Tvírætt orð í stjórnarskrá
Ég hef undanfarið verið að skoða dálítið merkingu orðsins maður og rekist á ýmislegt forvitnilegt. Af tilviljun fór ég að athuga hvernig orðið er notað í upphaflegri gerð stjórnarskrárinnar, þeirri sem Kristján níundi færði okkur 1874 þegar hann kom „með frelsisskrá í föðurhendi“ eins og Matthías Jochumsson orti. Þar telst mér til að orðið maður, í ýmsum beygingarmyndum, sé notað samtals þrettán sinnum. Það er hins vegar athyglisvert að í engu þessara dæma er notað samsvarandi nafnorð í dönskum frumtexta stjórnarskrárinnar.
Þar er oft óákveðið fornafn eða ábendingarfornafn í staðinn, eins og í 48. grein, „Engan mann má setja í gæzluvarðhald“ sem er á dönsku „Ingen kan underkastes Varetægtsfængsel“, í 34. grein, „Stjórnin getur einnig veitt öðrum manni umboð“, á dönsku „kan ogsaa en Anden af Regjeringen bemyndiges“, í 54. grein, „Hver maður á rjett á að láta í ljósi hugsanir sínar á prenti“, á dönsku „Enhver er berettiget til ved Trykken at offentliggjøre sine Tanker“, í 18. grein „Kjósa má samt þann mann, á dönsku „Dog kan den vælges“, o.s.frv.
Stundum er annað nafnorð notað í danska textanum, eins og í 55. og 56. grein, „Rjett eiga menn á“, á dönsku „Borgerne have Ret til“. Stundum er setningagerðin önnur þannig að maður kemur ekki í stað neins eins orð í danska textanum, t.d. í 4. grein, „nema hann hafi hin almennu rjettindi innborinna manna“, á dönsku „medmindre han har den almindelige Indfødsret“, 5. grein, „Konungur náðar menn og veitir almenna uppgjöf á sökum“, á dönsku „Kongen benaader og giver Amnesti“, o.fl.
Í öllum þessum dæmum liggur beint við að álykta að maður hafi almenna merkingu, vísi bæði til karla og kvenna, eins og orðið gerir venjulega í íslensku lagamáli. Þess vegna kemur á óvart að orðið skuli notað í 57. grein, „Sjerhver vopnfær maður er skyldur að taka sjálfur þátt í vörn landsins“ því að í danska textanum stendur „Enhver vaabenfør Mand“. Málið er nefnilega að mand á dönsku merkir 'karlmaður' enda ekki gert ráð fyrir því á þessum tíma að konur gripu til vopna. Þarna hefur því þýðendum textans orðið á í messunni.
Það verður því ekki betur séð en orðið maður sé notað í tveimur mismunandi merkingum í stjórnarskránni 1874 – oftast vísi það til bæði karla og kvenna, en í 54. grein einungis til karla. Af þessum tvískinnungi hefðu örugglega getað sprottið áhugaverð dómsmál. Hefði t.d. verið hægt að meina konum um ritfrelsi á þeim forsendum að 54. greinin, „Hver maður á rjett á að láta í ljósi hugsanir sínar á prenti“, ætti bara við karla? Eða kalla konur í hernað á ófriðartímum á þeirri forsendu að orðalag 57. greinar, „Sjerhver vopnfær maður“, vísaði líka til þeirra?
Ég veit ekki til að til slíks hafi komið, en lögfræðingar kunna kannski einhver dæmi. Svo má vel vera að í slíkum tilvikum hefði verið vísað til danska frumtextans og bent á að augljóslega væri um að ræða ranga þýðingu í íslenska textanum. Umrædd grein féll brott úr stjórnarskránni 1944 þannig að á túlkun hennar reynir ekki hér eftir. Hvað sem því líður sýnir þetta dæmi vel að notkun orðsins maður er ýmsum vandkvæðum háð og öfugt við það sem stundum er haldið fram er það ekki endilega heppilegt í lagatexta sem þarf að vera skýr og ótvíræður.