Að spóla til baka og hraðspóla

Í gær sá ég fyrirsögnina „Guterres biður ríki heims um að hraðspóla í átt að kolefnisjöfnun“ á vef Ríkisútvarpsins. Þótt sögnin hraðspóla sé kunnugleg er hana ekki að finna í þessari merkingu í orðabókum – hún er hvorki flettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók Íslenskri orðabók, en í Orðabók Aldamóta Snöru) er hún flettiorð og skýrð 'snúa hratt bandi á mynd- eða hljóðsnældu', þýðing á „fast-forward“ á ensku. Ólíklegt er samt að merking þessarar fyrirsagnar vefjist fyrir lesendum, enda kemur skýringin strax á eftir: „Útlitið í loftslagsmálum er ansi svart að mati aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Auðugustu ríki heims verða að taka af skarið og flýta sínum áformum svo hægt verði að ná settum markmiðum.“

Elsta dæmi um hraðspóla á tímarit.is er í auglýsingu um myndbandstæki í DV 1983: „Hægt er að hraðspóla fram og til baka á níföldum hraða.“ Nafnorðið hraðspólun sem væntanlega er leitt af sögninni kemur þó fyrir nokkru fyrr, í smáauglýsingum Vísis 1975: „Langbylgja, miðbylgja, hraðspólun á báða vegu.“ Í ljósi þess að segulbandstæki urðu algeng á sjötta áratugnum er þó trúlegt að sögnin hraðspóla sé eldri en þetta. Framan af var hún eingöngu notuð í bókstaflegri merkingu, en elsta skýra dæmi sem ég hef fundið um yfirfærða merkingu sagnarinnar er í grein eftir Björk Guðmundsdóttur í Morgunblaðinu 1999: „Mörg Asíulönd misstu mikið til af iðnbyltingunni og þungaiðnaði og mengun og fengu að hraðspóla beint inn í hátæknina.“

En fleiri dæmi eru um líkingar af þessum uppruna. Ein merking sagnarinnar spóla í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'flytja segulband eða myndband fram eða aftur' og við hana eru gefin dæmin „spóla áfram“ og „spóla til baka“. Elsta dæmi um spóla til baka er í Alþýðublaðinu 1966: „Þetta er einkar þægilegt, þar eð bandinu má spóla til baka og sýna upptökuna strax á eftir á sjónvarpsskermi í upptökusal.“ Rétt eins og hraðspóla var spóla til baka framan af notað í bókstaflegri merkingu, en í Helgarpóstinum 1982 er merkingin greinlega yfirfærð: „Átta mig svo, spóla til baka og reyni eitthvað nýtt.“ Einnig er stundum talað um að spóla fram, t.d. í Morgunblaðinu 2012: „Spólum fram um fleiri ár en Víkverji kærir sig um að viðurkenna.“

Eftir aldamót fer dæmum um yfirfærða merkingu smátt og smátt fjölgandi, bæði í hraðspóla og spóla til baka, og flest dæmi frá síðustu árum eru þess eðlis, enda tilheyra segulbandstæki og myndbandstæki horfnum heimi. Meðal nýlegra dæma má nefna „Þjóðin gerir áætlanir, framkvæmir og hraðspólar“ í Morgunblaðinu 2018 og „Þá henti ég því sem ég hafði skrifað og spólaði til baka“ í Fréttablaðinu 2020. Þetta er komið inn í formlegt mál – spóla til baka er t.d. algengt í ræðum á Alþingi og hraðspóla hefur brugðið þar fyrir. Mér finnst þetta skemmtileg dæmi um hvernig ný tækni elur af sér líkingar sem lifa áfram í málinu þótt viðkomandi tækni verði úrelt. Annað dæmi um þetta er sambandið strauja kortið sem ég hef áður skrifað um.