Dónaskapur ráðuneytis

Lina Hallberg, sem nýlega lauk BA-prófi í íslensku sem öðru máli og skrifaði mjög fróðlega BA-ritgerð um íslensku sem annað mál, hefur verið óþreytandi í baráttu fyrir bættum vinnubrögðum stjórnvalda við kennslu íslensku sem annars máls. Í vor skrifaði ég hér pistil sem hét „Stjórnsýslufúsk“ þar sem fram kom að í bréfaskiptum Linu við Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafði ráðuneytið vísað erindum á Mennta- og barnamálaráðuneytið þrátt fyrir að hafa áður staðfest að kennsla íslensku sem annars máls fyrir fullorðna heyrði undir fyrrnefnda ráðuneytið. Ráðuneytið leiðrétti sig síðar um þetta mál en öllu meira hefur það ekki gert.

Síðan í september hefur Lina skrifað Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu sjö tölvupósta um þetta málefni, síðast í morgun. Hinum sex hefur ekki verið svarað. Þetta er í andstöðu við álit Umboðsmanns Alþingis frá 2008 þar sem segir: „Umboðsmaður rakti að það væri óskráð meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að hver sá sem bæri upp skriflegt erindi við stjórnvald ætti rétt á að fá skriflegt svar nema erindið bæri með sér að svars væri ekki vænst, en við setningu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefði verið gengið út frá því að þessi regla gilti.“

Það er auðvitað forkastanlegt og fullkominn dónaskapur hjá ráðuneytinu að svara ekki erindum sem til þess berast. En því miður gefur það líka skýra vísbendingu um að áhugi ráðuneytisins á kennslu íslensku sem annars máls sé í lágmarki, þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar forsætisráðherra og fleiri um að við þurfum að gera betur, og þrátt fyrir stofnun ráðherranefndar um íslenska tungu þar sem lögð er sérstök áhersla á kennslu íslensku sem annars máls – nefndar sem félags- og vinnumarkaðsráðherra situr m.a. í.