Íslenska í fjölmenningarsamfélagi

Hér hefur eins og oft áður skapast umræða um fólk á íslenskum vinnumarkaði sem ekki talar íslensku. Þessu fólki fer sífjölgandi, ekki síst í ýmiss konar afgreiðslu- og þjónustustörfum þar sem bein samskipti við viðskiptavini eru grundvallarþáttur starfsins. Mörgum gremst að geta ekki notað íslensku við kaup á vörum eða þjónustu og vísa til þess að íslenska sé opinbert mál á Íslandi, og telja sig eiga kröfu á að geta notað hana við allar aðstæður. Þetta er í sjálfu sér skiljanleg og eðlileg krafa en hún er hins vegar fullkomlega óraunhæf og ósanngjörn. Það er ekki sök þess starfsfólks sem um ræðir – við getum sjálfum okkur um kennt. Við höfum ekki staðið okkur í því að bjóða upp á aðstæður sem geri innflytjendum auðvelt að læra íslensku.

Ég veit að ég hef margoft sagt þetta áður en ég segi það einu sinni enn: Það þarf að gera stórátak í íslenskukennslu innflytjenda – útbúa hentugt námsefni, mennta hæfa kennara, hanna og útfæra fjölbreytt ókeypis námskeið sem henta mismunandi hópum, og leita leiða til að flétta íslenskunám saman við vinnu fólks. En formleg kennsla er ekki það eina sem til þarf – það þarf einnig og ekki síður að breyta viðhorfinu til innflytjenda og íslenskunotkunar þeirra. Yfirmenn, samstarfsfólk og viðskiptavinir þurfa að taka höndum saman um að auðvelda innflytjendum að bjarga sér á íslensku og bæta málkunnáttu sína smátt og smátt. Athugasemdir við og um starfsfólk fyrir að tala ekki (nógu góða) íslensku eiga ekki rétt á sér og hafa öfug áhrif.

En við verðum samt að horfast í augu við það að enska er komin til að vera í íslensku málsamfélagi, og við verðum að vera undir það búin að geta ekki alltaf notað íslensku. Jafnvel þótt allt yrði gert sem hægt er til að kenna erlendu starfsfólki íslensku er ljóst að það tekur tíma að læra málið og það er óraunhæft að gera ráð fyrir því að fólk fari ekkert út á vinnumarkaðinn fyrr en það er orðið bjargálna í málinu. Virk notkun er besta leiðin til að þjálfa sig í tungumáli og þess vegna er svo mikilvægt að innflytjendum í afgreiðslu- og þjónustustörfum gefist kostur á að nýta málkunnáttu sína á hverjum tíma í samskiptum við viðskiptavini. Þetta byrjar kannski á því að báðir aðilar tala ensku en síðan kemur íslenskan inn smátt og smátt, á löngum tíma.

Þarna er vandrataður millivegur sem við þurfum að reyna að feta – sýna fólki sem kemur hingað (og er forsenda fyrir því að þjóðfélagið gangi) umburðarlyndi þótt það tali ekki fullkomna íslensku, og jafnframt halda íslenskunni á lofti og gera kröfu um að geta notað hana sem víðast. En sú krafa verður að beinast gegn stjórnvöldum og atvinnurekendum sem þurfa að skapa skilyrði til þess að innflytjendur geti lært málið – og ekki síður gegn okkur sjálfum sem þurfum að breyta hugarfari okkar gagnvart „ófullkominni“ íslensku og þeim sem hana tala. Ef við viljum að íslenskan verði áfram meginsamskiptamál í því fjölmenningarsamfélagi sem hér er sem betur fer orðið til þurfum við öll að leggja okkar af mörkum til þess.