segja nokkuð um ökuhæfni þess og raunverulega kunnáttu í námsefninu.
Þar að auki er hætt við að spurningar af þessu tagi vefjist sérstaklega fyrir fólki sem ekki hefur íslensku að móðurmáli. Innflytjendum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum og trúlegt er að þeim innflytjendum sem þreyta ökupróf hafi einnig fjölgað verulega. Mikilvægt er að kanna hvort hærra hlutfall innflytjenda eigi þátt í hærri fallprósentu á ökuprófi, eða hvort fallprósenta í hópi innflytjenda sé hærri en hjá þeim sem eiga íslensku að móðurmáli. Sé svo bendir það til þess að ökuprófin mismuni innflytjendum á ómálefnalegan hátt og það er vitaskuld alvarlegt.“
Á sínum tíma fékk ég málefnalegt svar frá Samgöngustofu þar sem sagði m.a.:
„Þeir próftakar sem eiga í erfiðleikum með lestur s.s. eru lesblindir eða illa læsir hafa kost á að taka sérpróf þar sem reynt er að koma til móts við vandann með ítarlegri skýringum, aðstoð við að skilning eða upplestri. Við þurfum að þjónusta mikinn meirihluta þjóðarinnar með mismikinn lesskilning. Við erum með próf á erlendum málum fyrir þá nýbúa sem ráða ekki eða illa við íslenska textann. Við höfum próf á ensku, taílensku, pólsku, spænsku og norðurlandamálunum. Á öðrum málum er notast við túlka.“
„Fræðileg próf verða að vera réttmæt og áreiðanleg eins og gildir um öll próf og því reynum við að fremsta megni að hafa framsetningu og orðalag á þessum prófum sem næst eðlilegu málfari. Mikil vinna er lögð í samningu nýrra prófatriða og koma þar að m.a. fulltrúar ökukennara og eftir forprófun og villugreiningu eru þær settar í notkun. Einnig höfum við sent prófspurningar til málfarsgreiningar í Háskóla Íslands þar sem áhersla var lögð á að meta málfar og skýrleika spurninga. Meira en 10 ár eru síðan það var gert og ef til vill kominn tími á að setja þau í slíka greiningu aftur.“
Það er gott og blessað ef fólk getur fengið að taka próf á móðurmáli sínu. En það hefur ekki mikið upp á sig ef námskrár og námsefni er eingöngu til á íslensku eins og fram kemur hjá ökukennaranum. Þarna sé ég ekki betur en verið sé að mismuna fólki gróflega. Ég endurtek það sem ég sagði í bréfi mínu til Samgöngustofu:
„Sem málfræðingi finnst mér mjög slæmt ef tungumálið er notað til þess – þótt óviljandi sé – að mismuna fólki á einhvern hátt. Það er ekki til þess fallið að skapa jákvætt viðhorf til málsins, en ýmsar rannsóknir sýna að jákvætt viðhorf málnotenda, sérstaklega ungs fólks, til tungumálsins er eitt af því sem skiptir mestu máli fyrir framtíð málsins. Þess vegna hvet ég Samgöngustofu til að kanna hvort ástæða sé til að endurskoða framsetningu og orðalag spurninga í skriflegu ökuprófi og færa nær daglegu máli, þannig að kunnátta í námsefninu fremur en íslenskukunnátta ráði frammistöðu próftaka.“