Dæmum ekki fólk út frá nafni

Lengst af 20. öldinni var útlendingum sem sóttu um íslenskan ríkisborgararétt gert skylt að kasta nafni sínu og taka upp íslenskt nafn í staðinn. Þetta ákvæði var lengi umdeilt og var sem betur fer fellt úr gildi fyrir 30 árum þótt leifar þess sé enn að finna í lögum um mannanöfn. Stundum tekur fólk sér þó íslensk nöfn af fúsum og frjálsum vilja til að falla betur inn í samfélagið og til að erlenda nafnið taki ekki alla athygli af nafnberanum, eins og fram kom í viðtali við Margréti Adamsdóttur fréttakonu í sumar. En nú er fólk sem ber erlend nöfn aftur farið að breyta þeim af nauðsyn – ekki vegna þess að það sé lagaskylda, heldur vegna fordóma Íslendinga í garð útlendinga. Á þetta bendir Monika K. Waleszczynska í viðtali í Vísi í dag:

„Mér finnst of algengt að vinnuveitendur horfi framhjá umsóknum fólks með útlenskt nafn og ákveði hreinlega fyrirfram að þetta sé einhver sem talar ekki ensku eða íslensku.“ „Fyrir vikið kemst margt hæft fólk ekki í atvinnuviðtöl. Ekki einu sinni fólk sem er af annarri kynslóð innflytjenda, hefur alist hér upp, talar góða íslensku og hefur menntað sig hér alla tíð.“ „Við vitum til þess að fólk hreinlega taki út útlenska nafnið sitt á ferilskrám til þess eins að auka möguleikana sína á að komast í atvinnuviðtal.“ „Þá breytir það föðurnafninu sínu í til dæmis Hinriksson eða -dóttir, notar fyrra nafn föður í stað erlends fjölskyldunafns. Til þess eins að koma frekar til greina sem umsækjandi.“

Nafnið okkar er eitt það dýrmætasta og hjartfólgnasta sem við eigum – hefur fylgt okkur flestum frá því áður en við munum eftir okkur og er eiginlega óaðskiljanlegur hluti af okkur. Jafnvel þótt fólk ákveði sjálft að skipta um nafn er það erfið ákvörðun eins og Margrét Adamsdóttir sagði í viðtalinu sem vitnað var til hér að framan. Þess vegna var það ómanneskjulegt og ljótt þegar útlendingum var gert skylt að skipta um nafn til að fá íslenskan ríkisborgararétt. Og þess vegna er óþolandi þegar fólk sér sig tilneytt til að kasta nafni sínu, kasta hluta af sjálfu sér, til þess að eiga möguleika á að komast eitthvað áfram á Íslandi. Sýnum umburðarlyndi og breytum þessu – dæmum ekki fólk út frá nafni!