Geta risaeðlur verið litlar?

Hér hefur stundum verið rætt um merkingu samsettra orða – hvort og að hvaða marki við túlkum þau bókstaflega út frá merkingu samsetningarliðanna. Gott dæmi um þetta eru samsetningar með risa- sem fyrri lið. Þar er auðvitað um að ræða nafnorðið risi sem er skýrt 'þjóðsagnavera sem líkist gríðarstórum manni, jötunn' og 'mjög hávaxinn maður' í Íslenskri nútímamálsorðabók, en getur líka verið 'e-ð mjög stórt' eins og segir í Íslenskri orðabók. Þessi merking kemur fram í lýsingarorðum eins og risastór og risavaxinn og fjölmörgum nafnorðum eins og risafura, risafyrirtæki, risalaun, risamót, risarækja, risaskjár, risasvig, risatitill, risaveldi, risaþota og fjölmörgum fleiri – þetta er mjög frjó orðmyndun.

En algengasta orðið með þessum fyrri lið er þó líklega risaeðla sem virðist vera u.þ.b. hundrað ára gamalt – elsta dæmi um það er í greininni „Myndun Íslands og ævi“ eftir Guðmund G. Bárðarson í Iðunni 1918 þar sem dýralífi á miðlífsöld er lýst: „Nú eru fjölmargar skriðdýrategundir komnar fram á sjónarsviðið; hefir sá dýraflokkur hvorki fyr eða síðar staðið í jafnmiklum blóma; þá voru uppi fiskeðlur (Ichthyosaurus), svaneðlur (Plesiosaurus), flugeðlur (Pterodactylus), risaeðlur (Dinosaurus) o.fl. af þeim dýraflokki. Dýr þessi voru sum geisi-stór (hvaleðlan 12 m. löng) og mörg fáránleg að útliti og árum líkust.“ Þarna er ljóst að heitið risaeðla er bara notað um einn margra flokka eða ættbálka af forsögulegum eðlum.

Í almennu máli hefur þróunin þó orðið sú að risaeðla er iðulega notað sem samheiti yfir allar tegundir forsögulegra eðla, stórar og smáar. Þar af leiðir að með orðinu eru stundum notuð lýsingarorð sem ekki samræmast endilega merkingu fyrri liðarins, risa-. Það virðist hafa hafist með kvikmyndinni „The Land before Time“ eftir Steven Spielberg sem „segir frá lítilli risaeðlu sem strýkur frá heimkynnum sínum“. Myndin var frumsýnd á Íslandi fyrir jólin 1989 og var þá kölluð „Fyrstu ferðalangarnir“ en þegar hún var sýnd í sjónvarpi tveimur árum síðar fékk hún heitið „Litla risaeðlan“. Síðan hafa verið sýndar fjölmargar barnamyndir um „litlar risaeðlur“ þannig að málnotendur hafa vanist þessu orðasambandi og það er algengt í málinu.

Önnur lýsingarorð svipaðrar merkingar og lítill koma einnig fyrir með risaeðlu – bæði smávaxin risaeðla og dvergvaxin risaeðla koma fyrir á prenti, og einnig samsetningin dvergrisaeðla. Þar við bætist að lýsingarorð andstæðrar merkingar koma einnig fyrir – stór risaeðla, risastór risaeðla, risavaxin risaeðla, tröllvaxin risaeðla. Þarna mætti búast við að fyrri liðurinn risa- gerði þessi lýsingarorð óþörf. En notkun lýsingarorða sem vísa til stærðar með orðinu risaeðla sýnir að málnotendur skynja orðið iðulega sem heild án þess að horfa á það út frá þeirri merkingu sem fyrri liðurinn hefur einn og sér. Það er fullkomlega eðlilegt, og einmitt það sem búast má við og gerist mjög oft þegar orð hafa verið lengi í málinu og eru algeng.

Þarna kemur vel fram hvernig hið margrómaða gagnsæi íslenskunnar getur bæði gagnast okkur til að skilja orð sem við þekkjum ekki, en einnig flækst fyrir okkur þegar merking orða hnikast til. Ef við heyrum eða sjáum ókunnugt orð með fyrri liðinn risa- vitum við strax að um er að ræða eitthvað mjög stórt. En sú tenging getur líka truflað sum okkar í orðum sem hafa öðlast fastan sess í málinu eins og risaeðla. Það veldur engum vandkvæðum að tala um small dinosaur í ensku eða lille dinosaur í dönsku vegna þess að dinosaur er ekki gagnsætt í þessum málum á sama hátt og risaeðla í íslensku – dino- hefur ekki sérstök tengsl við stærð í huga fólks (er leitt af deinos (δεινός) 'hræðilegur' í grísku en venjulegir málnotendur vitað það tæpast).

Hér eigum við tvo kosti. Við getum horft fram hjá merkingu einstakra orðhluta og litið á orðið risaeðla sem heild, sem merki 'skriðdýr af ótiltekinni tegund sem uppi var á miðlífsöld og er nú aldauða'. Ef við gerum þetta er eðlilegt að nota hvers kyns lýsingarorð sem vísa til stærðar með orðinu. En við getum líka sagt að það sé ótækt að nota risaeðla í svona víðri merkingu – það vísi eingöngu til ákveðinna stórvaxinna ættbálka eins og fyrri liðurinn sýni glöggt. Þetta verður fólk að gera upp við sjálft sig, en almennt séð held ég að það sé óheppilegt að hrófla við orðum sem hafa unnið sér hefð í málinu jafnvel þótt okkur finnist þau ekki notuð á „rökréttan“ hátt. Öðru máli gegnir um orð sem lýsa viðhorfum eða gildismati og geta falið í sér fordóma.