Misgóð nýyrði

Á síðustu öld var smíðaður aragrúi nýyrða sem mörg hver hafa verið gefin út í sérstökum nýyrðasöfnum. Elst slíkra safna er líklega „Orð úr viðskiftamáli“ sem Orðanefnd Verkfræðingafjelagsins birti í Lesbók Morgunblaðsins 1926. Fæst þessara orða komust í almenna notkun og okkur finnst mörg þeirra brosleg og getum skemmt okkur konunglega yfir þeim. En öllu gamni fylgir nokkur alvara og nauðsynlegt að hafa í huga að vitanlega voru þessi nýyrði smíðuð og sett fram í fullri alvöru, og á bak við þau liggur einlægur áhugi á því að auðga íslenskan orðaforða og „hreinsa“ málið af erlendum orðum í samræmi við þá þjóðernishyggju sem reis hæst í sjálfstæðisbaráttunni á seinni hluta 19. aldar og byrjun þeirrar 20.

Á listanum „Orð úr viðskiftamáli“ eru meira en sex hundruð nýyrði. Mér sýnist í fljótu bragði að ekki öllu fleiri en tuttugu af þeim séu í almennri notkun nú, hundrað árum síðar – og í mörgum tilvikum er erlenda orðið líka notað. Sennilega hafa flest orðanna aldrei komist í notkun en sum voru eitthvað notuð um tíma en eru nú að mestu horfin, svo sem glóaldin í stað appelsína, bjúgaldin í stað banani, rauðaldin í stað tómatur, eiraldin í stað apríkósa og granaldin í stað ananas. Önnur eru horfin vegna þess að fyrirbærið sem þau vísa til er ekki lengur hluti af þekkingarheimi almennings, svo sem langstóll í stað chaise longue (legubekkur með baki eða upphækkun við höfðalag) og valkol í stað anthrakit (sérstök úrvalstegund kola).

En í meirihluta tilvika er bæði fyrirbærið og erlenda orðið vel þekkt í samtímanum en íslenska nýyrðið gleymt og grafið og fyrir því eru örugglegar mismunandi ástæður. Ein er auðvitað sú að ný orð verka yfirleitt framandi á fólk. Það tekur tíma að venjast þeim og haft er eftir Halldóri Halldórssyni prófessor, sem smíðaði mörg nýyrði sem sum komust í notkun en önnur ekki, að það þurfi að segja nýtt orð sextíu sinnum til að venjast því. En sum orðanna eru ekki bara framandi heldur verka líka á okkur sem hlægileg eða hallærisleg. Þar er þó rétt að hafa í huga að smekkur fólks breytist á skemmri tíma en hundrað árum og það er vel mögulegt að tilfinning fólks fyrir orðunum hafi verið önnur á þeim tíma sem þau komu fram en nú.

Aðalástæðan er þó líklega sú að orðin sem átti að skipta út voru komin inn í málið og höfðu unnið sér þar hefð, mörg hver a.m.k. Flest þeirra nýyrða sem þykja best heppnuð og eru alltaf notuð í almennu máli komu fram áður en nokkur erlend orð sömu merkingar höfðu náð fótfestu í málinu – orð eins og sími, tölva, þota, þyrla, snjallsími, spjaldtölva o.fl. Þegar orð hafa unnið sér hefð í málinu eiga ný orð sem eiga að koma í staðinn oftast erfitt uppdráttar. Góð dæmi um það eru ávaxtaorðin sem nefnd eru hér að framan – það eru í sjálfu sér ágæt orð en erlendu orðin voru orðin of föst í málinu til að þau væru lífvænleg. Almennt séð er hvorki líklegt til árangurs né íslenskunni til framdráttar að reyna að losna við orð sem hafa unnið sér hefð.

Þótt sú stefna að smíða íslensk nýyrði í stað erlendra tökuorða hafi yfirleitt verið nokkuð óumdeild hafa stundum komið fram efasemdir um hana. Bent hefur verið á að eitt af því sem torveldar útlendingum íslenskunám sé að í málinu eru ekki notuð ýmis alþjóðaorð, flest af grískum eða latneskum stofni, sem annars ferðast milli mála. Þótt þessi orð séu kannski ekki stór hluti orðaforðans er alltaf mjög uppörvandi fyrir málnema að heyra orð sem þau kannast við úr öðrum málum. Ég var t.d. í gær að hlusta á frétt þar sem talað var við pólskukennara í Háskóla Íslands, á pólsku. Ég kann ekkert í pólsku en ég skildi samt þegar talað var um „kulture“,  „polski film“, „polski musiki“ og „polski histori“ (skrifað eftir framburði).

Í íslensku er auðvitað aragrúi tökuorða og sjaldnast hægt að halda því fram að þau spilli málinu. Aðalatriðið er að þau falli að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins – hafi ekki að geyma framandi hljóð eða hljóðasambönd og taki beygingum eins og þau orð sem fyrir eru. Flestöll tökuorð gera þetta, og þótt orð eins og snjallsími sé vissulega vel heppnað og almennt notað myndi smartfónn falla alveg jafnvel að málinu – andstaða við slíkt orð væri fremur byggð á þjóðernislegum en málfræðilegum forsendum. Okkur vantar alltaf ný og ný orð og það er sjálfsagt að halda áfram að smíða íslensk nýyrði þegar þess er kostur, en það er ekki síður nauðsynlegt að hika ekki við taka erlend orð inn í íslenskuna og laga þau að málkerfinu.