Nauðsynlegar viðbætur við íslenska málstefnu
Endurskoðuð íslensk málstefna fyrir 2021-2030 er ágæt um margt og hægt að taka undir flest sem í henni stendur. En það er ekki nóg – í hana vantar efnisþætti sem nauðsynlegt hefði verið að taka fyrir. Þannig er engan vísi að endurskoðun íslensks málstaðals að finna í stefnunni, þrátt fyrir að í henni sé lögð áhersla á nauðsyn þess að málstaðallinn taki breytingum í samræmi við breytingar á samfélaginu. Sigurlaug Soffía Friðþjófsdóttir lögfræðingur hefur gert úttekt á stefnunni í meistararitgerð og borið hana saman við málstefnuna frá 2009, og ég er sammála því mati hennar að þótt stefnan sé framför frá fyrri stefnu hefði þurft að leggja meiri áherslu á inngildingu innflytjenda í málsamfélagið.
Í tengslum við þetta hefði þurft að fjalla ítarlega um stöðu og hlutverk ensku á Íslandi í málstefnunni. Með sívaxandi fjölda útlendinga í samfélaginu og á íslenskum vinnumarkaði vakna fjölmargar spurningar, svo sem: Hvenær og til hverra er eðlilegt að gera kröfur um íslenskukunnáttu? Við hvaða aðstæður er eðlilegt eða óhjákvæmilegt að nota ensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni og réttindi fólks sem ekki kann íslensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni og réttindi fólks sem ekki kann ensku? Hvernig auðveldum við fólki með annað móðurmál að taka fullan þátt í samfélaginu? Hvernig geta íslenska og enska átt friðsamlegt og gott sambýli í málsamfélaginu?
Ekki er víst að svör við öllum þessum spurningum eigi erindi í íslenska málstefnu en þar er samt mjög brýnt að staða og réttindi ensku í málsamfélaginu verði tekin til umræðu. Fyrirséð er að enskunotkun mun aukast á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins á næstu árum og mikilvægt að sú aukning verði ekki skipulags- og eftirlitslaus, heldur verði reynt að stýra henni í þann farveg sem skerðir hlut íslensku minnst. Ekki er fjallað neitt um þetta í málstefnunni, en þó verður að geta þess að samkvæmt fundargerð stjórnar Íslenskrar málnefndar er áformað að halda málþing um sambýli íslensku og ensku næsta vor. Mikilvægt er að það málþing verði nýtt til stefnumótunar í þessum málum sem verði hluti af íslenskri málstefnu.
En fleira vantar í stefnuna. Þrátt fyrir að tengsl tungumáls og kyns hafi verið mjög til umræðu á undanförnum árum er ekki vikið einu orði að því efni í málstefnunni – hugtakið kynhlutlaust mál er þar hvergi nefnt. Þetta er vissulega umdeilt, viðkvæmt og vandmeðfarið mál – líklega það svið tungumálsins þar sem mest ólga og heitastar tilfinningar eru um þessar mundir. En þeim mun meiri ástæða hefði verið til þess að taka það til umræðu. Ef til vill hefur stjórn Íslenskrar málnefndar litið svo á að Skýrsla um kynhlutlaust mál sem hún lét vinna í fyrra og samþykkti á svipuðum tíma og málstefnuna dygði. En sú skýrsla hefur verið gagnrýnd og nauðsynlegt er að þetta efni fari inn í málstefnuna sjálfa.
Þessa umræðu hefði einnig þurft að taka upp á breiðari grundvelli og fjalla almennt um mál og mannréttindi, ekki síst málnotkun ýmissa minnihlutahópa og fólks í viðkvæmri stöðu svo sem trans fólks, fatlaðs fólks o.fl. Þessir hópar hafa að undanförnu gert ýmsar tilraunir til að breyta orðfæri og orðræðu um sig en þær tilraunir hafa stundum mætt mikilli andstöðu og jafnvel verið hafðar að háði og spotti. Í stefnunni er vissulega talað um mikilvægi þess að „bera virðingu fyrir málnotkun allra sem tala íslensku og gæta þess að málnotkun sé ekki útilokandi“ og að „nota orð og orðfæri um mismunandi þjóðfélagshópa sem fólk í þeim hópum kýs sjálft“ en æskilegt hefði verið að helga þessu efni heilan kafla.
Þótt stjórn Íslenskrar málnefndar hafi samþykkt hina endurskoðuðu málstefnu fyrir ári, og hún gildi frá 2021, hefur lítið farið fyrir kynningu á henni. Skýringin mun vera sú að ætlunin er að leggja málstefnuna fram sem þingsályktun í haust, eins og gert var við fyrri málstefnu á sínum tíma. Þar sem stefnan á að gilda allan þriðja áratuginn, allt til 2030, er mikilvægt að í henni sé tekið á málum sem fyrirsjáanlega verða afdrifarík fyrir íslenskuna og fyrirferðarmikil í samfélagsumræðunni á næstu árum. Það er enn hægt að bæta við efnisþáttum sem á vantar fyrir þinglega meðferð málstefnunnar og ég vonast til að í þeirri stefnu sem Alþingi samþykkir verði tekið á þeim málum sem nefnd eru hér að framan.