Forsætisráðherra er einhuga

Í dag heyrði ég útvarpsfrétt sem hófst svo: „Forsætisráðherra er einhuga um að bygging vindorkuvera eigi að vera áfram undir hatti rammaáætlunar.“ Mér hnykkti aðeins við, vegna þess að þetta er óvenjuleg notkun lýsingarorðsins einhuga – yfirleitt er það notað um hóp fólks, í merkingunni 'sammála, á einu máli'. Þannig er sagt ríkisstjórnin er einhuga í málinu, dómnefndin var einhuga um niðurstöðuna, o.s.frv. Stundum er einhuga líka notað í merkingunni 'einróma' – „Ákvörðun um það var einhuga“ segir í Fréttablaðinu 2008. Orðið er oftast í stöðu sagnfyllingar en stundum er það þó notað hliðstætt með nafnorði – „Það var einhuga vilji til þess í stjórn sjóðsins að styrkja þetta verkefni“ segir í Morgunblaðinu 2004.

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er einhuga sagt hafa merkinguna 'sammála, samþykkur' en í Íslenskri orðabók er að auki gefin merkingin 'mjög hugrakkur, ákveðinn' og sama gildir um Íslensk-danska orðabók Sigfúsar Blöndals. Vissulega þarf ekki að vera langt á milli 'ákveðinn' og 'sammála' – setningu eins og ríkisstjórnin var einhuga í málinu má skilja bæði sem svo að allir ráðherrarnir hafi verið sammála, en einnig sem svo að afstaða ríkisstjórnarinnar hafi verið mjög ákveðin. Merkingin 'mjög hugrakkur' er hins vegar líklega alveg horfin úr orðinu en kemur t.d. fram í Alþýðublaðinu 1937: „Fanst hann síðla dags og var tjaldað yfir líkinu, og fenginn til að vaka yfir tjaldinu ung stúlka, einhuga, sem Guðrún hét, frá Eiríksstöðum.“

Þegar einhuga merkir 'ákveðinn' – eða kannski 'einbeittur' – þarf það ekki að eiga við hóp fólks heldur er hægt að nota það um einstakling. Í Samvinnunni 1939 segir: „Hann var einhuga og viljastyrkur.“ Í Tímanum 1956 segir: „Ásgeir var einhuga samvinnumaður.“ Í Alþýðublaðinu 1967 segir: „Hann var einhuga í starfi, fáskiptinn mjög og óáleitinn samstarfsmaður.“ Í Morgunblaðinu 1991 segir: „Skúli, sem er einhuga og kappsfullur, vildi víst ekki láta undan.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „maður sem vílaði ekkert fyrir sér, var einhuga og ötull og lá úti í stórhríðum eins og ekkert væri.“ Í Skessuhorni 2013 segir: „Hann er einhuga um að vinna með stjórnendum sveitarfélagsins, skólaráði, starfsfólki og foreldrum að eflingu skólans.“

Víkjum þá aftur að setningunni sem varð tilefni þessa pistils – „Forsætisráðherra er einhuga um að bygging vindorkuvera eigi að vera áfram undir hatti rammaáætlunar.“ Samkvæmt því sem hér hefur komið fram getur þetta staðist, öfugt við það sem mér sýndist í fyrstu – ef við lítum svo á að einhuga merki þarna 'ákveðin, einbeitt'. Sú merking virðist eiga ágætlega við í þessu tilviki og því eru engar forsendur til að áfellast þann sem skrifaði fréttina fyrir að nota orðið ranglega. Hitt er annað mál að vegna þess að einhuga er langoftast notað um hóp og notkun orðsins um einstaklinga hefur alla tíð verið sjaldgæf er líklega rétt að forðast að nota orðið á þann hátt sem gert var í fréttinni – til að forðast ásakanir um rangt mál, þótt ekki væri annað.