Tungumál, mannréttindi og lýðræði

Í fyrradag skrifaði ég hér pistil um þegar orðna og fyrirsjáanlega aukningu á enskunotkun á Íslandi og spáði því að um miðja öldina yrði íslenska ekki lengur aðalsamskiptamálið í landinu. Það má auðvitað kalla þetta bölsýni eða svartagallsraus ef fólk vill, en ég tel að þetta sé raunsætt stöðumat út frá þróuninni undanfarinn áratug og spám um fjölgun ferðamanna og innflytjenda næstu árin. Hitt er svo annað mál hverjum augum fólk lítur þessar horfur. Mörgum finnst þær ískyggilegar vegna þess að staða íslenskunnar muni óhjákvæmilega veikjast en í augum annarra er þetta bara eðlileg þróun sem hvorki sé ástæða eða forsendur til að spyrna gegn, heldur sé hún nauðsynleg til að Ísland verði samkeppnisfært við önnur lönd á tímum alþjóðavæðingar.

En hvaða skoðun sem við höfum á þessu máli er mikilvægt að við áttum okkur á þróuninni og ræðum hana. Ef íslenska á áfram að vera burðarás og aðalsamskiptamál samfélagsins verður að styrkja hana á allan hátt og verja til þess fé og kröftum. Það þarf að leggja margfalt meiri áherslu á að kenna íslensku sem annað mál og gera fólki sem hingað kemur kleift að læra málið og nota það í starfi og leik. En það þarf líka að gera fólki sem á íslensku að móðurmáli kleift að nota málið á öllum sviðum – og ekki bara gera það kleift, heldur einnig að gera það eftirsóknarvert. Til að svo megi verða þarf að bæta ímynd íslenskunnar í huga ungs fólks með jákvæðri umræðu og kennslu, og stórauka framleiðslu á hvers kyns afþreyingar- og fræðsluefni á íslensku.

Ég var dálítið hikandi við að birta fyrri pistil minn vegna þess að ég óttaðist að spádómur minn yrði misskilinn og rangtúlkaður. Þess vegna tók ég vandlega fram að ég hefði sannarlega ekkert á móti því að útlendingum fjölgaði á Íslandi og teldi það raunar bráðnauðsynlegt. Það erum við sem hleypum þessum fjölda fólks inn í landið – og sækjumst eftir honum. Við viljum fá sem flest ferðafólk, og við þurfum fólk til að vinna störf sem við getum ekki mannað eða viljum ekki vinna og halda þannig þjóðfélaginu gangandi. Í flestum tilvikum hefur ekki verið gerð krafa um íslenskukunnáttu til þeirra sem hingað koma enda væri það oft óraunhæft. En það þýðir aftur að við megum ekki með nokkru móti láta fólk gjalda þess að kunna ekki íslensku.

En eins og mig grunaði hefur pistillinn samt verið notaður til að amast við útlendingum og fólki sem talar ekki íslensku. Það er óþolandi, en það má samt ekki koma í veg fyrir að við ræðum þessi mál. Við verðum að átta okkur á því að með auknum fjölda íbúa sem ekki kann íslensku verður óhjákvæmilegt að auka rétt enskunnar og gefa fólki kost á að nota hana við ýmsar aðstæður þar sem nú er eingöngu hægt að nota íslensku. Að öðrum kosti erum við að setja verulegan hluta íbúa landsins skör lægra en fólk sem kann íslensku. Það er ógnvekjandi tilhugsun að sú staða komi upp að stórum hluta íbúa finnist þeir vera útilokaðir frá fullri þátttöku í þjóðfélaginu. Það er íslenskunni ekki til framdráttar að hún sé notuð til að flokka fólk.