Að á

Í gær skrifaði ég um sögnina heyja, en önnur sögn sem hagar sér ekki ósvipað er æja í merkingunni ‚stoppa og hvíla sig á ferðalagi‘. Þátíðin hennar er áði, þannig að þar er ekkert hljóð sameiginlegt nútíð og þátíð. Ég þekki ekki dæmi um að nútíðin hafi áhrif á þátíðina, sem þá félli saman við þátíð sagnarinnar æja í merkingunni ‚segja æ, kveinka sér, stynja, hljóða, veina‘. Hins vegar eru fjölmörg dæmi um að þátíðin hafi áhrif á nafnháttinn þannig að hann verði á. Í Tímanum 1951 segir: „Við verðum að á hér, sagði hann.“ Í Sunnudagsblaði Tímans 1971 segir: „Við urðum að á nokkru sinnum á leiðinni.“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „við urðum að á oftar en áður á ferðum okkar um sanda og strendur og borgir Suður-Kaliforníu.“

Áhrifin ná einnig til nútíðarmynda eins og Gísla Jónsson grunaði: „Reyndar er mér ekki grunlaust um að einhver segi: ég ái í nútíð framsöguháttar, þá sjaldan þessi sögn er enn notuð.“ Í Þjóðviljanum 1959 segir: „Það verð ég og að játa, að öllu minna þykir mér til koma borgarinnar við sundið eftir því sem ég ái þar oftar.“ Í Eyjablaðinu 1950 segir: „þú áir og heilsar nú íslenzkri vör.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1968 segir: „Hann áir á vínveitingastað eftir vinnuna og kemur of seint í matinn.“ Í Fálkanum 1961 segir: „Við áum tvívegis á leiðinni.“ Í Heimskringlu 1948 segir: „Þegar þið áið á kvöldin, þá skuluð þið setja vagnstöngina, svo að hún bendi á pólstjörnuna.“

Jón Aðalsteinn Jónsson lagði áherslu á að það ætti að segja „þú æir, hann æir hestunum (alls ekki áir)“, og bætti við: „Hitt þekkist í talmáli, þótt ekki sé rétt, að segja: ég ætla að á hestunum við ána, við ætlum að á þeim við ána o.s.frv. Þannig hliðra menn sér hjá hinni réttu beygingu so. að æja […].“ En myndin á er flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og skýrð sérstaklega þótt einnig sé vísað á æja. Í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1982 er hún merkt með spurningarmerki sem táknar „vont mál“ og í þriðju útgáfu merkt með !? sem táknar að hún njóti ekki fullrar viðurkenningar – ekki skýrð sérstaklega en vísað á æja. Nafnháttarmyndin á er hins vegar ekki gefin í Íslenskri nútímamálsorðabók.

Nafnháttar- og nútíðarmyndir með á- eiga sér langa hefð – „áir hjer hestum bæði í engjum og úthögum“ segir t.d. í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá því snemma á 18. öld. Í ljósi hefðarinnar og þess að hér er um að ræða eðlilega og skiljanlega áhrifsmyndun sem á sér viðurkenndar hliðstæður í málinu finnst mér engin ástæða til annars en viðurkenna á sem fullgildan nafnhátt sagnarinnar og myndir með á- sem fullgildar nútíðarmyndir.