háttsettastur

Í gær var efsta stigið af háttsettur (eða hátt settur) hér til umræðu. Um það hefur iðulega verið fjallað í málfarsþáttum, t.d. í þætti Gísla Jónssonar sem sagði í Morgunblaðinu 1992: „Til er það ástand að vera hátt settur. Í því sambandi er settur lýsingarháttur þátíðar af sögninni að setja. Nú eru engin skörp skil á milli lýsingarhátta af sögnum og eiginlegra lýsingarorða. Orðasambandið hátt settur tekur slíkri stigbreytingu, að miðstig verður hærra settur og efsta stig hæst settur. En sagt var um rússneskan mann að hann væri „háttsettastur“ þeirra sem fallið hefðu í Grosní. Ekki var það gott.“ Á tímarit.is má þó finna um 50 dæmi um efsta stigið háttsettastur, það elsta frá 1965, og yfir 200 dæmi um miðstigið háttsettari, það elsta frá 1910.

Málið snýst hér um það hvernig eigi að líta á sambandið sem um er rætt – er það samsett orð myndað af atviksorði og lýsingarorði, háttsettur, eða er það samband tveggja sjálfstæðra orða, atviksorðs og lýsingarorðs, hátt settur? Hvort tveggja fellur ágætlega að reglum málsins. Við höfum sambönd atviksorðs og lýsingarorðs sem ótvírætt eru samsett orð, svo sem velviljaður, en líka dæmi þar sem ótvírætt er að um tvö sjálfstæð orð er að ræða, svo sem vel haldinn. Hvorum hópnum tilheyrir háttsettur / hátt settur? Vandinn er sá að orðaskil koma ekki endilega fram í framburði, þótt oft megi draga ályktanir af áherslunni – er áhersla á báðum liðum, eins og í vel haldinn, eða eingöngu á fyrri lið, eins og í velviljaður?

Ég hef ekki rannsakað þetta og get því ekkert fullyrt um það, en tilfinning mín er sú að áherslan sé eða geti verið misjöfn eftir setningarstöðu sambandsins. Þar sem sambandið stendur með nafnorði í dæmum eins og háttsettur embættismaður held ég að áherslan sé yfirleitt bara ein sem bendir til eins orðs, en ef það stendur sem sagnfylling eins og í hann er (mjög) hátt settur eru frekar tvær áherslur sem bendir til tveggja orða. En það er ljóst að flestar eða allar orðabækur líta á háttsettur sem eitt orð. Þetta á við t.d. um Íslenska orðabók, Íslenska samheitaorðabók, Íslenska nútímamálsorðabók, Stafsetningarorðabókina og Stóru orðabókina um íslenska málnotkun. Sama gildir um Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, Íslenskt orðanet o.fl.

Einhverjum gæti dottið í hug sú mótbára gegn myndinni háttsettastur að málið snúist ekki um hver sé „settastur“ heldur hver sé hæst settur og þess vegna hljóti stigbreytingin að eiga að koma á fyrri liðinn. En það er misskilningur. Keppnin um „rauðhærðasta Íslendinginn“ snýst ekki um hver sé hærðastur, heldur hver sé með rauðasta hárið. Það er einfaldlega meginregla í íslensku að stigbreyting lýsingarorðs komi fram á síðasta lið orðsins, jafnvel þótt hún eigi merkingarlega fremur við fyrri liðinn. Ef litið er á háttsettur sem samsett lýsingarorð, eins og orðabækur gera, hlýtur það því að vera háttsettari í miðstigi og háttsettastur í efsta stigi, enda er sú beyging gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

Þetta á sér skýra hliðstæðu í beygingu orðsins velviljaður sem er velviljaðri í miðstigi og velviljaðastur í efsta stigi – ekki *beturviljaður og *bestviljaður. Miðstig af sambandinu vel haldinn er hins vegar betur haldinn, ekki *vel haldnari, og efsta stigið best haldinn, ekki *vel haldnastur. Ástæðan fyrir þessum mun er sú að velviljaður er runnið saman í eina heild, eitt orð, í huga málnotenda, en vel haldinn ekki. Sambandið hátt settur / háttsettur er þarna einhvers staðar á milli – runnið saman í huga sumra málnotenda en ekki annarra, og e.t.v. misjafnt eftir setningarstöðu. Það er mjög eðlilegt og ekkert við það að athuga. Efsta stig sambandsins hátt settur er vitanlega hæst settur, en efsta stig lýsingarorðsins háttsettur er háttsettastur.