Skipulagsleysi í málum íslenskukennslu

Í fyrradag skrifaði ég hér um það sem ég kallaði dónaskap Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins – að svara ekki erindum sem því hafa verið send á undanförnum þremur mánuðum og varða kennslu íslensku sem annars máls. Um leið sendi ég tölvupóst sem var efnislega samhljóða þessari færslu til ráðuneytisins og jafnframt til viðkomandi ráðherra. Ég hef ekki heyrt neitt frá ráðuneytinu (nema sjálfvirkt svar um að erindið væri móttekið) en ráðherrann skrifaði mér strax í gær og á skilið hrós fyrir það, þótt innihald bréfsins gefi ekki sérstakar vonir um miklar breytingar til batnaðar.

Ráðherrann sagði sem sé að samkvæmt sínum heimildum væri „verið að svara a.m.k. einhverjum af þessum erindum“ og vissulega væri leitt þegar svör tefðust en mörg þessara erinda væru „ekki búin að liggja lengi í ráðuneytinu“. Það er svo sem túlkunaratriði hvað „ekki lengi“ merkir – elsta erindið var meira en þriggja mánaða gamalt, annað meira en tveggja mánaða, og þrjú til viðbótar mánaðargömul eða rúmlega það. En þótt þetta mál hafi snúist um viðbragðsleysi Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins er vandamálið miklu víðtækara og alvarlegra en það.

Eftir uppstokkun ráðuneyta heyra málefni íslensku sem annars máls nefnilega undir fimm ráðuneyti. Íslenskukennsla í grunn- og framhaldsskólum heyrir undir Mennta- og barnamálaráðuneytið, íslenska sem annað mál á háskólastigi heyrir undir Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, íslenskukennsla fullorðinna undir Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, og mál sem varða íslenskupróf fyrir umsækjendur um ríkisborgararétt heyra undir Dómsmálaráðuneytið. Að auki heyra málefni íslenskrar tungu almennt séð undir Menningar- og viðskiptaráðuneytið.

Lina Hallberg hefur undanfarna mánuði skrifað öllum þessum ráðuneytum bréf með ýmsum erindum og fyrirspurnum sem varða íslensku sem erlent mál og oftast komið að tómum kofum. Sum ráðuneytin hafa engu svarað, en önnur hafa svarað einhverju og þá iðulega til að fría sig ábyrgð og vísa erindinu á eitthvert annað ráðuneyti. Þetta sýnir glöggt að innan Stjórnarráðsins ríkir algert skipulagsleysi og skortur á samhæfingu í þessum mikilvægu málum. Það hefur lítið upp á sig að flagga skipun ráðherranefndar um málefni íslenskunnar meðan skipulagið er í molum innan Stjórnarráðsins sjálfs.

Útlendingum fjölgar ört hér á landi og ef við viljum að íslenska verði áfram aðaltungumál landsins og burðarás samfélagsins verður að hefja stórátak í kennslu íslensku sem annars máls nú þegar. Þetta hefur legið fyrir lengi og oft verið bent á það, en þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda um að það hafi „alls ekki verið nóg gert í því að styðja við íslenskukennslu fyrir útlendinga“ bólar ekkert á raunhæfum aðgerðum – ég kalla nefndarskipanir ekki aðgerðir. Skipulagsleysi þessara mála innan stjórnarráðsins og viðbrögð eða viðbragðsleysi ráðuneyta við erindum sem þeim berast um þessi mál gefur ekki tilefni til bjartsýni.