Þetta er allavega í lagi

Í Málfarsbankanum segir: „Orðin alla vega og alla vegana merkja það sama og alls konar. Einnig eru þau notuð í merkingunni: að minnsta kosti, alltént (alltjent), hvað sem öðru líður. Sú merking hæfir ekki í vönduðu máli.“ Þetta er dálítið villandi. Vissulega getur allavega merkt sama og alls konar, í dæmum eins og „En það eru líka allavega menn sem veljast í þetta“ í Helgarpóstinum 1986. En þá er það lýsingarorð, stendur hliðstætt með nafnorði – eða sem sagnfylling, eins og „Liturinn á hestunum er alla vega“ í Búnaðarritinu 1916. Lýsingarorðið allavega hefur því alltaf merkinguna 'alls konar' en aldrei þá merkingu sem ekki er sögð hæfa í vönduðu máli. Það á einungis við um atviksorðið allavega (eða alla vega), ekki lýsingarorðið.

Orðið allavega er upphaflega forsetningarliður, á alla vega, og er algengt í fornu máli í merkingunni 'allar áttir' eða 'allar hliðar' – vega er eldri mynd nafnorðsins vegur í þolfalli fleirtölu (þar sem nú er vegi). Forsetningin á fellur oft brott og eftir stendur alla vega sem hefur þá stöðu atviksorðs. Í Heimskringlu segir: „En varðmenn voru á hestum og héldu hestvörð alla vega frá bænum“ (þ.e. 'í allar áttir'). Í Sturlungu segir: „En er hestarnir komu að þá sendi Þórður alla vega menn frá sér til mannsafnaðar“ ('í allar áttir'). Í Gísla sögu Súrssonar segir: „Hann verður nú var við menn á alla vega frá sér“ ('allar hliðar'). En merkingin 'á allan hátt' kemur líka fyrir í fornu máli: „Alla vega þykir mér þér fara sem lítilmannlegast“ segir í Sturlungu.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er atviksorðið allavega sagt hafa tvær merkingar – 'á allar hliðar' og 'á allan hátt'. Í Íslenskri orðabók (þriðju útgáfu frá 2002) er allavega(na) sagt hafa þrjár merkingar: 'á allar hliðar, allan hátt'; 'hvað sem öðru líður, hvort sem er'; og 'að minnsta kosti'. Síðastnefnda merkingin er sögð óformleg eins og í Málfarsbankanum, en merkingin 'hvað sem öðru líður' sem Málfarsbankinn amast líka við er gefin athugasemdalaust. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er merkingin 'að minnsta kosti' gefin án athugasemda. Í kverinu Gætum tungunnar er „Ég syndi allavega einu sinni í viku“ leiðrétt í „Ég syndi að minnsta kosti einu sinni í viku“ og bætt við: „Ath.: allavega merkir: á allan hátt, með ýmsu móti.“

Í fjölmörgum tilvikum er hægt að skilja atviksorðið allavega á fleiri en einn hátt. Í Alþýðublaðinu 1941 segir: „Það er alla vega ávinningur að fara snyrtilega með peninga.“ Í Þjóðviljanum 1945 segir: „Sigur A-listans er allavega tryggður í þessum kosningum.“ Í Tímariti Máls og menningar 1961 segir: „En það er allavega notalegt að hvíla sig eftir matinn.“ Í Alþýðublaðinu 1962 segir: „Jæja, ég er alla vega háður yðar skipunum á meðan ég er hér.“ Í öllum þessum dæmum er hægt að setja á allan hátt í stað allavega – en einnig hvað sem öðru líður og að minnsta kosti. Vegna þess hve munurinn milli þessara merkinga er oft lítill er mjög erfitt að sjá hvenær seinni merkingarnar – þessar sem amast hefur verið við – komu upp.

En fyrir 1960 eru allavega farin að koma fram dæmi þar sem merkingin 'á allan hátt' getur tæpast átt við. Í Þjóðviljanum 1958 segir: „Hún er allavega eitthvað meiri en 100 tonn.“ Í Þjóðviljanum 1958 segir: „Skákin er allavega töpuð.“ Í Heimilisblaðinu 1959 segir: „Það gat líka verið prentvilla, myndin var alla vega af Martinu.“ Í Vikunni 1960 segir: „Vonandi kæmu börnin ekki framar til Þýzkalands, og þá var alla vega tíu þúsund Júðum færra.“ Í Alþýðublaðinu 1960 segir: „Hún er allavega ástfangin af þér nú.“ Í Vikunni 1963 segir: „Það var allavega engin tilviljun, að þér stunguð honum í líkama Ralphs á fyrrverandi baklóð Ronalds Jaimet.“ Í þessum dæmum hlýtur merkingin að vera annaðhvort 'hvað sem öðru líður' eða 'að minnsta kosti'.

Eins og hér hefur komið fram er merking orðsins allavega önnur en í upphafi, þegar vega hafði bókstaflega merkingu. En viðhorfið til merkingartilbrigða orðsins í nútímamáli er mismunandi – yfirfærða merkingin 'á allan hátt' er viðurkennd en aðrar merkingar taldar óæskilegar. Gísli Jónsson sagði þó um allavega(na) í þætti sínum í Morgunblaðinu 1987: „Ég reyni að halda dauðahaldi í „að minnsta kosti“, en ég er sannfærður um að hinu verður ekki auðrýmt burtu í sömu merkingu, enda komið inn á bækur góðra höfunda.“ Það er ljóst að notkun allavega í merkingunni 'hvað sem öðru líður' eða 'að minnsta kosti' á sér langa hefð og er gífurlega algeng í nútímamáli. Ég sé ekki forsendurnar fyrir því að amast við henni.