hæging

Nýlega fékk ég fyrirspurn um orðið hæging sem notað var í útvarpinu í sambandinu hæging á umferð en fyrirspyrjandi hafði ekki heyrt áður. Þetta er vissulega sjaldgæft orð en þó ekki nýtt. Elsta dæmi sem ég finn um það er í ritinu Úr þjóðarbúskapnum 1960, þar sem segir: „Sé það fastmótuð krafa launþegasamtakanna að uppskera visst lágmark kjarabóta á hverju ári, veldur hæging framleiðsluaukningar af völdum samdráttaraðgerða því, að þeim mun meiri hluti kauphækkunarinnar kemur fram sem hækkun verðlags.“ Á tímarit.is eru 54 dæmi um orðið og í Risamálheildinni 102, vissulega mörg þau sömu. Orðið kemur einnig fyrir í Flugorðasafni sem er í Íðorðabankanum og er þar notað sem þýðing á deceleration í ensku.

Talsverður hluti dæma um orðið er úr hagfræði, þ. á m. elsta dæmið eins og áður segir – iðulega er talað um hægingu á hagvexti. Þetta kemur vel fram í Degi 1999 þar sem segir: „Már segir að þessi hagvaxtarlækkun, eða „hæging“ eins og hagfræðingar orða það, jafngildi því að kanadíska hagkerfinu væri hent út úr heimsbúskapnum.“ En einnig er orðið töluvert notað í læknisfræði, talað um hægingu á hjartslætti eða annarri líkamsstarfsemi. Orðið er þó ekki bundið við þessi tvö svið, heldur er t.d. notað í tónlistargagnrýni í Morgunblaðinu 1997 þar sem segir: „SÁ lék með viðeigandi báruskvettandi sveiflu, og var meno mosso hæging kódans (við klarínettinnkomuna) sérlega falleg og áhrifamikil.“

Orðið hæging er myndað af sögninni hægja með viðskeytinu -ing sem er oft notað til að mynda verknaðarnafnorð af sögnum. Þannig er bylting 'það að bylta', aukning 'það að auka' – og hæging þess vegna 'það að hægja'. Stundum geta -ing-orð reyndar líka merkt afurð verknaðarins eða efni sem notað er til hans – málning merkir 'það að mála' en líka 'efni sem málað er með', teikning merkir 'það að teikna' en líka 'afurð athafnarinnar að teikna'. Ýmsar hliðstæður við hæging eru til í málinu – (niður)læging af (niður)lægja, plæging af plægja, (frið)þæging af (frið)þægja, (full)næging af (full)nægja, o.fl. Orðið er því rétt myndað, merkir það sem við er að búast, og á sér ýmsar skýrar hliðstæður – ekkert við það að athuga.

Öðru máli gegnir um orðið niðurhæging sem eingöngu virðist vera notað í lýsingu á því hvernig knapi hægir á hesti að loknum spretti í keppni – 21 dæmi er um þetta orð á tímarit.is og 23 í Risamálheildinni. Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2002 sagði Sveinn Sigurðsson: „Ætla mætti, að „hæging“ hefði verið nóg, svo ljótt sem það er, en það hefur augljóslega ekki verið talið duga og „niður“ skeytt framan við. Engu er líkara en með því sé verið að gefa í skyn, að til sé eitthvað, sem heitir „upphæging“.“ Ég get alveg tekið undir það að niðurhæging er ankannanlegt orð og niður- þar ofaukið. En hæging eitt og sér er hins vegar ágætt orð sem sjálfsagt er að nota, þótt auðvitað þurfi að venjast því eins og öðrum nýjungum.