Auglýsingar á ensku eru oftast ólöglegar

Í sjöttu grein laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 segir: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Þetta er skýrt og ótvírætt ákvæði, og frá því eru engar undantekningar. Það eru helst fyrirtæki eins og lundabúðir og örfá önnur sem geta leyft sér að auglýsa eingöngu á ensku en auglýsingar flestra annarra fyrirtækja eiga að vera á íslensku, þótt oft geti verið eðlilegt eða æskilegt að enska fylgi með.

Við vitum samt öll að þetta lagaákvæði er þverbrotið. Við sjáum mörg dæmi um það á hverjum degi, allt í kringum okkur. Ég hef enga ástæðu til að ætla að einbeittur brotavilji liggi alltaf að baki – ég held að þetta sé miklu oftar hugsunarleysi. Hugsunarleysi auglýsendanna, en ekki síður hugsunarleysi okkar, almennra málnotenda. Við erum orðin ónæm fyrir enskunni, tökum ekki eftir henni, kippum okkur ekki upp við hana – hún er svo stór hluti af daglegu umhverfi okkar.

En við eigum auðvitað ekki að láta bjóða okkur þetta. Við eigum að kvarta. Ef við sjáum auglýsingu á ensku sem augljóslega er beint til íslenskra neytenda eigum við að hafa samband við auglýsandann og benda á að þetta samrýmist ekki lögum. Einnig má skrifa Neytendastofu sem á að hafa eftirlit með því að lögunum sé framfylgt. Fyrir sléttum fimm árum skrifaði ég einmitt Neytendastofu vegna áberandi auglýsingar á ensku frá H&M á Lækjartorgi og fékk svar þar sem sagði m.a.:

„Neytendastofa hefur í gegnum tíðina fengið ábendingar vegna auglýsinga á öðrum tungumálum en íslensku. Algengast er að bent sé á atvinnuauglýsingar á öðrum tungumálum. Stofnunin hefur hingað til ekki talið tilefni til aðgerða vegna slíkra auglýsinga. Ástæður þess að Neytendastofa ákveður að grípa ekki til aðgerða geta verið af ýmsum toga. […] Þá getur ástæðan einfaldlega verið sú að stofnunin hefur ekki orðið vör við viðskiptahættina. Allar ábendingar eru því gagnlegar starfi stofnunarinnar.“

Ég hef engan áhuga á að skipta við fyrirtæki sem bjóða mér vöru sína eða þjónustu á ensku. Skerum upp herör gegn auglýsingum á ensku!