Ömurð – og aðrar -urðir
Í gær sá ég minnst á orðið ömurð á Facebook og nefnt að það fyndist ekki í orðabókum. Ég sé líka að orðið hefur oftar en einu sinni verið til umræðu í hópnum Skemmtileg íslensk orð og fengið misjafna dóma. Orðið merkir 'eymd; eitthvað ömurlegt, s.s. hlutur eða atburður' og er augljóslega myndað með hliðsjón af lýsingarorðinu ömurlegur en fyrri liðurinn ömur- kemur ekki fyrir sjálfstæður. Í Morgunblaðinu 2015 segir Baldur Hafstað: „Nýyrðið ömurð notar Sigurður Pálsson í Táningabók, m.a. um forsjárhyggju löggjafarsamkundunnar sem bannaði okkur að drekka bjór um áratugaskeið. Þetta orð, ömurð, er þeirrar náttúru að manni finnst það hafa verið til um aldir.“ Ég tek undir það – mér finnst þetta mjög gott orð.
Táningabók kom út 2015, en orðið er þó nokkru eldra. Elsta dæmi sem ég finn um það er í grein eftir Árna Daníel Júlíusson í Vikunni 1983: „Lítil ástæða virðist vera til að óttast að nýbylgjukynslóðin fari sömu leið og sú gamla, út í peningaplokkerí og vonleysislega Lónlí Blú Bojs-ömurð.“ Í Þjóðviljanum 1984 segir: „En mikil ömurð eru húsakynni Hallarinnar annars, köld og yfirþyrmandi óaðlaðandi fyrir uppákomur sem þessar og aðra listaviðburði yfirleitt.“ Á tímarit.is eru tæp 100 dæmi um orðið, flest frá síðustu tveimur áratugum. Í Risamálheildinni eru um 740 dæmi um orðið, þar af tæp 600 af samfélagsmiðlum. Orðið er því greinilega í mikilli sókn, sérstaklega í óformlegu máli en einnig í formlegri málsniðum.
Orðið er mynda með viðskeytinu -ð, á sama hátt og nokkur önnur orð – biturð, depurð, digurð, fegurð, lipurð, megurð, vekurð. Öll þessi orð eru mynduð af lýsingarorðum með stofnlægu r (þ.e., orðum þar sem -ur er hluti stofns en ekki beygingarending). Viðskeytið var upphaflega -iðō og það skýrir i-hljóðvarpið a > e í fegurð sem er komið af *fagriðō. Orðið megurð er einnig gamalt og myndað á sama hátt, en hin orðin virðast flest vera frá 18. eða 19. öld. Þótt viðskeytið sé löngu orðið einungis -ð og innihaldi því ekkert i sem valdi hljóðvarpi verður samt hljóðvarp í þessum yngri orðum þar sem grunnorðið hefur a í stofni, depurð og vekurð, vegna þess að málnotendur tengja það við orðmyndun með þessu viðskeyti.
En sum orð sem enda á -urð eru annars eðlis. Þannig er einurð leitt af lýsingarorðinu einarður og þar er -ð því ekki viðskeyti, heldur eru skilin í orðinu milli ein- og -urð. Þrjú orð frá 18. og 19. öld eru svo mynduð af forsetningu og orðhlutanum -urð sem er leiddur af sögninni verða. Þetta eru afurð (það sem verður af einhverju, 'útkoma, afrakstur, framleiðsluvara'), tilurð (það sem verður til –upphaflega líka notað í merkingunni 'staðreynd') og úrurð (það sem verður úr einhverju). Tvö fyrri orðin eru vitanlega mjög þekkt og algeng en úrurð náði aldrei flugi og er alveg horfið úr málinu. Það kom fyrst fyrir í Ármanni á Alþingi 1832 og merkir þar 'margfeldi' en kemur einnig fyrir í merkingunni 'summa'.
Svo er það ljóti andarunginn – hegurð. Þetta orð er skýrt 'Slöjd' í Íslensk-danskri orðabók en sløjd er það sem einu sinni var kallað 'handavinna pilta' – smíði o.þ.h. Í Fram 1922 segir t.d.: „Skólastjórinn kendi hegurð, Sigurður Björgólfsson teikninguna […] en fröken Margrét Jónsdóttir hannyrðir og sauma.“ Í Íslenskri orðsifjabók er orðið sagt vera„[r]angmyndað nýyrði af lo. hagur“ og merkja 'hagleikur, listfengi'. Þá merkingu hefur orðið t.d. í Lögréttu 1911: „Listfengi og hegurð, sjerstaklega á hverskonar smíði, sauma og vefnað hefur verið eitt af einkennum Íslendinga alt fram á þennan dag.“ Gísli Jónsson hefur eftir Steindóri Steindórssyni að Stefán Stefánsson skólameistari hafi búið orðið til eða a.m.k. tekið það upp.
„Orðið er auðsjáanlega myndað í misskildri samsvörun við fegurð, en þess ekki gætt, að r-ið í „fegurð“ (fegr-ð) heyrir meginhluta orðsins til, en r-ið í hag-r er beygingarending“ segir Jón Ólafsson í Reykjavík 1913 (og bætir við að orðið sé „myndað af Jónasi „aðalhöfundi““, væntanlega Jónas Jónasson). Þar sem viðskeyti bætast við stofn verður að líta á -urð í heg-urð sem viðskeyti, ekki bara -ð eins og í fegur-ð og öðrum orðum mynduðum af lýsingarorðum með stofnlægu -ur. Í ritdómi um Íslensk-danska orðabók í Skírni 1925 benti Jóhannes L.L. Jóhannsson á að rétt myndað nafnorð af hagur væri hegð – þar væri sem sé viðskeytinu -ð bætt við stofninn eins og í öðrum lýsingarorðum. Dæmi eru um að þetta orð hafi verið notað.
Í ljósi þess að -urð er sjálfstæður orðhluti í sumum orðum (ein-urð, af-urð, til-urð, úr-urð) er samt ekkert undarlegt að málnotendur skynji það sem viðskeyti í orðum eins og feg-urð þótt sú skipting sé ekki í samræmi við uppruna orðsins. En þótt vissulega megi halda því fram að myndun orðsins hegurð sé byggð á misskilningi finnst mér ekki sjálfgefið að það leiði til þess að orðinu sé hafnað. Form viðskeyta breytist og ný verða til – viðskeytið -ð varð til úr -iðō eins og áður segir. Það er hugsanlegt að líta svo á að til sé orðið viðskeytið -urð og það megi nota í nýmyndun orða, eins og hegurð. En líklega er búið að ganga endanlega frá því orði og því óþarfi að velta þessu fyrir sér – yngsta dæmi sem ég finn um hegurð er frá 1992.
Að lokum má nefna orðið júgurð yfir jógúrt sem kom fram á sjónarsviðið 1972. Þetta er óskylt öðrum -urð-orðum heldur er upphaflega hljóðlíking eins og Gísli Jónsson benti á í Morgunblaðinu 1981 og „hefur þann kost, að líkjast mjög upphaflega orðinu, falla að íslenzku beygingarkerfi kvenkynsorða og hafa auk þess í sér fólgna hluta tveggja íslenzkra orða, sem koma við sögu, þ.e. júgurs og afurða“ segir í Tímanum 1972. Orðið var svolítið notað næstu ár en náði aldrei hylli og virðist ekki hafa verið notað eftir 1980 nema í umræðu um orðið sjálft sem oftast var neikvæð. Pistlahöfundi í DV 1999 fannst „júgurð lítt geðsleg sem mjólkurafurð“ og sama ár var orðið talið meðal 10 verstu nýyrða 20. aldarinnar í sama blaði.