Á að ryksjúga, ryksoga – eða er í lagi að ryksuga?

Nafnorðið ryksuga kemur fyrst fyrir í auglýsingu í Ísafold 1912: „RYKSUGA (Stövsuger) er hreinsar prýðilega húsgögn, ábreiður og annað er ryk sezt í, er nýkomin í Bankastræti 7.“ Þótt orðið sé greinilega myndað með hliðsjón af danskri samsvörun sinni hefur það yfirleitt þótt gott og gilt. Þannig sagði í Móðurmálsþætti Vísis 1956: „Fer þetta orð vel í málinu, er myndað á sama hátt og orðið blóðsuga, af 3. kennimynd sagnarinnar að sjúga, við sugum. Eru mörg dæmi þess, að nafnorð séu mynduð þannig af 3. kennimynd sagna, t.d. orðið nám […].“ Hins vegar hefur iðulega verið amast við samhljóma sögn, og í Málvöndunarþættinum var t.d. spurt í gær hvort ætti að tala um að ryksuga eða ryksjúga, og hvort sögnin suga væri til.

í Syrpu 1947 sagði Bjarni Vilhjálmsson: „Nafnið ryksuga er gott, táknar vel, til hvers hluturinn er ætlaður, og er þægilegt í beygingu. Hins vegar tíðkast nú mikið sögnin að ryksuga. Hún minnir helzt á, hvernig börn og brezkar þjóðir mynda sagnir. Ég hef miklar mætur á hvorum tveggja, en krefst þess þó, að sögnin hverfi úr tali þeirra Íslendinga, sem komnir eru til vits og ára. […] [V]eika sögnin að suga [er] alveg ranglega mynduð, hún á að heita – og heitir – að soga.“ Niðurstaða Bjarna var: „Sögnin að ryksuga er fyrir neðan allar hellur; sögnin að ryksjúga er ekki beinlínis röng, en óviðfelldin á ýmsa lund. Sögnin að ryksoga er góð, en einkum mæli ég þó með því að stytta hana í soga, þegar þess er kostur.“

Eiríkur Hreinn Finnbogason var á sömu nótum í Móðurmálsþætti Vísis 1956: „En svo undarlega bregður við, að þegar ryksuga er notuð, þá nefna fjölmargir þann verknað danskri sögn, að ryksuga (á dönsku stövsuge). Er þetta óþarft og rangt. […] Þarna á að nota sögnina að ryksjúga […]. Einnig mætti nota sögnina að soga hér, ryksoga, soga ryk, en það virðist eigi algengt. Fólk gæti valið hér á milli sagnanna að soga og sjúga, en suga er engin íslenzka.“ Í þætti sínum í Morgunblaðinu 1980 vitnaði Gísli Jónsson í bréfritara sem vildi nota sögnina ryksoga en sagði svo: „En myndarlegast þætti mér, eða svipmest, að nota í þessu dæmi samsetningu af sterku beygingunni og ryksjúga.“ Fleiri svipaðar umsagnir mætti nefna.

Eins og áður segir kemur nafnorðið ryksuga fyrst fyrir árið 1912, og verður algengt á þriðja áratugnum. Sögnin ryksuga virðist aftur á móti vera u.þ.b. tveimur áratugum yngri. Elstu dæmi sem ég finn um hana eru í tveimur auglýsingum í Vísi 1931: „Bílarnir eru bónaðir með bónivél og ryksugaðir um leið“ og „Tek að mér að ryksuga húsgögn og teppi“. Næsta dæmi um sögnina sést ekki fyrr en 1940, og það er ekki fyrr en um og upp úr 1950 sem hún fer að verða algeng. Elsta dæmi um ryksjúga er aðeins yngra, frá 1933, og um þá sögn er eitthvað á annað hundrað dæma á tímarit.is. Elsta dæmi um ryksoga er úr áðurnefndri grein í Syrpu 1947, en dæmi um hana eru sárafá, aðeins á þriðja tug.

Sagnirnar ryksjúga og ryksoga eru myndaðar af samböndunum sjúga/soga ryk með því að taka andlagið ryk og gera það að forlið sagnanna. En sögnin ryksuga getur ekki verið mynduð þannig vegna þess að sambandið *suga ryk er ekki til. Sögnin er þess vegna mynduð beint af samsetta nafnorðinu ryksuga eins og mismunandi aldur nafnorðs og sagnar gefur vísbendingu um. Þess vegna skiptir ekki máli þótt sögnin *suga sé ekki til – hún er óþarfur milliliður í orðmynduninni. Það er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að leiða sögn af samsettu nafnorði og ýmis dæmi um það í málinu. Það er t.d. lítill vafi á því að sögnin handjárna er leidd af nafnorðinu handjárn því að sambandið *járna hendur er varla notað.

Þótt ryksjúga, ryksoga og ryksuga virðist í fljótu bragði hliðstæðar sagnir eru þær því myndaðar á tvo ólíka vegu. Fyrrnefndu sagnirnar tvær gætu ekki verið myndaðar beint af nafnorði því að nafnorðin *ryksjúga og *ryksoga eru ekki til. Sögnin ryksuga á sér níutíu ára sögu í málinu og er vitanlega fyrir löngu búin að vinna sér hefð – og væri það jafnvel þótt hún væri dönsk að uppruna eða ranglega mynduð í einhverjum skilningi. En svo er ekki – eins og hér hefur verið sýnt fram á er ryksuga fullkomlega eðlileg íslensk sögn, mynduð af nafnorði á sama hátt og fjöldi annarra sagna, og engin ástæða til að amast hið minnsta við henni.