Posted on Færðu inn athugasemd

Kallað eftir nýju kennsluefni í íslensku

Í gær skrifaði ég í Facebook-hópinn Málspjall um fækkun nýnema í íslensku við Háskóla Íslands. Þetta vakti nokkra athygli og Morgunblaðið skrifaði um það frétt. Mörg ágæt ummæli voru skrifuð við þessa færslu mína en ein fundust mér sérstaklega áhugaverð:

„Ég starfa sem framhaldsskólakennari á öðru ári og það kom mér á óvart hversu lítill áhugi nemenda er á greininni. Hluti ástæðunnar gæti verið hversu lítið námsefnið hefur breyst að undanförnu. Nemendur í dag alast upp í allt öðru samfélagi og eru vanari mun meiri hraða en ýmsar íslenskar bókmenntir bjóða uppá. Mín upplifun er að þeim finnst menningararfurinn okkar almennt mjög áhugaverður en að mörgu leyti „óaðgengilegur“ fyrir þessa kynslóð. Langir textar og langdregnir, sem eru oft á tungumáli sem þau skilja ekki nægilega vel til að njóta, eru ekki að grípa áhuga þeirra. Ég myndi vilja stórátak í að gera þessa texta aðgengilegri fyrir bæði ungmenni og fólk af erlendum uppruna.“

Ég held að þarna sé komið að kjarna málsins. Nemendur hafa alist upp í allt annars konar þjóðfélagi en við flest í þessum hópi, og annars konar þjóðfélagi en flestir kennarar þeirra. Við áttum okkur ekki endilega á því hvað þetta þýðir. Og jafnvel þótt við áttum okkur á því vitum við ekki endilega hvernig á að bregðast við. Og jafnvel þótt við teljum okkur vita það er óvíst að við höfum eða kunnum á þau tól og tæki, í þessu tilviki kennsluefni og kennsluaðferðir, sem þarf til að bregðast við. Gerbreytt þjóðfélag kallar auðvitað á gerbreytt kennsluefni og gerbreyttar kennsluaðferðir. Ég efast ekkert um að fjöldi kennara átti sig á því, og reyni að koma til móts við nemendur á þeirra forsendum. En það er hægara sagt en gert.

Hér er nefnilega komið að öðru efni sem rætt var um hér fyrr í vikunni – tilfinnanlegum skorti á góðu kennsluefni. Vegna þess að nemendur – eða foreldrar – þurfa að kaupa kennslubækur framhaldsskóla, öfugt við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum, leita þau eðlilega allra leiða til að lækka bókakostnaðinn. Þótt skiptibókamarkaðir séu hagstæðir fyrir nemendur eru þeir rothögg fyrir bókaútgáfu og draga stórkostlega úr endurnýjun kennsluefnis á íslensku og áhuga útgefenda á útgáfu nýs kennsluefnis. Þess vegna sitjum við uppi með gamalt og úrelt kennsluefni sem nemendur lesa í snjáðum og misvel förnum bókum. Í sumum greinum er gripið til þess ráðs að nota erlendar kennslubækur – en þar er ekki hægt í íslensku.

Til að bæta úr skorti á hentugu kennsluefni eru kennarar oft að útbúa fjölrit með efni sem þau telja að henti nemendum. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert, en getur þó reynst tvíbent þegar að er gáð. Hvað varðar allan frágang og útlit standast myndalaus fjölrit auðvitað engan samanburð við myndskreyttar erlendar kennslubækur prentaðar í lit á glanspappír. Fjölritað íslenskukennsluefni á ekki séns í fjölbreytt enskukennsluefni á bók eða margmiðlunarformi. Gamalt eða ósjálegt kennsluefni hefur vitaskuld áhrif á viðhorf nemenda til kennslugreinarinnar. Íslenska er í sauðalitunum – enska er í öllum regnbogans litum. Íslenska er gamaldags – enska er nútímaleg. Íslenska er dauf – enska er fjör.

Eins og segir í ummælunum sem ég vitnaði í hér að framan skortir ekki áhuga nemenda á íslenskum menningararfi og ég er sannfærður um að það er hægt að vekja áhuga þeirra á íslensku máli líka. En okkur vantar hentugt efni til að miðla þessu til þeirra. Það er ekki við því að búast að hinn frjálsi markaður framleiði slíkt efni. Ríkið verður að koma til – standa fyrir og styrkja myndarlega útgáfu hentugs kennsluefnis sem nær til nemenda. Og þetta má ekki verða dæmigert íslenskt „átaksverkefni“ sem lýkur um leið og einhver árangur fer að koma í ljós. Þetta þarf stöðugt að vera í gangi. Það er að segja, ef við viljum halda áfram að tala íslensku. Ef við viljum það ekki skulum við bara segja það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Stórátak í íslenskukennslu – núna!

Í gær kom fram á Morgunvaktinni á Rás eitt í Ríkisútvarpinu að um fjórðungur fólks á íslenskum vinnumarkaði væri nú af erlendum uppruna, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, spáði því að eftir 20-30 ár yrði sú tala komin í 40-50%. Vitanlega mun erlent vinnuafl ekki dreifast jafnt á öll störf. Við vitum að fólk af erlendum uppruna er helst að finna í ákveðnum starfsgreinum og þannig verður það væntanlega í meginatriðum áfram. Það er ljóst að þessi þróun felur í sér grundvallarbreytingar á íslensku þjóðfélagi og við þurfum að hugsa fyrir því hvernig við tökumst á við þær.

Þótt fólk sem hingað kemur að vinna í framtíðinni muni væntanlega í auknum mæli koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, eins og fram kom í þættinum, er nokkuð öruggt að enska verður, í byrjun a.m.k., samskiptamál þess á vinnumarkaði – við íslenska yfirmenn og samstarfsfólk, en einnig milli fólks sem hefur ólík móðurmál, önnur en íslensku. En spurningin er hvað gerist í framhaldinu – heldur fólkið áfram að nota ensku sem samskiptamál, ekki bara í vinnunni heldur einnig á öðrum sviðum, og lærir ekki íslensku nema þá að mjög takmörkuðu leyti? Til hvers gæti það leitt?

Ef það gerist verðum við komin í mjög alvarlega stöðu eftir 20-30 ár. Þá verðum við með tvískiptan vinnumarkað – láglaunastörf þar sem yfirgnæfandi fólks verður af erlendum uppruna og samskipti fara að mestu leyti fram á ensku, og svo betur launuð störf mönnuð Íslendingum, sem samt munu nota ensku mikið í samskiptum við fólk af erlendum uppruna, til viðbótar annarri enskunotkun sem er mikil nú þegar. Það þarf ekki að hugsa mikið um þetta til að átta sig á því hvaða áhrif slík staða gæti haft á íslenskuna. Staða hennar sem burðarás samfélagsins og viðnámsþróttur gegn erlendum áhrifum myndi veikjast verulega.

Viðbrögð okkar eiga ekki að vera að berjast gegn þessari þróun og loka landinu – það er hvorki skynsamlegt né mögulegt. Okkur vantar fleira fólk. En ef við viljum að íslenska verði áfram aðaltungumál landsins verður að gera kröfur um íslenskukunnáttu fólks sem kemur hingað til að vinna, a.m.k. þeirra sem dveljast hér meira en einhvern stuttan tíma. Það er hins vegar bæði ósanngjarnt og óframkvæmanlegt að gera slíkar kröfur án þess að gera um leið stórátak í því að auðvelda fólki íslenskunámið – auka framboð á góðu kennsluefni og námskeiðum, gera fólki kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma, o.s.frv.

Ef þetta verður ekki gert eigum við á hættu að íslenska verði ekki aðaltungumál landsins um miðja öldina. Ef allt að helmingur fólks á vinnumarkaði verður af erlendum uppruna, og verulegur hluti þess fólks talar ekki íslensku, verður hún alltaf víkjandi í samskiptum fólks á ýmsum sviðum – ekki bara á mörgum veitingastöðum eins og er orðið nú þegar, heldur í flestum verslunum, margvíslegri annarri þjónustu og víðar. Þegar svo er komið er skammt í að ungt fólk sjái ekki tilganginn í að tileinka sér þetta tungumál sem hefur svona takmarkað notkunarmöguleika og skipti alveg yfir í ensku.

Þetta hljómar bölsýnislega en góðu fréttirnar eru þær að þetta þarf ekki að fara svona – alls ekki. Ég hef fulla trú á því að íslenskan geti haldið stöðu sinni sem aðaltungumál samfélagsins og burðarás þess. En til þess þurfum við að styðja hana af öllum mætti og gera stórátak í kennslu íslensku sem annars máls – núna. Því lengur sem við bíðum, þeim mun erfiðara verður að snúa af þeirri braut sem við erum á. Þeim mun vanari verðum við orðin enskunni allt í kringum okkur, þeim mun hraðar mun hún flæða yfir okkur og yfirtaka fleiri svið. Þetta þolir enga bið.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íslenska þarf að vera samkeppnishæf

Mér brá þegar ég frétti að nýnemar í minni gömlu kennslugrein, íslensku á Hugvísindasviði Háskóla Íslands, væru aðeins ellefu þetta árið. Nýnemar í greininni hafa ekki verið færri síðan einhvern tíma á sjöunda áratugnum eða jafnvel fyrr. Þá var fjöldi nýstúdenta við Háskólann bara brot af því sem nú er þannig að hlutfall íslenskunema af nýnemum er ekki nema brotabrot af því sem það var fyrir meira en hálfri öld. Fjöldinn náði hæstu hæðum kringum 1990 þegar nærri 90 nemendur hófu nám í íslensku tvö ár í röð en hefur farið jafnt og þétt fækkandi síðan.

Þarna er örugglega margt sem spilar saman. Fleiri en ein rannsókn benda til þess að íslenskukennsla, sérstaklega í grunnskólum en að einhverju leyti í framhaldsskólum líka, höfði ekki alltaf nógu vel til nemenda og samræmdu prófin voru skaðræði að mínu mati eins og ég hef oft skrifað um. Við í Háskólanum (ég ber þar þar fulla ábyrgð því að það er ekki svo langt síðan ég hætti störfum) höfum kannski ekki heldur staðið okkur nógu vel í markaðssetningu. Okkur hefur ekki tekist að vekja áhuga á greininni meðal framhaldsskólanema.

En fleira kemur til. Ég hef heyrt að eftir að hafa verið með íslensku á stundaskránni alla sína skólatíð þyki ekki spennandi að fara í háskóla til að læra grein sem heitir íslenska – er það ekki bara meira af því sama? Alþjóðavæðingin hefur líka áhrif – nemendur óttast að lenda í blindgötu ef þau fara í íslensku, vilja eiga þess kost að búa og starfa erlendis og telja að námið nýtist þeim ekki þar, o.s.frv. Neikvæð umræða um mál ungs fólks hefur líka áhrif – það er alltaf verið að segja unglingum að þau kunni ekki íslensku, skamma þau fyrir að sletta ensku of mikið, o.s.frv.

Nú má vissulega segja að við þurfum ekki á því að halda að mennta meira en tug fólks á ári í í íslensku. Ég er reyndar ósammála – það hefur sýnt sig að íslenskunám nýtist fólki í fjölmörgum og fjölbreyttum störfum og okkur veitir ekkert af því að útskrifa fleiri með háskólamenntun í íslensku. En það er í sjálfu sér aukaatriði. Aðalatriðið er það að þessi fækkun nemenda ber skýrt vitni um stöðu íslenskunnar í huga ungs fólks. Hún er ekki spennandi. Hún er ekki kúl. Hún er ekki grein sem unga fólkið hefur áhuga á að læra í háskóla. Hún höfðar ekki til ungs fólks. Það er verulega alvarlegt.

Þótt hugsanlega megi rekja minnkaðan áhuga á íslenskunámi að einhverju leyti til kennslunnar í grunn- og framhaldsskólum, og til þess að háskólakennarar í greininni hafi ekki staðið sig í markaðssetningu, er það ekki frumástæðan heldur birtingarmynd miklu stærra máls – stöðu íslenskunnar í samfélaginu. Staðreyndin er sú að við höfum ekki sinnt íslenskunni nógu vel, ekki hugsað nógu vel um að sýna málnotendum fram á gildi hennar fyrir okkur og fyrir samfélagið. Móðurmálið er hluti af sjálfsmynd okkar, hluti af okkur sjálfum. Við þurfum að rækta þann hluta á jákvæðan og uppbyggjandi hátt – ekki sem skyldu.

Það þýðir ekkert að reka áróður fyrir íslenskunni á einhverjum þjóðernisforsendum. Það virkaði ágætlega í upphafi síðustu aldar en ekki lengur. Með því er ég ekki að segja að íslenskan skipti ekki máli fyrir okkur. Auðvitað gerir hún það. En við verðum samt að átta okkur á því að til þess að unga fólkið hafi áhuga á henni, vilji nota hana á flestum sviðum, rækta hana og varðveita, verður hún að vera samkeppnishæf. Við þurfum að geta boðið unga fólkinu áhugaverða afþreyingu og fræðslu á íslensku, nútímalegt og smekklegt kennsluefni – og nýjan málstaðal sem stendur nær því máli sem þau hafa tileinkað sér og tala.

Góðu fréttirnar eru þær að þetta er hægt. Það er engin ástæða til svartsýni um íslenskuna og framtíð hennar – ef við sinnum henni, hvert og eitt. Stjórnvöld hafa gert vel í að byggja upp íslenska máltækni en þurfa að stórauka annan stuðning við íslenskuna – við útgáfu kennslu- og fræðsluefnis, við bókaútgáfu, kvikmyndagerð og hvers kyns afþreyingu á íslensku. Framar öllu þarf að gera stórátak í kennslu íslensku sem annars máls, með sameinuðu átaki stjórnvalda og atvinnurekenda. En þetta hrekkur skammt ef við, almennir málnotendur, leggjumst ekki líka á árarnar við að gera íslensku sjálfsagða á öllum sviðum.