Að þaga þunnu hljóði

Í dag rakst ég á setninguna „Gagnrýnir stjórnarliða fyrir að þaga þunnu hljóði“ á vefmiðli. Í hefðbundnu máli væri sagt þegja þunnu hljóði en myndin þaga er þó vel þekkt. Um hana eru hátt í 200 dæmi á tímarit.is, það elsta í Morgunblaðinu 1928: „Væri frásögnin hinsvegar rjett, var þetta atferli svo einstakt, að ómögulegt var yfir að þaga.“ Í Risamálheildinni eru 425 dæmi um orðmyndina þaga, þar af 310 á samfélagsmiðlum sem sýnir að hún er mun algengari í óformlegu máli en formlegu. En iðulega hefur verið amast við þessari beygingu. Gísli Jónsson nefndi hana a.m.k. fjórum sinnum í þáttum sínum í Morgunblaðinu (563, 708, 1098, 1135) og bæði Jón G. Friðjónsson og Baldur Hafstað hafa einnig nefnt hana í málfarsþáttum í sama blaði.

Að auki má nefna Jón Aðalstein Jónsson sem sagði í Morgunblaðinu 2003: „Þess vegna er sagt: ég þegi í hel, þú þegir og hann þegir málið í hel, alls ekki ég þaga, þú þagar, hann þagar málið í hel. Enda þótt ég viti, að enginn segi svo, er einsætt að benda á þennan rugling. Í OM (1983) og OE (2002) má t.d. sjá dæmi eins og að þegja þunnu hljóði, þegja um e-ð, þegja yfir e-u. Hér held ég engum detti í reynd í hug að tala um að þaga þunnu hljóði o.s.frv.“ En slík dæmi eru þó til – í Vikublaðinu 1996 segir „Mér finnst áberandi að óbreyttir stiórnarliðar þaga þunnu hljóði“ og í DV 1999 segir „þeir segjast ekki sjá neina ástæðu til að þaga þunnu hljóði yfir því“. Í Risamálheildinni má einnig finna nokkur dæmi um þetta samband af samfélagsmiðlum.

Jón Aðalsteinn fullyrðir að „enginn segi“ ég þaga, þú þagar, hann þagar, og Halldór Halldórsson sagði í Tímanum 1956: „Öllum heimildarmönnum mínum ber saman um að sögnin þaga beygist nákvæmlega eins og sögnin þegja […].“ Þetta er nærri lagi þótt örfá dæmi séu um annað, m.a. „nei ég þaga ekki“ af Hugi.is 2006, „Atvinnulífið er ekki að leita að starfsfólki sem þagar í 8 tíma og fylgir leiðbeiningum“ af Twitter 2014, og „ætli þið hinar þagið ekki bara yfir ykkar lögbrotum, hver sem þau svosum eru“ af Bland.is 2009. Þessi dæmi eru sárafá, en nokkur dæmi eru um þögum – „Við þögum stærsta hugsuð okkar í hel“ í Morgunblaðinu 1932, „Skilum skömminni og þögum aldrei yfir ofbeldi“ af Twitter 2021, og fáein í viðbót.

Í umfjöllun um myndina þaga í Tímanum 1956 vitnaði Halldór Halldórsson í Guðmund G. Hagalín sem kvaðst „þekkja þennan nafnhátt vel að vestan bæði úr Arnarfirði og Dýrafirði“ og einnig hafði Halldór „spurnir af nafnhættinum þaga úr Dalasýslu“. „Virðist því útbreiðsla hans vera þó nokkur“ sagði Halldór og benti á að j í nafnhætti sagnanna segja og þegja er afbrigðilegt í þeim flokki sem sagnirnar tilheyra. „Það hefði því vel mátt búast við nafnhættinum þaga í for[n]máli“ segir Halldór en taldi þó ekki að myndin þaga hefði varðveist frá fornu fari „þótt hún kunni að vísu að vera nokkuð gömul“, heldur væri um að ræða áhrif frá öðrum sögnum sama flokks – fólk hefði farið að beygja þaga ­– þagði þagað hliðstætt vara – varði – varað.

Um þetta segir Halldór: „Slík fyrirbrigði eru algeng í öllum málum og nefnast áhrifsbreytingar.“ Það er athyglisvert að Halldór, sem yfirleitt hikaði ekki við að kveða upp dóma um „rétt“ mál og „rangt“, nefnir ekki að nafnhátturinn þaga sé rangur. En hann var líka tilbúinn að viðurkenna staðbundnar málvenjur og taldi – öfugt við það sem oft var gert, t.d. í kverinu Gætum tungunnar – að þora því væri jafnrétt og þora það, því að þótt það síðarnefnda væri að vísu eldra væri það fyrrnefnda staðbundin málvenja á Vestfjörðum. Væntanlega hefur hann einnig talið þaga staðbundna mynd sem þar með væri rétt mál. Enda er hún gömul, algeng og fullnægir öllum skilyrðum til að teljast málvenja og þar með „rétt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu.