Já, málfræði er raunverulega skemmtileg!

Í bráðskemmtilegu Kastljósviðtali áðan við Sólveigu H. Hilmarsdóttur doktorsnema sagði hún að það sem hefði heillað hana mest við latínu og grísku hefði verið málfræðin. Þetta kom flatt upp á stjórnandann sem sagði: „Það er bara gaman að heyra setninguna „það sem heillaði mig mest var málfræðin“. Það er ekki setning sem maður heyrir oft. Hvað er það við málfræði sem heillar? Er hún raunverulega skemmtileg?“

Eins og ráða mátti af orðum stjórnandans hefur málfræði vissulega illt orð á sér. Aðalástæðan er sú að hún er svo oft kennd sem forskriftarmálfræði – reglur sem nemendur þurfa að læra en tengja ekki við tungumálið sem þau kunna og tala, og ganga oft þvert á það málkerfi sem þau hafa byggt upp. Nemendur eru látnir greina í orðflokka án þess að skilja tilganginn í því – orðflokkarnir eru kenndir sem merkimiðar til að hengja á orð í stað þess að skoða setningafræðilegt hlutverk þeirra. Og svo framvegis.

En þetta er ekki sú málfræði sem ætti að kenna. Málfræði á ekki að vera fyrirmæli – hún á að vera lýsing og skýring á tungumálinu. Tungumálið er sameiginlegt öllu mannkyni – tungumálin eiga svo margt sameiginlegt en eru samt svo fjölbreytt og áhugaverð. Að skoða eðli þeirra og uppbyggingu, orðaforða og orðsifjar, hljóðkerfi, beygingar, orðmyndun, setningagerð og merkingu, og ekki síst máltöku barna, er heillandi viðfangsefni sem býður upp á ótal möguleika í kennslu á ýmsum skólastigum. Sú málfræði er raunverulega skemmtileg – hvernig ætti hún að geta verið annað?