Umferðin fer aukandi

Í frétt sem ég las á vefmiðli í morgun rakst ég á setninguna „Brúnin þarna í dag er stórhættuleg og umferðinni fer bara aukandi“. Ég staldraði við sambandið fara aukandi og minntist þess ekki að hafa séð það áður eða heyrt. Vissulega er þetta auðskilið, en venjulegt orðalag í þessu samhengi væri þó umferðin eykst eða umferðin fer vaxandi. Leit á tímarit.is staðfesti þá tilfinningu að þetta orðalag væri óvenjulegt því að ég fann innan við 10 dæmi um það. Elsta dæmið er í Skírni 1865: „til atvinnu við baðmullaryrkju, er mjög hefir farið aukandi síðan í þeim löndum.“ Einnig má nefna „Þingtraust sjera E.P. hefur farið aukandi“ í Vísi 1914 og „Gosdrykkjaneysla landsmanna er einnig gífurlega mikil og fer aukandi“ í Tímanum 1987.

En í Risamálheildinni fann ég hátt í 40 dæmi um sambandið, flest úr óformlegu máli á samfélagsmiðlum, t.d. „mér finnst að það hafi farið aukandi lyk[t]in frá honum“ á Hugi.is 2003, „Þessi „æsifréttaflutningur“ hefur farið sí aukandi“ á Málefnin.com 2004, „Agavandamál á Íslandi fara alltaf aukandi með hverju árinu“ á Bland.is 2004 og „Spjaldtölvu-menntun er nú að fara aukandi“ á Twitter 2015. Einnig má finna dæmi á hefðbundnari vefmiðlum, t.d. „Fylgi Obama í Pennsylvaníu hefur farið aukandi“ á mbl.is 2008, „Hingað til hafa þó viðskipti milli landanna farið aukandi“ í Viðskiptablaðinu 2015, „umsvifin í fasteignalánum fara aukandi“ á Vísi 2017, og „tekjuójöfnuður karlmanna milli kynslóða hafi farið aukandi“ í Kjarnanum 2017.

Vitanlega er aukandi rétt myndaður lýsingarháttur nútíðar af auka og er langalgengastur í samsettum lýsingarorðum, eins og atvinnuaukandi, blóðaukandi, bragðaukandi, lystaukandi, virðisaukandi og fjölmörgum fleiri. Notkun hans sem sjálfstæðs orðs í sömu merkingu og ‚vaxandi‘, er þó ekki bundin við sambandið fara aukandi – „St. nýtur trausts meðal þingmanna, og mun það aukandi farið hafa“ segir í Vísi 1914, „25 ára reynsla okkar og stöðugt aukandi sala sýnir best, að viðskiftamenn okkar eru ánægðir“ segir í Morgunblaðinu 1929, „heldur njóta sjómennirnir í stöðugt aukandi mæli betri kjara“ segir í Sjómannablaðinu Víkingi 1967, og „hún er farin að vera aukandi á Suður- og Vesturlandinu“ segir í Bændablaðinu 2005.

En í dæminu sem ég vitnaði til í upphafi segir ekki umferðin fer aukandi eins og búast mætti við, heldur umferðinni fer aukandi – frumlagið er í þágufalli. Það er óvænt, því að sögnin auka stjórnar þolfalli en ekki þágufalli og því mætti búast við frumlagi í nefnifalli eins og í hliðstæðum víxlum með öðrum sögnum sem stjórna þolfalli, t.d. verslunin hækkaði álagninguálagning fer hækkandi. Þarna virðast vera áhrif frá sögnum eins og fjölga sem stjórna þágufalli sem helst í slíkum víxlum – verslunin fjölgaði vörum vörum fer fjölgandi. Í Risamálheildinni má finna tvö dæmi um þágufall með fara aukandi – „áttum frekar von á því kannski að komum færi aukandi eftir hrun“ í RÚV 2015 og „ofbeldisglæpum fer aukandi“ á Twitter 2015.

Það er því ljóst að sambandið fara aukandi er til í málinu og notkun þess fer vaxandi – ég segi ekki fer aukandi því að þetta samband er ekki (enn) hluti af mínu máli, og sama gildir líklega um meginhluta málnotenda. En það þýðir ekki að ástæða sé til að amast við því. Öðru nær – ég hef oft haldið því fram að við eigum almennt séð að taka nýjungum í málinu fagnandi, svo framarlega sem þær ganga ekki í berhögg við málkerfið á einhvern hátt. Það er lífsnauðsyn fyrir íslenskuna að endurnýjast eins og hún hefur alltaf gert, og þótt ekki sé mikil hefð fyrir fara aukandi er tæpast hægt að hafna því sambandi með málfræðilegum rökum. En vegna fallstjórnar auka er rétt að halda sig við nefnifallið og segja umferðin fer aukandi frekar en umferðina.