hugarfóstur

Um daginn var ég spurður um merkingu orðsins hugarfóstur sem fólk greindi á um hvað merkti. Orðið hefur nefnilega ekki alltaf verið notað í sömu merkingu. Í Íslenskri orðabók á Snöru er aðeins gefin merkingin 'e-ð sem e-r ímyndar sér og styðst ekki við veruleikann, ímyndun', en í Íslenskri nútímamálsorðabók er auk þess gefin merkingin 'sem hefur orðið til í huga e-s, ný hugmynd' sem virðist vera yngri. Elstu dæmi um orðið eru frá því í upphafi 20. aldar og í þeim hefur það greinilega fyrri merkinguna eins og sést á dæmi úr Reykjavík 1914: „Ennfremur segir ritstj. „Lögréttu", að ég vilji ólmur segja Dönum „fjármálastríð“ á hendur. En þetta er ekki annað en hugarfóstur ritstjórans sjálfs.“

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið skýrt 'tankefoster, hjernespind'. Orðinu hugarfóstur svipar vitanlega til fyrrnefnda orðsins þótt hugsanafóstur væri nákvæmari samsvörun, en síðarnefnda orðið í skýringunni samsvarar nákvæmlega orðinu heilaspuni sem er skýrt á sama hátt í orðabókinni. Það orð er nokkru eldra í málinu – elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1844. Fyrir kemur að þessi orð séu notuð saman, eins og í Vísi 1914: „Meðan svo er ástatt virðist ekki ástæða til að einblína svo á matarleysið framundan sjer, matarleysi, sem í raun og veru er heilaspuni eða hugarfóstur að eins.“ Notkun beggja orðanna virðist vera til áherslu eða skýringar frekar en tákna mismunandi merkingu.

Merking orðsins hugarfóstur virðist þó fljótlega hafa farið að breytast. Í Fálkanum 1939 segir um Mjallhvíti: „Nafn hennar var á hvers manns vörum engu síður en þjóðhöfðingja og stjórnmálamanna, þó að hún væri aðeins teiknuð stelpa, hugarfóstur Walt Disney.“ Í Alþýðublaðinu 1940 segir: „Þjóðir, sem búa langt frá Þýzkalandi, líta ef til vill á þessa hegningarlöggjöf sem hugarfóstur manns, sem þjáist af mikilmennskubrjálæði.“ Í Íslendingi 1951 segir: „Þúsundir manna, sem létu sér að vísu skiljast, að Sherlock Holmes var aðeins hugarfóstur Doyles, skrifuðu og mótmæltu harðlega að ævintýrum spæjarans lyki á svo ótilhlýðilegan og ótímabæran hátt.“

Þarna merkir hugarfóstur vissulega einhvers konar ímyndun sem þó raungerist. Skýringin á ímyndun í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'e-ð sem maður ímyndar sér, huglæg sköpun' og orðalagið „huglæg sköpun“ lýsir ágætlega merkingunni í hugarfóstur í þessum dæmum. Munurinn á þessum dæmum og elstu dæmunum um orðið er sá að hér er ekki lengur verið að tala um hugaróra. Á seinni árum hefur hugarfóstur fengið mun almennari og víðari merkingu og merkir eiginlega 'afurð hugmyndar' sem getur verið af ýmsum toga – félag, sýning, kvikmynd, bók, veitingastaður, sýningarsalur, o.s.frv. Á bak við þetta er oft einhver hugsjón þannig að jafnvel mætti oft segja að hugarfóstur merkti 'gæluverkefni'.

Nokkur dæmi: „Eitt hugarfóstur þeirra er bókaklúbburinn Ljósaserían“; „Stuttmyndin Rán er hugarfóstur kvikmyndagerðar- og sjómannsins Fjölnis Baldurssonar“; „Þessar meðferðir voru hugarfóstur dr. Heinrich Arnold Thaulow“; „Sýningin heitir Hugrún, sem er þá hugarfóstur okkar“; „Ég býð mig fram er hugarfóstur dansarans Unnar Elísabetar Gunnarsdóttur“; „Sýningin er upphaflega hugarfóstur Gísla Pálssonar mannfræðings“; „Ljóðabókin Urð er komin út en hún er hugarfóstur Hjördísar Kvaran Einarsdóttur, íslenskufræðings“; „Galleríið er hugarfóstur og samstarfsverkefni list- og verkgreinakennara“; „Hjónin hafa mikla ástríðu fyrir því sem þau eru að gera og staðurinn er þeirra hugarfóstur“.

Langflest dæmi um orðið hugarfóstur á seinni árum virðast hafa þessa merkingu og sú upphaflega virðist vera nær horfin úr almennri notkun. Orðið heilaspuni sem upphaflega var samheiti við hugarfóstur hefur aftur á móti haldið í upprunalega merkingu. Þess vegna er í sjálfu sér meinlítið þótt hugarfóstur hafi fengið nýja merkingu – við eigum eftir sem áður ágætt orð til að tjá gömlu merkinguna.