Það var kosið um tillöguna

Stundum sé ég því haldið fram að sögnin kjósa sé ranglega notuð þar sem ætti að nota greiða atkvæði. Eiður Guðnason fjallaði t.d. nokkrum sinnum um þetta í pistlum sínum, „Molar um málfar og miðla“, og sagði m.a.: „Fjölmiðlamenn eru svo gott sem alveg hættir að gera greinarmun á því að greiða atkvæði og að kjósa. […] Sífellt er talað um að kosið sé um tillögur á Alþingi, þegar að mati Molaskrifara ætti að tala um að greiða atkvæði. Í kosningum fara menn á kjörstað og kjósa, greiða atkvæði. Á Alþingi er kosið í ráð og nefndir. Ekki greidd atkvæði um ráð eða nefndir, en atkvæði eru greidd um tillögur og lagagreinar. Atkvæðagreiðslan fer nú fram, segir þingforseti. Kosningin er hafin segir þingforseti, ef um listakosningu er að ræða.“

Málfarsbankinn er á sömu línu en tekur ekki jafn djúpt í árinni, fullyrðir ekki að um ranga málnotkun sé að ræða: „Sumum þykir betra mál að tala um atkvæðagreiðslu fremur en kosningu þegar sagt er já eða nei við tiltekinni hugmynd eða tillögu. Að sama skapi vilja þeir frekar tala um að greiða atkvæði en kjósa í því sambandi.“ Ég verð að játa að athugasemdir af þessu tagi komu mér í opna skjöldu þegar ég sá þær fyrst – ég hafði alltaf litið svo á að kjósa og greiða atkvæði væru samheiti eins og raunar má ráða af því sem segir í tilvitnuninni í Eið Guðnason hér að framan – „Í kosningum fara menn á kjörstað og kjósa, greiða atkvæði“. Þess vegna hef ég aldrei áttað ég mig á því hvað er athugavert við að tala um að kjósa um tillögu.

Grunnmerkingin í kjósa er 'velja', yfirleitt velja milli tveggja eða fleiri kosta, og sambandið kjósa um kemur fyrir í þeirri merkingu þegar í fornu máli – „Nú skaltu konungur kjósa um kosti þessa áður þing sé slitið“ segir t.d. í Heimskringlu. Þegar kosið er um tillögu er vitanlega valið milli tveggja kosta – að samþykkja tillöguna eða hafna henni. Það er líka margra áratuga hefð fyrir því að kjósa um tillögur – í Morgunblaðinu 1948 segir: „Það verður kosið um tillögur Alþýðuflokksins um að afnema fjötrana á samtökum verkalýðsins.“ Það er líka talað um að kjósa með tillögu og kjósa (á) móti / gegn tillögu í merkingunni 'samþykkja' / 'hafna' – „65 kusu með tillögunni 5 á móti og 6 voru fjarverandi“ segir í Mánudagsblaðinu 1957.

Ég sé því enga ástæðu til að amast við því að tala um að kjósa um tillögur, hvort sem er á Alþingi eða annars staðar, þótt vitanlega sé líka hægt að greiða atkvæði um þær. Að sama skapi er löng hefð fyrir því að nota sambandið greiða atkvæði og nafnorðið atkvæðagreiðsla, ekki síður en sögnina kjósa og nafnorðið kosning, þegar verið er að velja fólk til trúnaðarstarfa. Vissulega er aðeins talað um alþingiskosningar en ekki *alþingisatkvæðagreiðslu, en hins vegar er talað um að greiða atkvæði í kosningum, greiða atkvæði á kjörstað, utankjörfundaratkvæðagreiðslu o.s.frv. Vitanlega getur fólk haft þann smekk að „betra mál“ sé að gera skýran greinarmun á atkvæðagreiðslu og kosningu en það styðst hvorki við rök né málhefð.