Festar, Festis, eða Festi?

Eignarhaldsfélagið Festi hefur töluvert verið í fréttunum undanfarið í tengslum við starfslok forstjóra þess. Í þessum fréttum hefur komið fram töluverð ringulreið á beygingu nafnsins – ýmist er talað um forstjóra Festi, forstjóra Festar eða forstjóra Festis. Enginn vafi er á því að nefnifallið er Festi – en hvernig getur eignarfall nafnorða sem enda á -i verið? Þetta gæti vissulega verið karlkynsorð, eins og neisti, og beygst þá Festi – Festa – Festa – Festa. Ég hef samt hvergi séð þá beygingu notaða og óhætt að afskrifa þann möguleika að hér sé um karlkynsorð að ræða.

Þetta gæti líka verið hvorugkynsorð, eins og nesti, og þá ætti beygingin að vera Festi – Festi – Festi – Festis. Hvorugkynsorðið festi er vissulega til, og skýrt í Íslenskri orðabók sem 'e-ð sem festir e-n, er óbreytanlegt'. En mörgum finnst liggja beinast við að um sé að ræða kvenkynsorðið festi, eins og í hálsfesti, og þá ætti eignarfallið að vera Festar. En á heimasíðu fyrirtækisins virðist eignarfallið yfirleitt vera haft án endingar, Festi – talað er um hlutverk Festi, hluthafa Festi, ársskýrslu Festi, stjórn Festi, forstjóra Festi o.s.frv. Getur það staðist? Geta íslensk orð sem enda á -i í nefnifalli verið óbreytt í eignarfalli?

Reyndar. Kvenkynsorð sem enda á -i fá ýmist –ar-endingu í eignarfalli, eins og festi í merkingunni 'hálsfesti', eða eru eins í öllum föllum eintölu, eins og gleði, reiði og ýmis fleiri orð. Orðið heimilisfesti er til bæði í hvorugkyni og kvenkyni. Í hvorugkyni endar það á -s í eignarfalli eins og við er að búast, en hvað með kvenkynsmyndina? Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er hún sögð vera heimilisfestar en ég held að það sé ekki rétt – samkvæmt minni máltilfinningu er hún heimilisfesti og þannig er hún í nær öllum dæmum á tímarit.is til heimilisfesti, vegna heimilisfesti, ekki til heimilisfestar, vegna heimilisfestar.

Niðurstaðan er því sú að eðlilegt sé að líta á heitið Festi sem kvenkynsorð sem sé eins í öllum föllum eintölu, og tala því um forstjóra Festi. Það rímar við meðferð orðsins á heimasíðu fyrirtækisins, eins og áður segir, þótt ég skuli ekki fullyrða að sama gildi um allar fréttir sem fyrirtækið sendir frá sér. En ég mæli sem sé með því að eignarfallið Festi sé notað.