Sló rafmagnið út eða sló rafmagninu út?

Í fyrirsögn á mbl.is í dag stóð „Rafmagninu sló út í Grindavík“ og á Vísi stóð „Rafmagni sló út í álverinu í Straumsvík eftir jarðskjálftahrinuna í nótt“. Þarna er notað þágufallsfrumlag með sambandinu slá út en nefnifall er einnig algengt – „Lægðagangurinn hafi reynst erfiður en hratt sé ráðist í viðgerðir um leið og rafmagn slær út“ var sagt í Vísi í mars, og „Margir kunna að spyrja sig hvort kanínur séu raunverulega svo kulsæknar að ráðast þurfi í sérstakar aðgerðir til þess að hlýja þeim þegar rafmagn slær út“ var sagt í sama miðli í apríl. Jón G. Friðjónsson fjallaði um þetta samband í Morgunblaðinu 2003 og taldi þágufallið rétt – rafmagn slær út væri breyting úr rafmagni slær út en sú breyting hefði ekki öðlast hefð.

Í elstu dæmum sem ég hef fundið um slá út í þessari merkingu er sambandið yfirleitt haft um virkjanir og notað nefnifall með því. Í Mjölni 1963 segir: „Stafaði það af því að Skeiðfossstöðin „sló út“ við fyrsta kippinn.“ Hér eru gæsalappir um slá út sem sýnir að orðasambandið hefur ekki verið búið að festa sig í sessi. Í Morgunblaðinu 1972 segir „stöðin [Búrfellsstöð] sló út á nokkru svæði“. Í Alþýðublaðinu sama ár segir: „Búrfellsvirkjun og allar Sogsvirkjanirnar slógu út“ og í sama blaði, sama ár segir „Búrfellsstöðin og allar Sogsstöðvarnar slógu út vegna þessara truflana“. Í Þjóðviljanum 1973 segir: „Ástæðan fyrir því, að gasaflstöðin sló út og einnig spennatengingin við Írafoss, var yfirálag.“

Elsta dæmi um rafmagn í þessu sambandi er í Tímanum 1973: „Seltan sezt í einangrara á háspennuvirkjum og veldur því að rafmagni slær út.“ Í Vísi 1974 segir: „5 skepnur drápust áður en rafmagninu sló út.“ Í Vísi 1975 segir: „Um leið og pilturinn snerti spenninn í rafstöðinni sló út öllu rafmagni af Stokkseyri og Eyrarbakka.“ Í Dagblaðinu 1976 segir „sló út öllu rafmagni þar um tíma.“ Í þessum dæmum er notað þágufall, en nefnifall sést fyrst með rafmagn árið 1976 og er notað í nokkrum dæmum frá því ári. Í Morgunblaðinu segir: „Rafmagnið sló út“, í Tímariti Hjúkrunarfélags Íslands segir „Rafmagnið sló út smá tíma“, í Vísi segir „enda var álagið það mikið að rafmagnið sló út þegar kveikt var á öllum ljósunum.“

En sambandið slá út í þessari merkingu getur líka haft geranda og rafmagn sem andlag, ýmist í þolfalli eða þágufalli. Í Morgunblaðinu 1988 var fyrirsögnin „Kötturinn sló út rafmagnið“. Í Morgunblaðinu 2012 segir: „orkufyrirtækið ConEd sló út rafmagnið á hluta neðri Manhattan“. Í Fréttatímanum 2015 segir: „einhver sló út rafmagnið í miðju lagi hjá okkur.“Í Fréttum 1994 segir: „Ég fór aftur út úr herberginu og sló út rafmagninu af því ég sá engan eld.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Ég drap strax á vélinni, skreið út og sló út rafmagninu á höfuðrofa.“ Í DV 2008 segir: „óprúttinn maður komst inn í húsið og sló út rafmagninu fyrir fáeinum árum.“

Sambandið slá út hagar sér því stundum eins og sagnirnar hækka og stækka sem geta tekið geranda í nefnifalli og andlag í þolfalli, bankinn hækkaði vextina, en líka sleppt gerandanum og þá verður andlagið að nefnifallsfrumlagi, vextirnir hækkuðu. Þetta er sambærilegt við ég sló út rafmagniðrafmagnið sló út. En sambandið getur líka stundum hagað sér eins og sagnirnar fækka og fjölga sem geta tekið geranda í nefnifalli og andlag í þágufalli, fyrirtækið fækkaði starfsmönnum, en líka sleppt gerandanum og þá verður andlagið að frumlagi en heldur þágufalli sínu, starfsmönnum fækkaði. Þetta er sambærilegt við ég sló út rafmagninurafmagninu sló út.

Spurningin er hvort einhver merkingarmunur sé á þessum tveimur tilbrigðum, nefnifalli/þolfalli annars vegar og þágufalli hins vegar. Í dálknum „Málið“ í Morgublaðinu 2014 segir: „Lagt hefur verið til upp á von og óvon að t.d. rofi eða vatn geti slegið rafmagnið út en rafmagninu sjálfu slái út líkt og eldingu slær niður.“ Ég sé ekki að þessi munur eigi sér stoð í þeim dæmum sem ég hef skoðað – það má finna fjölda dæma bæði um að eitthvað slái rafmagninu út og rafmagn slái út. Á tímarit.is eru álíka mörg dæmi um rafmagn í nefnifalli/þolfalli og þágufalli með slá út. Elstu dæmi um hvort tveggja eru álíka gömul, og bæði nefnifall og þágufall eiga sér því u.þ.b. 50 ára hefð í þessu sambandi.

Sambandið slá út er einnig notað í öðrum merkingum og þar eru ekki sömu tilbrigði. Þegar það merkir 'fella úr keppni' er alltaf notað þolfall – Frakkar slógu Íslendinga út, alls ekki *Frakkar slógu Íslendingum út. En þegar það merkir 'setja út spil' er alltaf notað þágufall – ég sló út tígli, alls ekki *ég sló út tígul. Í þessum merkingum er ekki hægt að sleppa gerandanum – *Íslendingar slógu út og *tígli sló út gengur ekki. En í þeirri merkingu sem hér er til umfjöllunar er engin ástæða til annars en telja föllin jafnrétthá – bæði rafmagnið sló út og rafmagninu sló út er góð og gild íslenska, sem og ég sló út rafmagnið og ég sló út rafmagninu.