Henni var brunað upp á svið

Í frásögn af ferð söngkonunnar Bríetar til Vestmannaeyja rakst ég á setninguna „Henni var brunað af flugvellinum og beint upp á svið.“ Mér fannst þetta athyglisvert því að þetta er ekki venjuleg notkun sagnarinnar bruna. Sambandið henni var brunað lítur út eins og þolmynd af germyndinni (einhver) brunaði henni, þar sem henni er andlag í þágufalli. En bruna er venjulega áhrifslaus, tekur ekki með sér andlag – við segjum bíllinn brunar en yfirleitt ekki hún brunaði bílnum eða ég brunaði henni í bæinn. Einstöku slík dæmi eru þó til.

Í Víðförla 1982 segir „Hann tók bílinn og brunaði honum eftir borðinu“ og í DV 1985 segir „Hún tók því orðalaust í handföngin á stólnum og brunaði honum út á gang“. Á netinu má finna germyndardæmi eins og „mamman út á nærfötunum og með verkjapillurnar í hendinni og brunaði henni í laugina“, og þolmyndardæmi eins og „við fengum ofboðslega stuttan tíma með henni áður en henni var brunað upp á Vökudeild“, „Honum var brunað á aðgerðarborðið hið snarasta og reynt að laga vandamálið“ og „Bílnum var brunað út að Sögade þar sem hann beygði til hægri eða í austur“.

Það eru sem sé til bæði dæmi um að bruna bíl og bruna fólki, þ.e. 'bruna með fólk í bíl'. Þetta er hliðstætt við að bæði er hægt að tala um að aka bíl og aka fólki, keyra bíl og keyra fólk(i) – og líka fljúga flugvél og fljúga farþegum. Þarna er áhrifslausa sögnin bruna gerð að áhrifssögn. Slíkt er ekki einsdæmi. Sögnin streyma var t.d. áhrifslaus til skamms tíma – áin streymir, en það er enginn sem streymir ánni. En á síðustu árum hefur merking sagnarinnar víkkað út og hún fengið andlag – nú er talað um að streyma kvikmyndum, streyma fundum o.s.frv., án þess að gerðar séu athugasemdir við það.

Enn nærtækara er að taka dæmi af sögninni fljúga sem til skamms tíma var áhrifslaus og tók ekki með sér neitt andlag, aðeins frumlag. Fuglar flugu, og örvar flugu, en enginn flaug fuglum eða örvum eða neinu öðru. Það var ekki fyrr en eftir tilkomu flugvéla í byrjun 20. aldar að þörf skapaðist á að láta fljúga fá andlag. Elsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Dagsbrún 1917: „Vélinni var flogið í 1500 til 2000 metra hæð.“ Þessa merkingu sagnarinnar er ekki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Nú dettur auðvitað engum í hug að nokkuð sé athugavert við að fljúga flugvélum þótt stundum séu reyndar gerðar athugasemdir við að fljúga farþegum.

Nýjungar eins og henni var brunað upp á svið og hann brunaði bílnum eftir borðinu eiga sér því skýr fordæmi í hegðun annarra sagna á svipuðu merkingarsviði og þróun sem hefur orðið í notkun annarra sagna. Ég ætla ekki að mæla sérstaklega með þessum nýjungum eða leggja til að fólk taki þær upp, og á svo sem ekki von á að þær breiðist út, en mér finnst þetta vera skemmtileg dæmi um skapandi málnotkun. Merking setninganna liggur í augum uppi og ég sé ekki að þessi víkkun á notkunarsviði sagnarinnar bruna spilli málinu á nokkurn hátt.