Beygjanlegar tölur

Ég fór með bílinn minn í dekkjaskipti í morgun og var að koma frá því að ná í hann. Undanfarin 17 ár hefur þetta verið streitu- og kvíðavaldur, en nú var ég pollrólegur vegna þess að ég skipti um bíl í vor. Það var samt ekki gamli bíllinn sem olli þessari streitu og kvíða – það var númerið. Undanfarin 17 ár hef ég nefnilega verið á bíl með beygjanlegu bílnúmeri – þ.e., seinasti tölustafurinn í númerinu var 2. Þess vegna hefur mér alltaf vafist tunga um tönn þegar kemur að því að sækja bílinn, hvort sem er á verkstæði eða í dekkjaskipti – hvernig les maður úr bílnúmerum?

„Ég er að ná í DM níu níu tveir“? eða „níu níu tvo“? eða „níu hundruð níutíu og tveir“? eða „níu hundruð níutíu og tvö“? Þetta hefur valdið mér miklu hugarangri og jafnvel leitt til þess að ég hafi trassað dekkjaskipti óhæfilega. Stundum hefur mér meira að segja dottið í hug að skrifa bara númerið á miða og rétta afgreiðslumanninum. Ég hét því fyrir löngu að næst þegar ég skipti um bíl myndi ég sjá til þess að það yrðu engar beygjanlegar tölur í númerinu. Þegar ég var að ráfa um bílasölur í vor leit ég ekki við bílum með númer sem enduðu á 1, 2, 3 eða 4. Sem betur fer fann ég ágætan bíl með númer sem endar á 6 og er núna alsæll.

Svona er nú stundum erfitt að vera málfræðingur krakkar mínir. En í alvöru: Hvernig farið þið með bílnúmer sem enda á beygjanlegum tölum? Og hvað með símanúmer – segir maður ég hringdi í átta sjö fimm fjórir sex níu þrír eða átta sjö fimm fjóra sex níu þrjá? Og af hverju tölum við um Laugaveg tuttugu og tvö en ekki Laugaveg tuttugu og tvo?