Lestur og læsi

Það er örugglega best að blanda sér ekki of mikið í umræðu um lestur og lestrarkennslu því að sú umræða virðist oftast fara í skotgrafir mjög fljótlega. Ég er enginn sérfræðingur á þessu sviði en mér sýnist að bæði leshraðapróf og lesskilningspróf geti verið góð og gagnleg, séu þau vel gerð og byggð á fræðilegum forsendum, lögð fyrir á réttan hátt og þeim fylgi nægilegar upplýsingar. Í Fréttablaðinu í dag er langt og fróðlegt viðtal um hraðlestrarpróf við læsisfræðinga hjá Menntamálastofnun. Þetta er fínt viðtal sem ég hvet ykkur til að lesa vegna þess að í því kemur ýmislegt fram sem hefur vantað í umræðuna. En í viðtalinu koma líka fram þrjú atriði sem staðfesta að ýmis gagnrýni á hraðlestrarprófin og framkvæmd þeirra á rétt á sér.

Í fyrsta lagi virðist vera misbrestur á því að nægar upplýsingar fylgi prófunum, og tilgangur þeirra og eðli sé útskýrt nægilega vel. Í viðtalinu segir t.d. „þetta eru kannski ákveðin mistök í framsetningunni hjá okkur“ og „Við þurfum að standa okkur betur í því að reiða þetta öðruvísi fram“. Í öðru lagi er viðurkennt að ákveðnir gallar séu á prófunum. „Við getum tekið undir það að í þessu kappi sem þarna kemur til þá er þriðja viðmiðið rosalega hratt en við höfum reynt að vinda ofan af því“ og viðmælendur segja „veikleika prófsins liggja í því tæknilega atriði að textar eru ekki jafn þungir“ – „við vitum að það eru textar sem eru hlutfallslega þyngri en aðrir textar og það þarf að fínstilla“.

Þetta tengist svo þriðja atriðinu – það vantar gögn og mælitæki, m.a. málskilningspróf. „Staðan á Íslandi í dag er þannig að við erum með ofboðslega lítið af verkfærum fyrir kennara og það vantar öll stöðluð mælitæki. Við getum talað um próf sem talmeinafræðingar nota. Þetta eru held ég yfir 30 ára gömul próf sem eru að renna út.“ Þetta er alveg rétt. Það sárvantar margs konar upplýsingar um mál og málnotkun barna og unglinga sem hægt sé að byggja slík próf á – orðaforða, orðtíðni, lengd orða, byggingu orða, atkvæðagerð, setningagerð o.m.fl. En það sem verra er – það sem þó er til hefur ekki verið nýtt, a.m.k. hvorki í samræmdum prófum grunnskóla né í PISA-prófinu eins og ég hef áður skrifað um.

Hermundur Sigmundsson lagði áherslu á það í Kastljósi í gær að þær bækur sem börn hafi úr að velja í skólanum þyrftu að vera fleiri og af fjölbreyttari erfiðleikastigum. Þetta er sannarlega satt og rétt en auðveldara um að tala en í að komast. Það er reyndar ekki sanngjarnt að bera okkur saman við Norðmenn – 15 sinnum fjölmennari þjóð. Við munum aldrei hafa jafnmikið úrval af lesefni fyrir börn – en við getum samt gert miklu betur og verðum að gera miklu betur í að styrkja ritun og útgáfu lesefnis fyrir börn og unglinga. En til að geta metið hvaða textar henta hverju aldurs- og þroskastigi þurfum við ekki síður að gera átak í að þróa almennileg mælitæki sem byggjast á fræðilegum forsendum.

Slík mælitæki verður að smíða frá grunni út frá forsendum íslenskunnar og íslenskrar málnotkunar. Sigríður Ólafsdóttir hefur þó unnið að því undanfarið ásamt nemendum sínum að skilgreina íslenskan námsorðaforða sem ætti að nýtast í gerð mælitækja þótt margt fleira þurfi að koma til. Þetta hefur verið vanrækt og ég tel að Menntamálastofnun hefði átt að vinna að þessu, en það hefur því miður ekki verið gert svo að ég viti. Vonandi mun sú endurskoðun á verkefnum stofnunarinnar sem ráðherra hefur boðað leiða til þess að farið verði í slíka vinnu. Ég held að hún sé ein helsta forsenda þess að hægt sé að meta árangur mismunandi aðferða á þessu sviði. Það er mjög vond hugmynd að Alþingi mæli fyrir um kennsluaðferðir.