Lestir á leið í öfuga átt
Í frétt Ríkisútvarpsins í gær af hræðilegu lestarslysi í Grikklandi var sagt „Lestirnar voru á leið í öfuga átt“. Þetta hefur farið öfugt ofan í marga hlustendur og er svo sem ekkert undarlegt – þetta er sannarlega ekki hefðbundið orðalag og fram kom hjá ýmsum að þarna hefði átt að tala um gagnstæða átt eða segja að lestirnar hefðu komið úr gagnstæðum áttum. En þýðir það að orðalag fréttarinnar sé beinlínis rangt? Lýsingarorðið öfugur merkir vissulega oftast 'ekki réttur, sem snýr vitlaust' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. En eins og fram kemur í Íslenskri orðabók getur það líka merkt 'gagnstæður, andstæður', og í Íslensk-danskri orðabók er m.a. gefin merkingin 'omvendt' og dæmið þetta er öfugt við það, sem er hjá okkur.
Þetta merkir ekki að það sem um er rætt sé rangt, og það eru ýmis dæmi um að öfug átt merki 'gagnstæð átt'. Í Vísi 1938 segir: „Póstlestin milli Jóhannesarborgar og Bulawayo ók með feiknahraða á vöruflutningalest, er kom úr öfugri átt.“ Í Alþýðublaðinu 1965 segir: „Thomsen ók einkabifreið sinni á vörubifreið, sem kom úr öfugri átt.“ Í Morgunblaðinu 1987 segir: „Ökumaður vélhjóls, sem var að koma frá Akureyri, lenti í árekstri við fólksbíl, sem kom úr öfugri átt.“ Í DV 1989 segir: „Bilið milli ríkra og fátækra hefur stækkað, lífsskilyrði í norðri og suðri Bretlandseyja hafa þróast í öfugar áttir.“ Í þessum dæmum merkir öfug átt augljóslega ekki 'röng átt', heldur er í öllum tilvikum hægt að setja gagnstæður í stað öfugur.
Þótt algengast sé að tala um gagnstæðar áttir í fleirtölu í dæmum af þessu tagi er eintalan líka stundum notuð. Þannig segir í Alþýðublaðinu 1938: „Orsök slyssins er talin sú, að rangt merki hafi verið gefið, með þeirri afleiðingu, að lestirnar, sem fóru í gagnstæða átt, mættust á einspora braut.“ Í Degi 1989 segir: „Tveir bílar óku í gagnstæða átt eftir Aðalgötu en er þeir mættust sveigði annar fyrir hinn og skullu þeir saman af miklum krafti.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Betur fór en á horfðist þegar tveir bílar sem óku í gagnstæða átt skullu saman við Hraun í Öxnadal.“ Í Morgunblaðinu 1989 má m.a.s. finna dæmi sem er alveg hliðstætt því sem nefnt var í upphafi: „Talið er að lestirnar hafí verið á leið í gagnstæða átt þegar þær rákust saman.“
Þótt öfugur þurfi ekki að vera andstæða við 'réttur' verður það að vera andstæða við eitthvað og ef sú andstæða er ekki nefnd berum orðum má oft ráða hana af samhenginu – eða við gefum okkur að um sé að ræða andstæðu við eitthvert norm. En sama máli gegnir um gagnstæður – það er ekki hægt að vera bara gagnstæður, það þarf að vera gagnstæður við eitthvað. Við erum ekki í vandræðum með að átta okkur á því að lestir sem eru á leið í gagnstæða átt eru á leið í gagnstæða átt hvor við aðra, hvor á móti annarri – og á sama hátt eru lestir sem eru á leið í öfuga átt á leið í öfuga átt hvor við aðra. Það verður ekki annað séð en slíkt orðalag geti alveg staðist og sé röklegt, en vissulega er ekki hefð fyrir því í málinu.