Er þingkona „orðskrípi“, „málspjöll“ og „latmæli“?
Á dögunum var þess minnst að hundrað ár voru síðan fyrsta konan, Ingibjörg H. Bjarnason, tók sæti á Alþingi og varð þar með alþingismaður – eða var hún kannski alþingiskona? Fram til 1923 sátu eingöngu karlar á Alþingi og því skipti ekki máli hvort -maður í alþingismaður var talið kynhlutlaust eða skilið sem 'karlmaður'. Í tilefni af áðurnefndum tímamótum fannst mér fróðlegt að athuga hvernig Ingibjörg hefði verið titluð í blöðum á þessum tíma. Haustið 1922 stóð í Alþýðublaðinu: „Var bréfið sent stjórnarformanninum, alþingiskonu Ingibj. Bjarnason.“ En í sama blaði 1923 stendur líka: „Var málshefjandi Ingibjörg H. Bjarnason alþingismaður.“ Í Morgunblaðinu 1924 segir: „Á fundinum verður meðal annars alþingiskona I.H. Bjarnason.“
Þegar Ingibjargar er getið í blöðum á kjörtímabili hennar, 1922-1930, sýnist mér hún heldur oftar nefnd alþingiskona en alþingismaður. Þær örfáu konur sem sátu á þingi næstu fimmtíu árin – Guðrún Lárusdóttir, Katrín Thoroddsen, Kristín L. Sigurðardóttir, Rannveig Þorsteinsdóttir, Ragnhildur Helgadóttir, Auður Auðuns, Svava Jakobsdóttir, Sigurlaug Bjarnadóttir, Jóhanna Sigurðardóttir – voru líka allar iðulega nefndar alþingiskonur þótt alþingismaður væri vissulega hið venjulega starfsheiti þeirra eins og annarra sem sátu á þingi. Ekki verður séð að amast hafi verið við þessu orði, né heldur orðinu þingkona sem fyrst kemur fyrir í Kvennablaðinu 1907 í grein um kosningarétt kvenna í Finnlandi sem þá var nýfenginn.
En þegar Kvennalistinn kom til sögunnar 1983 og fékk þrjár konur kjörnar á þing, sem vildu kalla sig þingkonur, var fjandinn laus. Þá var orðið þingkona, sem hafði verið til í þrjá aldarfjórðunga og var vel þekkt og algengt í málinu, orðið „skrípi“. Eiður Guðnason sagði t.d. á Alþingi: „Sem betur fer hefur dottið upp fyrir það orðskrípi sem menn voru með tilburði til að koma inn í íslenska tungu á haustdögum, orðið „þingkona“. Sem betur fer hefur það ekki heyrst nefnt, enda á það ekki að vera til.“ Hann talaði líka um „þetta leiðinlega latmæli, þessi málspjöll“ og sagði „nokkurt alvörumál þegar þm. á Alþingi Íslendinga gera sér sérstakt far um að spilla íslenskri tungu eins og ég tel tvímælalaust að verið sé að gera með ónefninu þingkona“.
Eiður var alls ekki eini þingmaðurinn á þessari línu og gagnrýnin var ekki síður áberandi utan veggja þinghússins. Það myndi æra óstöðugan að tína til öll hrakyrði sem sögð voru um orðið þingkona – og um þingkonurnar sem vildu nota það. Í myndatexta í DV 1983 var talað um „„Þingkonur“ Kvennalistans“ – „þingkonur“ innan gæsalappa. Í pistli í sama blaði sama ár vitnaði blaðakona í Árna Böðvarsson sem vildi „meina réttilega að persóna sem gegnir nefndu starfi sé þingmaður, burtséð frá kyni. Starfið heiti þingmennska og þar af leiðandi þingmaður sá sem því gegnir“ – og blaðakonan bætti við: „Svo bregður svo við að kvenmaður sem orðinn er þingmaður heimtar að vera kallaður þingkona! Er þetta ekki orðin einhver hringavitleysa?“
Þannig gekk kona undir manns hönd að fordæma orðið þingkona. Á bak við það var annars vegar venjuleg málfarsleg íhaldssemi blandin karlrembu, en saman við það blönduðust líka áhrif frá kjörorði Rauðsokkahreyfingarinnar, „Konur eru líka menn“ – sem Kvennalistinn hvarf eiginlega frá og lagði þess í stað áherslu á að konur skilgreindu sig á eigin forsendum. Þannig sagði vinstrisinnuð kona í Þjóðviljanum 1986 um eina af þingkonum Kvennalistans: „ekkert lifandi kvikindi fær mig til að titla hana alþingiskonu“. Jafnréttissinnaður rithöfundur sagði líka í 19. júní 1986: „Ég legg ákaflega mikla áherslu á að orðið maður táknar í íslensku bæði karl og kona, og finnst leiðinlegt þegar þingmenn Kvennalistans kalla sig þingkonur.“
Þegar þetta er skoðað nú, fjörutíu árum síðar, er augljóst að málið snerist ekki um málfræði eða málsmekk, ekki frekar en deilur um fiskara, starfsfólksfund, leghafa o.fl. Það snerist um vald. Valdið yfir tungumálinu – skilgreiningarvaldið. Orðin þingkona og alþingiskona sem höfðu verið notuð í málinu áratugum saman án þess að amast væri við þeim urðu auðvitað ekki allt í einu „orðskrípi“, „latmæli“ og „málspjöll“ árið 1983. En þegar karlveldinu fannst sér ógnað með tilkomu Kvennalistans greip það til allra tiltækra ráða til að halda í völdin, og þá var nærtækt að nota tungumálið vegna þeirrar stöðu sem það hafði í huga fólks. Orðið þingkona var árás á tungumálið, og þar með árás á íslenskt þjóðerni – athæfi þingkvennanna var óþjóðlegt.