hæstlaunaðastur

Í umræðum um efsta stigið háttsettastur var myndin hæstlaunaðastur nefnd. Hún er gefin sem efsta stig af hæstlaunaður í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, en svofelld athugasemd fylgir: „Stigbreytingin er óþörf enda er fyrri hluti orðsins í efsta stigi.“ Það er vissulega rétt að útilokað er að vera hærra launaður en sá hæstlaunaði þannig að stigbreytingin bætir engu við. En þótt stigbreytingin sé óþörf þýðir það ekki endilega að hún sé óeðlileg eða ótæk eða eigi sér enga skynsamlega skýringu. Eins og fram kom í umræðu um háttsettastur er meginreglan sú að stigbreyting kemur fram á síðari eða síðasta lið lýsingarorða og það er hugsanlegt að málnotendur, sumir hverjir a.m.k., túlki ekki annað sem stigbreytingu en það sem kemur fram á síðasta lið.

Það þýðir að hæstlaunaður er skilið á sama hátt og háttlaunaður, þ.e. fyrri liðurinn er skilinn sem afbrigði af lýsingarorðinu hár en ekki sem efsta stig þess sérstaklega. Það kann að hljóma undarlega að myndin hæst- sé ekki endilega túlkuð sem efsta stig en þegar að er gáð er það alls ekkert óvenjulegt að beygðar myndir hafi ekki þá merkingu í fyrri lið samsettra orða sem þær hafa sjálfstæðar. Skýrasta dæmið er tala í eignarfallssamsetningum. Það er vel þekkt að tala fyrri liðar er iðulega „órökrétt“ – í orðum eins og stjörnuskoðun, vöruskortur, perutré og rækjusamloka er fyrri liðurinn í eintölu þótt fleirtala væri „rökrétt“, en í nautalund, lambalæri, myndarammi og nýrnagjafi er fyrri liður í fleirtölu þótt eintala væri „rökrétt“.

Það er því ljóst að í sumum tilvikum a.m.k. skynja málnotendur eingöngu rótarmerkingu fyrri liðar í samsettum orðum en líta fram hjá merkingu beygingarendingar liðarins, enda fer hún oft í bága við merkingu samsetta orðsins í heild. Þess vegna þarf ekki að vera neitt óeðlilegt við það að bæta efstastigsendingu við hæstlaunaður, og á annað hundrað dæmi um það má finna á tímarit.is, hið elsta frá 1917. Hið sama getur reyndar líka gerst með háttsettur – finna má dæmi um myndina hæstsettasti þótt þau séu örfá. En ég tek fram að þótt ég telji myndir eins og hæstlaunaðastur skiljanlegar og eðlilegar er ég ekki að mæla sérstaklega með þeim. Ég er bara að reyna að skýra hvernig og hvers vegna þær koma til.