Ný orðasambönd sem tengjast tækni
Ég heyrði nýlega Alexander Kristjánsson fréttamann RÚV nota orðasambandið fara um sem lús í leikskóla í sömu merkingu og venja er að nota fara sem logi yfir akur eða fara sem eldur í sinu. Mér skilst að Alexander hafi búið þetta orðasamband til og finnst það alger snilld, gagnsætt og lýsandi og flest þeirra sem hafa átt börn á leikskólum undanfarin ár tengja vel við það. En í framhaldi af þessu fór ég að hugsa um mikilvægi þess að endurnýja föst orðasambönd málsins. Verulegur hluti þeirra orðasambanda sem við notum dags daglega er gamall og miðast við annars konar þjóðfélag og aðra atvinnuhætti. Það er auðvitað ekkert að því – þessi orðasambönd stuðla að samfellu málsins og vitund okkar um aðra tíma og siði.
En það er samt ekki síður nauðsynlegt að til verði ný orðasambönd sem byggjast á aðstæðum sem fólk þekkir úr daglegu lífi í samtímanum og tengir við. Þannig hafa ýmis orðasambönd sem tengjast tækni (sem stundum er orðin úrelt) orðið til á síðustu áratugum, svo sem sambönd sem tengjast bílum og umferð – gefa allt í botn, kúpla sig út út einhverju, kippa í handbremsuna, hrökkva í gang, gefa grænt ljós á eitthvað; sambönd sem tengjast miðlun hljóðs og myndar – ekki fer saman hljóð og mynd, spóla til baka, vera eins og rispuð plata; og sambönd sem tengjast símum og tölvum – vera utan þjónustusvæðis, endurforrita eitthvað. Einnig er talað um að strauja kortið, stimpla sig inn, viðvörunarbjöllur hringi, o.m.fl.