Að framlengja leiknum – eða stytta honum

Í morgun rakst ég á setninguna „Báðum hálfleikj­un­um var síðar stytt í 40 mín­út­ur“ á vefmiðli. Þetta orðalag hef ég ekki séð áður og við snögga leit á netinu fann ég aðeins eitt annað dæmi: „Bindissamningar höfðu verið tólf mánuðir í ADSL-þjónustu en þeim var stytt í sex mánuði“ í Fréttablaðinu 2007. Þetta á sér þó hliðstæðu í notkun sagnarinnar framlengja sem iðulega tekur með sér þágufall í setningum eins og leiknum var framlengt, „og er það nýleg villa, sem ber að varast“ segir í Móðurmálsþætti Vísis 1956. Gísli Jónsson tók nokkrum sinnum í sama streng í þáttum sínum í Morgunblaðinu og í Málfarsbankanum er tekið framframlengja stýri þolfalli.

Ég man hvenær ég heyrði fyrst notað þágufall með framlengja. Það var í knattspyrnulýsingu í útvarpinu um miðjan sjöunda áratuginn að lýsandinn sagði „Leiknum verður framlengt“. Þetta fannst mér í þá daga augljós villa – sem það var fyrir mér. En þetta er samt miklu eldra. Í Vesturlandi 1939 segir: „dansleiknum var framlengt til kl. að ganga 6 um morguninn“ og í Morgunblaðinu sama ár segir „Leiknum var framlengt um 10. mín. á hvort mark“. Í Tímanum 1941 er málfarspistill eftir Friðrik Hjartar þar sem segir: „Í útvarpsfréttum hefir m. a. verið sagt: Þessum samningum var öllum framlengt, (á að vera: þessir samningar voru allir framlengdir).“ Þágufall með framlengja virðist því hafa verið orðið útbreitt um 1940.

Rök fyrir því að nota þolfall með framlengja en ekki þágufall eru oft sótt til sagnarinnar lengja eins og í Móðurmálsþætti Vísis 1956: „Með réttu á að segja: Framlengja eitthvað á sama hátt og við segjum lengja eitthvað. Leikurinn var lengdur fram, leikurinn var framlengdur, sýningin var lengd fram, framlengd.“ Vissulega var áður hægt að nota sambandið lengja fram á þennan hátt, í sömu merkingu og framlengja, eins og sést á dæmi úr Þjóðólfi 1909: „Þessu hefði þingið þurft að breyta í vetur, en eigi hinum óþarfanum, að lengja fram fræðslusamþyktafrestinn.“ En ég held að þetta samband sé aldrei notað svona lengur – ég finn engin dæmi á við leikurinn var lengdur fram og finnst það hljóma mjög óeðlilega.

Þess vegna má halda því fram að sögnin framlengja hafi rofið tengsl sín við lengja (fram) og lifi nú sjálfstæðu lífi – og geti tekið það fall sem málnotendum finnst eðlilegt, óháð lengja. Þótt meginreglan sé vissulega að samsett sögn stýri sama falli og grunnsögnin er ekkert einsdæmi að fallstjórnin sé önnur, ekki síst ef orðasamband með samsetningarliðunum er ekki til. Þannig stýrir aðgæta þolfalli (aðgæta sjúklinginn) en gæta ein og sér stýrir eignarfalli (gæta barna) og sambandið gæta að tekur með sér þágufall (gæta að sér). Sögnin stigbreyta tekur þolfall (stigbreyta lýsingarorðin) þótt breyta ein og sér taki þágufall (breyta áætluninni). Fleiri dæmi mætti nefna.

Þágufall með framlengja á sér því a.m.k. 80 ára sögu og ég sé enga ástæðu til að kalla það rangt eða amast nokkuð við því. Í málinu eru ótal dæmi um breytta fallstjórn sagna og þær breytingar eru yfirleitt meinlausar – hvorki torvelda skilning né valda misskilningi, þótt það geti vissulega komið fyrir. En öðru máli gegnir um þágufall með stytta eins og nefnt var í upphafi. Ég geri ráð fyrir að það sé ekki mjög útbreitt þótt auðvitað geti það verið mun algengara í talmáli en ritmálsdæmi benda til. En vegna þess að það er tæpast orðið málvenja stórs hóps er eðlilegt að mæla gegn því að svo stöddu, í samræmi við venjulegt viðmið um rétt mál og rangt, þótt það væri enginn sérstakur skaði að það breiddist út.