Við stöndum saman öll sem eitt

Það vakti nokkra athygli fyrr í sumar þegar Bubbi Morthens breytti texta sínum við stuðningslag KR. Þar var áður sungið í karlkyni – „Við stöndum saman allir sem einn“, „Við erum harðir allir sem einn“, „Við erum svartir, við erum hvítir“ og „sameinaðir við sigrum þá“. En eftir breytinguna er alls staðar notað hvorugkyn – „Við stöndum saman öll sem eitt“, „Við erum hörð öll sem eitt“, „Við erum svört, við erum hvít“ og „sameinuð við sigrum þá“. Þessi breyting fékk blendnar viðtökur – mörgum fannst það sjálfsagt og eðlilegt að koma til móts við breytta tíma og breyttan hugsunarhátt á þennan hátt, en öðrum varð ekki um sel og jafnvel var talað um „woke-væðingu“ og „PC-væðingu“ KR-inga.

Í viðtali lagði Bubbi áherslu á að með breytingunni væri verið að höfða til allra, af hvaða kyni sem væri. „Nýja útgáfan er að sögn Bubba nútímaleg og geta allir tengt sig við lagið, ekki bara karlkyns fótboltaáhugamenn eins og áður var.“ „Lagið var fínt á sínum tíma en það var barn síns tíma. Það þurfti allar þessar breytingar í þjóðfélaginu en ég náði þessu loksins. Nú eiga allir lagið.“ Ef til vill finnst einhverjum ósamræmi í því að nota karlkyn í „Nú eiga allir lagið“ í stað þess að segja „Nú eiga öll lagið“ þegar verið er að breyta karlkyni í hvorugkyn í textanum sjálfum, en það er misskilningur. Það er nefnilega grundvallarmunur á því að nota allir eitt og sér eða með persónufornafni, við allir, eins og er í textanum.

Um þennan mun hefur Höskuldur Þráinsson nýlega fjallað ítarlega í grein í Málfregnum. Þegar allir er notað eitt og sér, í dæmum eins og nú eiga allir lagið, allir velkomnir o.s.frv., er átt við óskilgreindan hóp fólks. Þar er karlkynið notað sem sjálfgefið kyn eins og lengstum hefur verið gert í íslensku. En allt öðru máli gegnir þegar sagt er við allir eins og í upphaflega textanum. Þá afmarkar persónufornafnið við hópinn, takmarkar hann við KR-inga – hann verður ekki lengur óskilgreindur í sama skilningi og áður. Þar er kynið því ekki sjálfgefið, heldur vísandi – vísar til þessa tiltekna hóps. Þar með verður óeðlilegt að nota það um blandaðan hóp, eins og KR-ingar eru – í vísun til blandaðra afmarkaðra hópa er notað hvorugkyn.

Vissulega mætti halda því fram að karlkynið í upphaflega textanum vísaði til KR-ingar sem er vitanlega karlkynsorð og því væri hvorki um að ræða sjálfgefið kyn né vísandi kyn, heldur samræmiskyn svo að enn sé vísað í áðurnefnda grein Höskuldar. Einnig má benda á að ýmsum finnst óeðlilegt að karlkyn sé notað sem sjálfgefið (hlutlaust, ómarkað) kyn í íslensku og vilja breyta því – nota hvorugkyn í staðinn. Þeim myndi því finnast „Nú eiga allir lagið“ jafn óæskilegt og „Við stöndum saman allir sem einn“. En hvað sem þessu öllu líður er ljóst að breyting Bubba á textanum er ekki aðeins eðlileg út frá viðhorfum og tíðaranda – hún er í fullkomnu samræmi við íslenskt málkerfi og brýtur ekki gegn málhefðinni á nokkurn hátt.