Ætlun sendenda og upplifun viðtakenda

Í umræðum um kynjað og kynhlutlaust málfar er iðulega bent á að hefðbundin málnotkun, þar sem karlkyn fornafna og lýsingarorða er notað í almennri merkingu, sé málhefð sem eigi sér langa sögu og karlkyn vísi í þessari hlutlausu merkingu til allra kynja en ekki sérstaklega til karlmanna. Þetta er hárrétt. En í framhaldinu er oft fullyrt að þessi notkun karlkyns sé ekki útilokandi á nokkurn hátt og þess vegna sé misskilningur, misráðið og með öllu óþarft að reyna að breyta málnotkun hvað þetta varðar og nota hvorugkyn í stað karlkyns.

En þarna er litið fram hjá því að málnotkun felur í sér boðskipti, og þátttakendur í þeim eru bæði þau sem senda boðin – mælendur eða höfundar ritaðs texta, og viðtakendur boðanna – áheyrendur eða lesendur. Þótt sendendur ætli sér ekki að útiloka nein með málnotkun sinni kunna viðtakendur að upplifa útilokun. Þess vegna er ekki nóg að segja bara að karlkyn sé hlutlaust kyn í máli sendenda boðanna ef viðtakendurnir upplifa það sem útilokandi. Upplifun viðtakenda boðanna er alveg jafngild og ætlun sendendanna.

Þarna geta vissulega skapast árekstrar milli mismunandi viðhorfa, en meginatriðið er að fólk sýni ólíkum sjónarmiðum skilning og virðingu. Það er ekki líklegt til að leiða til frjórrar umræðu og gagnkvæms skilnings ef einungis er horft á málin frá öðru sjónarhorninu – annaðhvort sendenda eða viðtakenda. Það er engin ástæða til að gera þeim sem nota karlkynið í hlutlausri merkingu upp einhverja ætlun til útilokunar, en þau sem nota karlkynið þannig þurfa hins vegar að átta sig á – og virða – þá upplifun ýmissa að um útilokun sé að ræða.