Um griplimi og leghafa

Orðið griplimur var um tíma notað sem íðorð í merkingunni ʻhandleggur og höndʼ en svo mikið var hæðst að því að það féll úr notkun. Orðin leghafi og legberi hafa mátt sæta svipaðri meðferð. Mikilvægt er að átta sig á þeim grundvallarmun sem er á íðorðum sem einkum eru ætluð til nota í sérhæfðu samhengi og almennum orðum daglegs máls.

Griplimur

Við vitum að sjálfsögðu öll hvað orðin hönd og handleggur merkja, en þótt skýr munur sé á merk­ingu þeirra er annað orðið iðulega notað í merkingu beggja í dag­legu tali án þess að nokkr­um finnist það athugavert. Við ákveðnar aðstæður skiptir samt máli að hafa eitt orð sem vísar sam­eiginlega til handar og handleggs og hefur alveg skýra og ótvíræða merkingu. Þetta á eink­um við í læknisfræðilegu samhengi og í Íðorðasafni lækna í Íðorðabanka Árna­stofn­unar eru gefin tvö íðorð, samheiti, sem þjóna þessum tilgangi – orðið axlarlimur og orða­sam­bandið efri út­limur sem er skilgreint sem ʻEfri limur líkamans, innifelur öxl, upphandlegg, oln­boga, fram­hand­legg, úlnlið, hönd og fingurʼ. Í daglegu tali skiptir svo nákvæm skilgreining engu.

En um íðorð gilda að ýmsu leyti aðrar reglur en um orð í almennu máli. Það er t.d. algert aukaatriði hvort íðorð eru falleg (hvernig sem á að meta það) þótt fegurð spilli vitanlega aldrei. Það er ekki heldur aðalatriði að íðorð séu stutt eða lipur þótt það sé vissulega til bóta. Það er æskilegt að íðorð séu gagnsæ en ekki nauðsynlegt. En íðorð þurfa að vera mynduð samkvæmt al­mennum orðmyndunarreglum málsins, og ef þau eru hluti af ákveðnu kerfi þurfa þau að vera mynd­uð á sama hátt og önnur sambærileg orð innan kerfisins (orð sem tákna lagar­mál enda t.d. öll á -lítri og orð yfir lengdarmál enda á -metri). Meginatriðið er þó að þau þurfa að hafa skýra, ótvíræða og vel skil­greinda merkingu – eins og efri útlimur / axlarlimur hér að framan.

Ég geri tæpast ráð fyrir að mörg ykkar þekki orðið axlarlimur enda er það ekki að finna í neinum almennum orðabókum. Íðorð eru nefnilega bundin við ákveðið samhengi og oft lítið sem ekkert notuð í almennu máli, og þar af leiðandi iðulega lítið þekkt meðal almennings – axlarlimur kemur t.d. aðeins fyrir í þremur dæmum á tímarit.is, og alls ekki í Risa­mál­heild­inni. En þetta er ekki eina orðið sem stungið hefur verið upp á í þessari merkingu. Um tíma var orðið griplimur notað í læknis­fræðilegu samhengi og á tímarit.is má finna allnokkur dæmi um það frá síðustu 40 árum, lang­flest úr Læknablaðinu og öðrum ritum á heilbrigðissviði. Þetta er gagnsætt orð og gott sem slíkt, en það komst á flakk og þótti fáránlegt og það var óspart gert gys að því.

Þetta kemur glöggt fram í grein sem formaður orðanefndar Lækna­félagsins skrifaði í Lækna­blaðið 1997: „Undirritaður hefur einungis óljósa minningu um það hvenær hann komst fyrst í kynni við heitið griplimur, en andúðin sem það vakti er enn nánast áþreifanleg. Apar og óæðri dýr máttu svo sem hanga á griplimum sínum í trjánum, en menn réttu ekki hver öðrum grip­limina! Þó er heitið sem slíkt ágætt sem kerfisheiti til að nota um útlim (L: extremitas) sem get­ur gripið, á sama hátt og heitið ganglimur lýsir útlim sem nota má til gangs.“ Orðið grip­lim­ur er ekki lengur í Íðorðasafni lækna þótt læknar noti það eitthvað enn ef marka má greinar í Læknablaðinu. Það varð sem sé fórnarlamb ástæðulauss moldviðris – eins og fiskari nýlega.

Leghafi

Víkur nú sögunni að orði sem í fljótu bragði virðist kannski alls óskylt griplim – nafnorðinu leg­hafi. Þetta er nýlegt orð í málinu – elsta dæmi sem ég finn um það er frá 2012 en það komst þó fyrst inn í umræðuna fyrir tveimur árum eða svo. Annað orð sem stundum er notað í sömu merkingu er legberi, og einnig er hefur orðið leghafandi verið notað, ýmist sem nafnorð eða lýs­ingarorð (leghafandi fólk), m.a. í umræðum á Alþingi árið 2021. Mörgum finnst leghafi ljótt orð og um það er vitan­lega þýðingarlaust að ræða, að öðru leyti en því að minna á að það tekur yfirleitt alltaf nokkurn tíma að venjast nýjum orðum. En þetta orð er a.m.k. rétt myndað og gagn­sætt – -hafi merkir yfirleitt ʻsem hefur eitthvaðʼ og leghafi vísar því til fólks sem hefur leg.

misskilningur (eða útúrsnúningur) hefur verið áberandi í umræðunni að orðið leghafi sé sam­heiti við kona og eigi jafnvel að leysa það orð af hólmi vegna einhvers pólitísks rétttrúnaðar. En það er fjarri sanni. Það eru ekki allar konur með leg. Sumar hafa undirgengist legnám og aðrar eru fæddar án legs, þ. á m. trans konur. Hins vegar er til fólk sem skilgreinir sig ekki sem konur en er samt með leg. Það getur verið kynsegin fólk sem skilgreinir sig hvorki sem karl né konu, og einnig trans karlar sem ekki hafa farið í legnám. Því er ljóst að leghafar geta verið kven­kyns, karlkyns og hvorugt, þ.e. skilgreint sig utan kynjatvíhyggju. Af þeirri ástæðu er frá­leitt að halda því fram að þetta orð geti komið, eða því sé ætlað að koma, í stað orðsins kona.

Orðið leghafi er nefnilega íðorð, einkum ætlað til nota í læknisfræðilegu samhengi en sjaldan nauðsynlegt í almennu máli. Orðið var t.d. notað í fyrravetur í tengslum við frumvarp heil­brigðis­ráðherra um skimunarskrá þar sem m.a. er fjallað um skimanir fyrir leghálskrabbameini. Það segir sig sjálft að slík skimun þarf að taka til fólks með leg, óháð kyni. Þetta er því gagnlegt orð, en einungis í ákveðnu og þröngu samhengi og yfirleitt um hóp, sjaldnast um einstaklinga. En af einhverjum ástæð­um virðist sumt fólk ekki skilja þetta, eða ekki vilja skilja það. Þess í stað hafa orðið til langir þræðir af hneykslun þar sem fólk talar um hvað þetta sé óþarft og fáránlegt orð, og margar kon­ur segja að þær vilji alls ekki nota það – eða láta nota það um sig.

Vitanlega ræður fólk sjálft hvaða orð það notar en hæpið er að fólk geti hafnað því að um það séu notuð tiltekin íðorð sem ekki eru annað en líffærafræðileg skilgreining. Í umræðunni hefur líka verið spurt hvers vegna ekki séu notuð sambærileg orð um karlmenn – nefnd hafa verið orð eins og punghafi, eistnaberi, eistna­hafi, tittlingshafi, blöðruhálskirtilshafi og fleiri. Við því er það að segja að væntanlega hefur ekki verið þörf á þessum orðum hingað til, en auðvitað er ekkert því til fyrir­stöðu að nota þau ef þörf krefur. Þau eiga það sameiginlegt með leghafi að þau vísa til tiltekinna líffæra en ekki til fólks af tilteknu kyni. Ef teknar væru upp skimanir fyrir eistnakrabbameini eða krabba­meini í blöðruhálskirtli væru viðkomandi orð sannarlega gagnleg.

Íðorð og almennt mál

Orðið griplimur er gott dæmi um það hvernig hægt er að eyðileggja orð sem þjóna ágætlega þeim tilgangi sem þeim var ætlaður með því að slíta þau úr samhengi, rangtúlka þau og gera gys að þeim. Það var aldrei ætlað til notkunar í almennu máli en með þessu var komið slíku óorði á þetta gagnsæja orð að það var ekki lengur nothæft sem íðorð. Orðin leghafi og legberi hafa verið notuð í greinum þar sem ráðist er á trans fólk eða hæðst að því, og merking þeirra og notk­un skrumskæld. Þau sem fordæma orðin eru meðvitað eða ómeðvitað að leggja lóð á vogar­skálar þeirr­ar transfóbíu sem því miður virðist fara vaxandi. Látum orðin ekki fá sömu örlög og grip­limur heldur gefum þeim þegnrétt í málinu – þau hvorki spilla íslenskunni né smætta konur.