Væl eða krakkasöngur?

Ég sé iðulega athugasemdir um það – stundum á Málspjalli en aðallega í Málvöndunarþættinum – að það sé lítið að marka mig vegna þess að ég leggi mig fram um að réttlæta allar ambögur og telji ekkert rangt, a.m.k. ekki ef það finnst á tímarit.is. Eftir erindi sem ég flutti í ónefndum Rótarýklúbbi í haust kom einn fundarmanna til mín og sagðist hafa haldið að ég væri anarkisti. Það er ég ekki, en ég skil samt vel að fólk sem er alið upp við hefðbundna íslenska málvöndunarstefnu – eins og við erum flest, a.m.k. þau sem eru komin yfir miðjan aldur – skuli fá þessa tilfinningu. Við ólumst upp við að eitt væri rétt en allt annað rangt og aldrei þurfti að velkjast í vafa um, hvað þá réttlæta eða útskýra, hvaða málbrigði það væri sem teldist rétt.

Ég hef vissulega snúist gegn ýmsum þeim málfarskreddum sem ég lærði í æsku og taldi heilagan sannleik. En það er ekki vegna þess að ég sé anarkisti, heldur vegna þess að ég hef skoðað grundvöllinn undir þessum kreddum og iðulega komist að þeirri niðurstöðu að hann sé valtur eða hreint ekki til. En tilgangur minn með því að skrifa um þetta er samt ekki sá að brjóta niður barnatrú og barnalærdóm lesenda, heldur að auka umburðalyndi, benda á að heimurinn er ekki svarthvítur í þessum efnum frekar en öðrum, og málfarstilbrigði sem hafa verið fordæmd eiga sér oftar en ekki einhverja skýringu og jafnvel réttlætingu – tíðkast annars staðar á landinu, eru leifar úr eldra máli, eiga sér skýra hliðstæðu í viðurkenndu máli, eru frjó nýsköpun, o.s.frv.

Okkur finnst flestum að íslenskan eigi að vera eins og hún var þegar við tileinkuðum okkur hana á máltökuskeiði – eða eins og okkur var kennt að hún ætti að vera. Ég er ekkert öðruvísi en annað fólk í því að ef ég heyri eða sé orð eða málnotkun sem ég kannast ekki við finnst mér það oftast skrítið og það pirrar mig stundum, og ég á það til að hnussa yfir því – og jafnvel kenna hroðvirkni eða fákunnáttu um. Vissulega þurfum við öll að fá útrás fyrir pirring stöku sinnum en það er samt oftast nær miklu skemmtilegra og frjórra að velta málinu fyrir sér – skoða hvort ókunnuglegt orð eða orðalag eigi sér einhverja réttmæta skýringu. Þá er ekki að vita nema okkur fari eins og jólasveininum sem áttaði sig á að „þetta sem mér virtist væl, var þá krakkasöngur“.