Þrennt var í bílnum – allt konur

Meðal þeirra breytingar sem sum gera á máli sínu í átt til kynhlutleysis er að nota hvorugkyn fornafna og beygjanlegra töluorða um óskilgreindan hóp í stað karlkyns – öll velkomin, mörg voru viðstödd, þrjú slösuðust í stað allir velkomnir, margir voru viðstaddir, þrír slösuðust eins og hefðbundið er. En ef hvorugkynið er notað er oft spurt t.d. „þrjú hvað?“ Á bak við slíkar spurningar virðist liggja sú hugmynd að það þurfi að vera hægt að hugsa sér eitthvert hvorugkynsnafnorð sem gæti réttlætt hvorugkynið á fornafninu eða töluorðinu. Ef karlkyn er notað er hægt að hugsa sér að það standi með mennallir menn velkomnir, margir menn voru viðstaddir, þrír menn slösuðust – en *þrjú fólk gengur augljóslega ekki (en er e.t.v. að breytast).

Þegar um er að ræða ótilgreindan hóp er hefðbundið að nota karlkyn í slíkri vísun, allir velkomnir – Höskuldur Þráinsson hefur kallað þetta sjálfgefið kyn í nýlegri grein í Málfregnum. En ef kynjasamsetning hópsins er þekkt er hins vegar hægt að nota kvenkyn eða hvorugkyn eftir því sem við á og þá er talað um vísandi kyn. Í hefðbundnu máli er þannig karlkynið þrír slösuðust annaðhvort notað vegna þess að um þrjá karlmenn er að ræða, og kyn töluorðsins þá vísandi, eða vegna þess að kynjasamsetning hópsins er óþekkt, og karlkynið er þá sjálfgefið. Í hefðbundnu máli er sem sé vel hægt að segja þrjú slösuðust án þess að hugsa sér nafnorð til að kalla fram hvorugkynið ef vitað er að um blandaðan hóp er að ræða.

En í stað þess að nota hvorugkynið eitt, tvö, þrjú og fjögur í vísun til blandaðs hóps fólks er þó annar kostur fyrir hendi. Í Málfarsbankanum segir: „Hvorugkynið eitt (tvennt, þrennt, fernt) er stundum notað sem nafnorð. Ég skal segja þér eitt mjög merkilegt, jafnvel tvennt ef þú verður góð. Þau eiga tvennt og þrennt af öllu. Fernt fórst í árekstri í gær. Diskurinn brotnaði í þrennt.“ Þarna er ekki nauðsynlegt – og oft ekki hægt – að hugsa sér eitthvert hvorugkynsnafnorð sem töluorðið/lýsingarorðið eigi við – það þýðir ekki að spyrja „þrennt hvað?“ En ef við notum venjuleg töluorð, í hvaða kyni sem er, verða nafnorð hins vegar að fylgja. Það er ekki hægt að segja *diskurinn brotnaði í þrjá og hugsa sér að hluti eða partur sé undirskilið.

Það er ljóst að mörgum finnst eðlilegra að nota þessar myndir en venjulegar hvorugkynsmyndir töluorða í vísun til blandaðs hóps. Á tímarit.is eru t.d. 153 dæmi um tvennt var í bílnum, 146 um þrennt var í bílnum og 58 um fernt var í bílnum. Aftur á móti eru aðeins tvö dæmi um tvö voru í bílnum og þrjú voru í bílnum og eitt um fjögur voru í bílnum. Einnig eru meira en tólf sinnum fleiri dæmi um tvennt slasaðist og þrennt slasaðist (123 og 113) en um tvö slösuðust og þrjú slösuðust (10 og 9). Í Risamálheildinni er munurinn minni en þó töluverður. Þar eru t.d. 174 dæmi um tvennt var í bílnum en aðeins 10 um tvö voru í bílnum, og 61 dæmi um tvennt slasaðist en 9 um tvö slösuðust. Munurinn á þrennt / fernt og þrjú / fjögur er mun minni.

Ég hef ekki skoðað öll dæmin um tvennt / þrennt / fernt en sýnist þó ljóst að í mjög mörgum þeirra kemur beinlínis fram að um kynjablandaðan hóp er að ræða. Spurningin er hins vegar hvort það sér forsendan fyrir því að unnt sé að nota þessi orð. Getum við t.d. endað frétt af útafakstri með setningunni þrennt var í bílnum án þess að nokkuð hafi komið fram um samsetningu hópsins? Og ef það er hægt, erum við þá með því að nota þrennt að koma þeim upplýsingum á framfæri að hópurinn hafi verið blandaður? Eða gefur þrennt ekkert slíkt til kynna, þannig að hægt væri að segja þrennt var í bílnum, allt konur? Ég held að ég gæti sagt það, en ég býst við að tilfinning fólks fyrir þessu sé mismunandi.