Eflum jákvæða umræðu
Eins og þið hafið örugglega orðið vör við hefur óvenjumikil umræða verið um íslenskuna og stöðu hennar að undanförnu, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Þessi umræða hefur snúist um minnkandi áhuga og neikvæðari viðhorf til íslensku sem kennslugreinar, en aðallega um aukna enskunotkun á ýmsum sviðum og nauðsyn þess að gera átak í kennslu íslensku sem annars máls. Forsætisráðherra hefur tekið undir það að við verðum að gera betur á því sviði, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur hvatt fyrirtæki til að gera íslenskunni hærra undir höfði, og formaður Íslenskrar málnefndar hefur viðrað þær hugmyndir að fyrirtæki verði beitt sektum fyrir brot á lögum um íslenskunotkun.
Þetta er tímabær og bráðnauðsynleg umræða. En hún getur verið tvíbent vegna þess að hættan er sú að hún verði á of neikvæðum nótum. Þegar fólk heyrir íslenskuna aðallega nefnda í tengslum við versnandi stöðu hennar, fækkun nemenda, skort á íslenskukennslu fyrir útlendinga o.s.frv. er það ekki til þess fallið að vekja áhuga á málinu eða efla jákvæð viðhorf til þess. Það getur stuðlað að því að fæla ungt fólk frá íslenskunámi vegna þess að því sýnist engin framtíð vera í því. Það getur orðið til að fæla útlendinga frá íslenskunámi vegna þess að ekki er komið til móts við þá. Það getur dregið úr vilja fyrirtækja til að nota íslensku vegna þess að þau sjá að þau komast upp með að nota ensku og flestum virðist vera sama. O.s.frv.
Neikvæða umræðan getur samt verið nauðsynleg að vissu marki, til að vekja okkur og leiða okkur fyrir sjónir hver hættan sé – en framhaldið skiptir öllu máli. Við þekkjum því miður alltof mörg dæmi um að mikil umræða skapist um eitthvert mál, skipaðar séu nefndir til að fjalla um það og skrifaðar ítarlegar skýrslur með tillögum um aðgerðir – en svo gerist ekkert. En ef ekkert er gert breytist umræðan ekki og heldur áfram að vera neikvæð. Þar með erum við föst í vítahring – neikvæð umræða kallar á neikvæð viðhorf sem aftur viðhalda neikvæðri umræðu. Eina leiðin til að losna úr þessum vítahring er að grípa til aðgerða. Ef fólk sér að eitthvað er hægt að gera – og eitthvað er gert – breytist andinn í umræðunni.
Sú umræða sem hefur verið í fjölmiðlum að undanförnu hefur hreyft við ýmsum en það er samt hætt við að hún hafi ekki náð nógu mikið til þeirra sem hún þyrfti helst að ná til – unga fólksins sem ber ábyrgð á því að íslenskan verði töluð hér áfram. Ungt fólk horfir lítið á línulegt sjónvarp, fær fréttir sínar fremur af samfélagsmiðlum en úr hefðbundnum fjölmiðlum, og er t.d. ekki fjölmennt í þessum hópi. Hætt er við að það væri til lítils og fyrst og fremst hallærislegt ef mér eða öðrum dytti í hug að hefja einhverja íslenskuvakningu á TikTok. Þarna þarf samtal milli fólks og þar kemur til ykkar kasta. Fólk í þessum hópi er foreldrar, kennarar, afar og ömmur. Þið þurfið að ræða þessi mál við unga fólkið ykkar – á jákvæðum nótum.
Því fer nefnilega fjarri að umræðan þurfi að vera neikvæð – að allt sé í kaldakoli og íslenskan eigi sér enga framtíð. Það er mikið frjómagn í íslenskunni. Fleira fólk talar íslensku en nokkru sinni fyrr. Fleiri bækur eru gefnar út á Íslandi miðað við höfðatölu en í nokkru öðru landi, og barna- og unglingabókum hefur fjölgað mjög á síðustu árum. Fjöldi erlendra skáldverka eru þýdd á íslensku. Skrif á íslensku eru meiri og almennari en nokkru sinni fyrr, ekki síst tölvupóstur, skrif á samfélagsmiðlum og ýmiss konar textaboð. Gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis á íslensku er í blóma. Íslenska er nú að verða gjaldgeng í stafrænu umhverfi til jafns við tungumál miklu stærri þjóða. Framtíð íslenskunnar er björt – ef við viljum það.