Er kominn tími á að tengja?

Í gær var spurt í Facebook-hópnum Málspjall um orðasambandið kominn tími á sem fyrirspyrjanda fannst „frekar óþjált“ og vildi heldur segja kominn tími til. Í sumar var líka spurt: „Hvernig stendur á því að nú heyrist varla annað en tími á?“ Ég svaraði því þá þannig að samkvæmt tölum af tímarit.is færi því fjarri að kominn tími á væri að útrýma kominn tími til, en þar að auki fyndist mér merking þessara tveggja sambanda ekki vera alveg sú sama, a.m.k. ekki alltaf. Sambandið kominn tími til er miklu eldra og hefur verið algengt a.m.k. síðan á fyrri hluta 19. aldar, og sama máli gegnir um tilbrigðin tími til kominn og tími kominn til – elstu dæmi um þau öll á tímarit.is eru frá fimmta áratug 19. aldar.

Elsta dæmi um kominn tími á er aftur á móti frá 1983, og dæmum hefur fjölgað ört síðan, einkum frá miðjum 10. áratugnum. Á árunum 2000-2022 eru dæmi um afbrigðin með til samt hátt í fjórum sinnum fleiri en dæmin um kominn tími á, en það síðarnefnda virðist þó vera í sókn. Í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar sem gefur besta mynd af óformlegu samtímamáli er fjöldi dæma um kominn tími á nærri 90% af samanlögðum fjölda dæma um tilbrigðin þrjú með til. Öfugt við kominn tími til er röð orðanna í sambandinu föst – það er ekki hægt að segja *tími á kominn eða *tími kominn á. Sambandið tími kominn á tekur líka oftast með sér nafnorðsandlag en samböndin með til taka oftast með sér nafnháttarsetningu.

Elsta dæmið um kominn tími á er í viðtali í Vikunni 1983: „Mér finnst skemmtanabransinn góður skóli þó hann sé troðfullur af fíflalátum. Ég er kannski ekki orðinn leiður á honum en mér finnst kominn tími á mig.“ Annað dæmi er í pistli í Velvakanda Morgunblaðsins 1984: „Það er kominn tími á tungu sem haldist hefur óbreytt í þúsund ár. Nú er dagskipunin ekki lengur afturhald heldur framsókn.“ Þriðja dæmið er úr Degi 1985: „Já, það var kominn tími á mig í Plastverksmiðjunni. Það var búið að byggja verksmiðjuna verulega upp og ég var að hluta til farinn að endurtaka mig.“ Fjórða dæmið er úr viðtali við Bjarna Felixson í DV 1985: „Sigurður Sigurðsson segir að það sé kominn tími á mig fyrir langa löngu.“

Í þessum dæmum væri ekki hægt að setja kominn tími til í stað kominn tími á – bæði setningagerðin og merkingin er önnur. Hér merkir kominn tími á að tími einhvers sé liðinn – kominn tími á mig merkir 'ég hef verið nógu (eða of) lengi í þessu hlutverki'. Það er þó ekki svo að sambandið hafi alltaf þessa merkingu. Frá upphafi virðist það líka geta komið í stað kominn tími til, eins og í Tímanum 1983: „Þarna fara tvö neðstu lið úrvalsdeildarinnar, og kominn tími á ÍR-inga að fara að vinna leik.“ Sama máli gegnir um dæmi í NT 1984: „Ertu ánægður með að hafa skákað Bretanum, var ekki kominn tími á það?“, og í Eyjafréttum 1984: „Það er eiginlega löngu kominn tími á manninn til að gefa okkur viðtal“.

En þrátt fyrir að iðulega sé hægt að not hvort heldur er kominn tími til eða kominn tími á finnst mér samböndin ekki vera alveg jafngild. Ég hef á tilfinningunni að í kominn tími til sé áherslan á breytinguna og tímasetningu hennar, en í kominn tími á sé áherslan fremur á ástæðu og nauðsyn breytingarinnar og það samband sé neikvæðara. Ef ég segi t.d. „Nú er kominn tími til að þvo bílinn“ merkir það að nú sé hentugur tími og góðar aðstæður til að hrinda þessu í framkvæmd. En ef ég segi „Nú er kominn tími á að þvo bílinn“ merkir það frekar að bíllinn sé svo skítugur að ekki verði undan því vikist að þvo hann. En auðvitað er merkingarmunurinn lítill og mjög oft er því hægt að nota hvort sambandið sem er.