Allar breytingar mæta andstöðu

Fyrir helgi skrifaði ég hér í pistli um kynhlutlaust mál: „[F]orsendan fyrir því að vilja breyta hlutlausu kyni er pólitísk en ekki málfræðileg. […] Og breyting af þessu tagi sem gerð er á pólitískum forsendum þarf að vekja athygli og ögra, til dæmis með því að nota tilbrigði í máli sem sumum eða flestum finnst ótæk og kalla fram sterk viðbrögð. Það er í þágu hinna pólitísku markmiða.“ Þarna var ég að tala um notkun hvorugkynsfornafna í kynhlutleysi í stað karlkyns í setningum eins og ekkert veit neitt og öll eru að gera sitt besta. Slíkar setningar eru vissulega í andstöðu við það mál sem við erum öll alin upp við.

Höskuldur Þráinsson lýsti efasemdum um þessa aðferð og sagði: „[E]f markmiðið er að þoka jafnréttismálum áfram með því að skapa samstöðu um að breyta því sem máli skiptir held ég að þetta sé ekki rétt aðferð. Hún skipar fólki í fylkingar og fælir burt þá sem vilja gjarna leggja jafnréttismálum lið með því til dæmis að reyna að temja sér ný orð eins og kvár og stálp og tileinka sér merkingu þeirra. Samtökin 78 höfðu mikil og góð áhrif á orðanotkun um samkynhneigð þegar þau stuðluðu að því að orð eins og hommi og lesbía væru tekin í sátt […], en þá voru ekki notaðar baráttuaðferðir af því tagi sem Eiríkur mælir með.“

Í svari við athugasemd um að baráttan fyrir orðunum hommi og lesbía hefði mætt andspyrnu sagði Höskuldur svo: „Þegar ég nefndi baráttuna fyrir viðurkenningu orðanna "hommi" og "lesbía" var ég ekki að gefa í skyn að allir hefðu tekið tillögum S78 vel eða verið kurteisir í ummælum sínum. Það var ekki svo. Ég átti við það að þar voru S78 ekki að "nota tilbrigði í máli sem sumum eða flestum finnst ótæk og kalla fram sterk viðbrögð [...] í þágu hinna pólitísku markmiða" heldur var þá verið að biðja um að notuð væru tiltekin orð í ákveðinni merkingu, rétt eins og núna er beðið um að orðin "kvár" og "stálp" séu viðurkennd.“

Nú getur vel verið að Höskuldur hafi rétt fyrir sér um hvað séu vænlegar baráttuaðferðir, og ég get alveg tekið undir það að æskilegast væri að ná fram breytingum í máli án þess að þurfa „að nota tilbrigði í máli sem sumum eða flestum finnst ótæk“. Sannarlega er líka hægt að breyta mjög mörgu í átt til kynhlutleysis án þess að ganga svo langt. En það kemur fyrir ekki – það hefur sýnt sig að allar breytingar í átt til kynhlutleysis, jafnvel þær sem rúmast ágætlega innan kerfisins, mæta andspyrnu og eru gagnrýndar harðlega. Í grein sem birtist í Fréttablaðinu í fyrra og vakti mikla athygli og fékk mörg læk stóð t.d.:

„Upp á síðkastið hafa æ fleiri fréttamenn [Ríkisútvarpsins] tekið sér í munn þá nýlensku sem öðru hverju heyrðist í fyrra, en sem nú virðist hafa verið fyrirskipuð að ofan. Þar á ég við orðbragð á borð við stuðningsfólk, hestafólk, björgunarfólk, lögreglufólk og aðila í alls kyns samsetningum, í stað stuðnings-, hesta-, björgunarsveitar- og lögreglumanna, o.s.frv.“ Þarna er sem sé verið að amast við að í stað samsetninga með -maður séu notuð orð sem eru fullkomlega í samræmi við málkerfið, og ekki einu sinni nein nýjung heldur öll meira en 60 ára gömul og flest algeng – t.d. er á fimmta þúsund dæma um stuðningsfólk á tímarit.is.

Ég veit ekki hversu margar neikvæðar athugasemdir ég hef lesið um orðin kvár og stálp þar sem verið er að hæðast að þessum orðum og notendum þeirra, kalla þau „orðskrípi“ og gera lítið úr þörfinni fyrir þau. Sama máli gegnir um önnur orð sem hafa orðið til í tengslum við baráttu kynsegin fólks og viðurkenningu á tilvist þess, svo sem hán og ekki síður leghafi (eða legberi). Ég held þess vegna að það skipti ekki öllu máli hvers eðlis nýjungarnar eru – það mun ævinlega verða andstaða við breytingar á málinu, og alveg sérstaklega þær sem hafa valdeflingu ákveðinna hópa og jaðarsetts fólks að markmiði.

Þess vegna skil ég vel þau sem ganga svo langt að vilja nota tilbrigði í máli sem sumum eða flestum finnst ótæk til að vekja athygli á baráttunni en það er auðvitað óþolandi ef sú baráttuaðferð leiðir til þess „að fólk sem lýsir efasemdum á opinberum vettvangi um um þá breytingu á verkaskiptingu málfræðilegu kynjanna sem hér hefur verið lýst má þola ýmiss konar svívirðingar“ eins og Höskuldur segir. En ég held samt ekki að baráttuaðferðinni sé um að kenna. Mér hefur sýnst að óviðurkvæmileg ummæli séu ekkert síður í hina áttina, þ.e. í garð þeirra sem mæla með breytingum, jafnvel saklausum breytingum sem rúmast innan málkerfisins.