Varasamt viðhorf til enskuvæðingar

Nýlega birtist mjög athyglisverð frétt um viðhorf Íslendinga og ferðamanna til erlendra heita veitingastaða, og til auglýsinga á ensku. Ég tel ekki að erlend heiti veitingastaða og verslana hafi mikil bein áhrif á íslenskuna, en aftur á móti gefa þau skýrar vísbendingar um viðhorf okkar til tungumálsins. Fólki finnst þau alveg eðlileg og þar liggur hættan – ekki í beinum áhrifum heitanna á orðaforða og málkerfi. En ég tel allt öðru máli gegna um samfellt mál sem okkur er ætlað að skilja, eins og auglýsingar. Í þessum viðtölum koma fram tvenns konar viðhorf til þeirra sem ástæða er til að staldra við og taka alvarlega.

Annars vegar er það viðhorf að sjálfsagt sé að hafa auglýsingar á ensku vegna þess að þar með nái þær til allra – ferðamanna, innflytjenda, og auðvitað Íslendinga vegna þess að enskukunnátta okkar sé svo góð. Ef þetta er eða verður viðhorf flestra leiðir það augljóslega smám saman til þess að allar auglýsingar, allar upplýsingar, allar fréttir verða á ensku – þannig næst til allra án þess aukakostnaðar sem felst í því að hafa textann líka á íslensku. Vitanlega er sá sparnaður mikil freisting fyrir auglýsendur og aðra sem vilja koma upplýsingum á framfæri.

Hins vegar kemur fram sá skilningur að þetta sé bara hluti af eðlilegri þróun íslenskunnar – það sé eðlilegt að hún breytist og bara gaman að því. Ég tek sannarlega undir það að eðlilegt er að íslenskan breytist að vissu marki. Hún þarf að breytast til að þjóna síbreytilegu þjóðfélagi og í því getur falist m.a. að bæta við nýjum orðum, breyta tilteknum atriðum vegna tillits til ákveðinna þjóðfélagshópa, o.fl. En þetta mál snýst ekkert um breytingar á íslenskunni. Þetta snýst um það að enskan komi í stað íslenskunnar. Það er allt annað mál og grundvallaratriði að skilja þar á milli.

Ég hef enga ástæðu til að ætla að þessi viðhorf séu bundin við það unga fólk sem þarna er rætt við. Þvert á móti finnst mér margt benda til þess að þau séu algeng og útbreidd. Við höldum að það sé sjálfgefið að íslenskan verði hér áfram, sama hvernig við förum með hana og hversu litla rækt við leggjum við hana. En þessi viðhorf leiða til þess að við fljótum sofandi að feigðarósi og vöknum ekki upp fyrr en það er orðið of seint – ekki fyrr en íslenskan hefur glatað stöðu sinni sem aðaltungumál samfélagsins. Sá missir væri óafturkræfur.