Spánsk, spönsk eða spaunsk?

Af lýsingarorðinu sem vísar til Spánar eru til þrjú afbrigði – spanskur, spánskur og spænskur. Af þessum þremur afbrigðum er spanskur langsjaldgæfast, einkum á síðustu áratugum, en hin bæði algeng þótt spænskur hafi sótt á undanfarið. Í afbrigðinu spanskur kemur ö í stað a í nokkrum beygingarmyndum eftir venjulegum beygingarreglum eins og sýnt er í Beygingarlýsingu íslensks nútímamálsspönskum (í þágufalli eintölu í karlkyni og þágufalli allra kynja), spönsku (í þágufalli eintölu í hvorugkyni) og spönsk (í nefnifalli eintölu í kvenkyni fleirtölu og nefnifalli og þolfalli fleirtölu í hvorugkyni). Á hinn bóginn mætti búast við að afbrigðið spánskur hefði á í öllum beygingarmyndum eins og BÍN sýnir.

En málið er flóknara en þetta. Þegar lagður er saman fjöldi dæma um einstakar beygingarmyndir af spanskur og samsvarandi beygingarmyndir af spánskur á tímarit.is kemur í ljós að þær myndir sem hafa a eru aðeins tæp 14% af heildarfjöldanum – myndir með á eru því rúm 86%. En málið snýst við þegar kemur að beygingarmyndum með ö (spönsk, spönsku, spönskum). Þær eru nefnilega tæp 90% af heildinni – samsvarandi beygingarmyndir með á (spánsk, spánsku, spánskum) eru aðeins rétt rúm 10%. Eina skýringin á þessu er sú að myndirnar með ö séu mjög oft notaðar sem beygingarmyndir af spánskur í stað myndanna með á sem búast mætti við. Algengasta beygingin af spánskur er því sú sem er sýnd hér:

Hvernig má skýra þetta? Hljóðin á og ö eiga ekki að skiptast á í beygingu þótt a og ö geri það iðulega. Lykilinn að þessu er að finna í því sem nefnt var í umræðu um þessi afbrigði hér í hópnum í vor, að oft væri borið fram spaunskum þótt skrifað sé spönskum. Þótt á og ö skiptist ekki á í beygingu gera á og au það nefnilega í fjölda orða eins og langurlöngum, svangursvöngum, bankibönkum o.s.frv. Þarna er vissulega skrifað a og ö en þau tvíhljóðast í á og au á undan ng og nk. Það verður ekki betur séð en beyging afbrigðisins spánskur verði fyrir áhrifum frá þessum víxlum þótt á sér þar ekki tilkomið við tvíhljóðun og þar sé ekki nk á eftir heldur nsk. Hljóðavíxlin í beygingunni sem hér fylgir eru því í raun alveg eðlileg.

Í beygingu lýsingarorðanna danskur og franskur koma fyrir samsvarandi myndir með ö – dönsk, dönsku, dönskum; frönsk, frönsku, frönskum. Það er hins vegar engin tilhneiging til þess að bera þær fram með au enda hafa þessi orð engar á-myndir sem ýti undir víxl við au – *dánskur eða *fránskur er ekki til. Framburðurinn spaunsk, spaunsku, spaunskum hlýtur að vera tilkominn vegna áhrifa frá á-inu í spánskur og stafa af því að málnotendur tengi spánskur við orð með ng og nk og finnist eðlilegt að beita sams konar hljóðavíxlum og í þeim orðum. En það getur samt vel verið að tilvist afbrigðisins spanskur, þar sem ö kemur fram í ákveðnum myndum og er ekki borið fram au, sé einhvers konar forsenda þess að víxlin komi fram.

Við getum borið þetta saman við lýsingarorðið skánskur, af Skánn. Þar er engin tilhneiging til neinna hljóðavíxla í beygingu – myndir eins og *skönskum eða *skaunskum eru ekki til. En þar er ekki heldur til hliðarmyndin *skanskur sem *skönskum gæti verið beygingarmynd af. Við getum skrifað spönskum vegna þess að myndin spanskur er til og við vitum að a og ö skiptast oft á í beygingu. Við gætum hins vegar ekki skrifað *skönskum vegna þess að við vitum að á og ö skiptast ekki á í beygingu – og við getum ekki heldur skrifað *skaunskum vegna þess að þótt á og au skiptist á í beygingu vitum við að í slíkum tilvikum er ekki skrifað au. Þar af leiðir að engar forsendur eru fyrir hljóðavíxlum og skánskum eini möguleikinn.