Hvað er helmingi meira?

Oft eru gerðar athugasemdir við notkun sambandanna helmingi meira og helmingi minna og annarra hliðstæðra. Grétar Eiríksson skrifaði t.d. í Morgunblaðinu 2003: „Mér finnst leiðinlegar villur sem menn gera við notkun á einföldustu stærðfræðihugtökum. T.d. þegar menn segja helmingi meira þegar það á að segja tvöfalt meira. Helmingi meira þýðir heildin að viðbættum helmingi hennar eða 150% af upprunalegu tölunni. Þar með er 3 helmingi meira en tveir, og 4 tvöfalt meira en tveir. Enska orðið double þýðir tvöfalt en ekki helmingi meira eins og sumir virðast halda. Það er ansi leiðinlegt að heyra fréttamenn tala um helmingi meiri hagnað fyrirtækja og svo veit maður ekki hvort þeir séu að meina helmingi meira eða tvöfalt meira.“

Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 segir undir helmingur: „naar der er Tale om Forøgelse el. Formindskelse bet[yder] h[elmingi] henholdsv[is] 100% og 50%: helmingi meira, det dobbelte; helmingi minna, det halve; helmingi stærri, dobbelt saa stor.“ Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: „helmingi miðast ávallt við hærri upphæðina; talan tuttugu er helmingi sínum hærri en tíu.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er helmingur skýrt 'annar hluti af tveimur jafnstórum' og einnig í Íslenskri orðabók en þar er bætt við: „helmingi stærri ýmist tvöfalt eða hálfu stærri, 100% (50%) stærri; helmingi minni 50% minni.“ Þarna er því komin inn tvíræðni sem Gísli Sigurðsson skrifaði um í Tímariti Máls og menningar 2006:

„Mörgum þykir höfuðnauðsyn að málfar sé rökrétt og gangi upp í reikningsformúlu. Að sumu leyti er þetta krafa okkar vísindalega sinnuðu tíma því að í flestum fögum er nákvæm orða- og hugtakanotkun mikilsverð. Gallinn er sá að hefðbundið málfar er ekki alltaf jafn rökrétt og vísindi vorra tíma vilja helst vera. Þannig háttar til um þá málvenju að eitthvað sé helmingi meira en annað, Jói borðaði helmingi meira en Gunna, Bjössi er helmingi feitari en Gummi og svo framvegis. Það er hægt að efna í ágætt kaffitímaþras með því að spyrja hvað átt sé við með þessum orðum. Í nefndum dæmum eru nákvæmir útreikningar að vísu óviðeigandi því eiginleg merking er bara miklu meira og miklu feitari.“

En Gísli heldur áfram og bendir á vandamál við notkun þessara sambanda: „Alvara málsins eykst þó ef fjármálafyrirtæki auglýsir helmingi meiri ávöxtun hjá sér en öðrum. Þá viljum við vita hvort átt er við 100% meiri ávöxtun eða bara 50%. Samkvæmt rökréttri orðanna hljóðan er hægt að halda því fram að það sem er helmingi meira en eitthvað annað sé bara 50% meira. Í almennri málnotkun háttar samt þannig til að þetta orðasamband þýðir oftast nær að eitthvað sé 100% meira. Þessi óvissa hefur orðið til þess að í kennslubókum í stærðfræði er ekki hægt að nota hið hefðbundna málfar heldur verður að tala um tvöfalt meira. Má því segja að tilraunir til að leiðrétta málfar með rökvísina að vopni hafi hér gert málið fátækara.“

Í greinargerð Baldurs Jónssonar prófessors um þetta mál sem Gísli Jónsson birti í þætti sínum í Morgunblaðinu 1996 segir: „Ef til vill má orða það svo að þarna ljósti saman gömlum tíma og nýjum. Sá sem lærir reikning í skóla nútímans er ekki í vafa um að það sé rökrétt sem honum er kennt. Því ályktar hann sem svo að gamla orðalagið geti ekki staðist úr því að það brýtur í bága við hið nýja. Þetta viðhorf hefi ég orðið var við, jafnvel hjá glöggum reikningsmönnum, en á það get ég ekki fallist. Frá mínum bæjardyrum séð mætast hér ekki andstæðurnar rökrétt: órökrétt. Í gamla orðalaginu er ekkert órökrétt, en viðhorfið er allt annað en í prósentumáli og hefir líka mótast við allt aðrar aðstæður, löngu áður en prósentureikningur gerði vart við sig.“

Á Vísindavefnum er bent á að málvenja sé að helmingi meira merki 'tvöfalt meira', en: „Þessi hefðbundna merking orðasambandsins „helmingi meira en“ virðist hins vegar vera á undanhaldi um þessar mundir og gamla og nýja merkingin ruglast saman. Þar sem tilgangur tungumálsins er öðru fremur sá að tjá hugsun okkar er slíkur ruglingur óheppilegur, ekki síður fyrir það að mörgum reynist nógu erfitt að ná tökum á annarri hvorri merkingunni. Ruglingurinn verður þá meðal annars til þess að menn veigra sér við að taka svona til orða og leita annarra leiða til að orða hugsun sína. Jafnframt bendir þó flest til þess að nýja merkingin, sem er í samræmi við hliðstætt orðalag í almennum hlutfallareikningi að öðru leyti, muni verða ofan á innan tíðar.“