Leikbreytir

Nýlega var frétt í Viðskiptablaðinu undir fyrirsögninni „MAX-vélarnar „leikbreytir“ fyrir Icelandair“. Í fréttinni kemur fram að þetta er tilvitnun í orð forstjóra fyrirtækisins á fjárfestafundi að vélarnar hefðu verið „leikbreytir (e. game changer) fyrir reksturinn“. Fundurinn fór fram á ensku þannig að þetta er þýðing á orðum forstjórans og gæsalappirnar um orðið leikbreytir í fyrirsögninni og enska samsvörunin á eftir því í textanum sýnir að ekki er gert ráð fyrir því að orðið komi lesendum kunnuglega fyrir sjónir, enda er það sjaldgæft þótt það sé ekki alveg nýtt. Í kynningu á nýjum bíl í Morgunblaðinu 2017 segir t.d. „það blasti engu að síður við að hér var kominn ákveðinn „leikbreytir“ á sínu sviði“.

Orðið leikbreytir er rétt myndað og gagnsætt orð og í sjálfu sér ekkert við það að athuga – nema það á sér enga sögu í íslensku. Í enskri orðabók eru gefnar tvær skýringar á game changer. Önnur er „something or someone that affects the result of a game very much“, þ.e. 'eitthvað eða einhver sem gerbreytir úrslitum leiks', en hin er „something such as a product or event that affects a situation or area of business very much“, þ.e. 'eitthvað, svo sem framleiðsluvara eða atburður, sem gerbreytir stöðu eða sviði í viðskiptum'. Það er augljóst að seinni merkingin er líking, byggð á hinni fyrri – viðskiptunum er líkt við leik. En leikbreytir á sér enga hefð í íslensku í fyrri merkingunni, eftir því sem ég fæ best séð.

Það er engin sérstök ástæða til að búa til nýjar íslenskar líkingar sem ekki eiga sér fyrirmynd í málinu til þess eins að elta enskt orðalag. Hægt hefði verið að orða þessa merkingu á ýmsan annan hátt án þess. Það hefði t.d. mátt segja MAX-vélarnar hafa skipt sköpum fyrir reksturinn, eða MAX-vélarnar hafa valdið straumhvörfum í rekstrinum, eða MAX-vélarnar hafa gerbreytt rekstrinum til hins betra. E.t.v hefur blaðamanni fundist nauðsynlegt að þýða orð forstjórans beint þar sem tilvitnunin var höfð innan gæsalappa. En í þýðingu eru hvort eð er óhjákvæmilega notuð önnur orð en í frumtexta, og þar að auki hefði verið einfalt að endursegja ummælin í óbeinni ræðu í stað þess að nota beina tilvitnun.

Stundum er sagt að ástæðulaust sé að búa til íslensk nafnorð til að samsvara enskum nafnorðum – oft sé heppilegra að orða hlutina á annan hátt á íslensku. Það er mikið til í þessu, en þegar um íðorð er að ræða getur þó verið æskilegt eða nauðsynlegt að hafa nákvæma samsvörun á milli málanna. Svo er ekki í þessu tilviki en auðvitað er leikbreytir íslenska þótt það eigi sér enska fyrirmynd og engin ástæða til að amast við notkun þess í umræddri frétt. En það er samt rétt að hafa í huga að „hollur er heimafenginn baggi“ – við eigum oft orð eða orðasambönd sem hefð er fyrir í málinu og henta betur til að orða tiltekna merkingu en nýyrði sem eiga sér enga hefð eða skírskotun í íslensku.