Að eiga efni á

Oft eru gerðar athugasemdir við orðasambandið eiga efni á og sagt að það eigi að vera hafa efni á. Vissulega virðist eiga efni á vera nýlegt í málinu – elstu ritmálsdæmi sem ég finn eru tæpra 20 ára gömul. Í Fréttablaðinu 2003 segir: „Hversu margir aka um á bílum sem þeir eiga ekki efni á af því að nágranninn er á svo flottum bíl?“ Í sama blaði 2004 segir: „Ég er bara að bíða eftir því að eiga efni á því.“ Í Bæjarins besta sama ár segir: „Fólk sem vill mennta sig í dag hefði þurft að kosta sig til Reykjavíkur og kannski ekki átt efni á því.“ Upp úr þessu fór dæmum ört fjölgandi og þetta samband er nú mjög algengt.

Merking sagnanna hafa og eiga skarast verulega og oft eru þær notaðar í sömu orðasamböndum með sömu merkingu. Þannig er bæði hafa möguleika á og eiga möguleika á mjög algengt, og einnig er til bæði hafa kost á og eiga kost á, hafa tækifæri á og eiga tækifæri á, hafa rétt á og eiga rétt á, hafa völ á og eiga völ á, og fleira mætti nefna. Þess vegna er vel skiljanlegt að sambandið eiga efni á komi upp við hlið hafa efni á. Ég fæ ekki séð að hægt sé að halda því fram að það sé á einhvern hátt órökréttara að nota eiga en hafa þarna, eða það stríði gegn merkingu orðanna eiga og efni að nota þau saman á þennan hátt.

Því er nauðsynlegt að rifja upp viðurkennda skilgreiningu á réttu máli og röngu: „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“ Vissulega getur verið álitamál hvenær einhver nýjung er orðin málvenja en ég hef notað eftirfarandi skilgreiningu: „Ef tiltekin nýjung hefur komið upp fyrir 20 árum eða meira, er farin að sjást í rituðu máli, nokkur fjöldi fólks hefur hana í máli sínu, og börn sem tileinka sér hana á máltökuskeiði halda henni á fullorðinsárum“ er hún orðin málvenja og þar með rétt mál.

Það er ljóst að sambandið eiga efni á fullnægir öllum þessum skilyrðum og verður því að teljast rétt mál. En vegna þess hversu nýtt sambandið er hefur verulegur hluti málnotenda ekki alist upp við það og það stríðir gegn málkennd þeirra. Við því er ekkert að segja – það er alveg eðlilegt. En það er hins vegar ekki eðlilegt að amast við öllu sem stríðir gegn málkennd manns sjálfs og líta svo á að það hljóti þar með að vera rangt mál – röng íslenska. Ungt fólk hefur alist upp við eiga efni á og fyrir því mörgu er þetta fullkomlega eðlilegt mál og ekki vitnisburður um fákunnáttu, hroðvirkni eða heimsku. Sýnum máli annarra umburðarlyndi!