Kennarar, meistarar, töffarar, Króksarar og aðrir -arar

Viðskeytið -ari „[m]yndar gerandnafnorð einkum af sögnum, en einnig af n[afn]o[rðum], sbr. drepari af drepa en drápari af dráp, kveljari af kvelja en kvalari af kvöl. […] Viðskeytið er ekki germanskt að uppruna, heldur hefur það borist með latneskum t[öku]o[rðum] inn í germ[önsku] og öðlast þar sjálfstætt líf […], segir Ásgeir Blöndal Magnússon í Íslenskri orðsifjabók. Hann bendir á að viðskeytið er sjaldgæft í fornu máli en Halldór Halldórsson hefur þó sýnt fram á að það hafi verið notað til nýmyndunar í íslensku þegar um 1000. Á seinni öldum hefur þetta viðskeyti orðið mjög frjósamt og er eitt algengasta viðskeyti málsins nú á dögum. Mörg orð með því tilheyra venjulegu máli en það er einnig mjög virkt í óformlegri orðmyndun.

Það er vissulega rétt sem Ásgeir Blöndal segir að orð með -ari eru oftast gerandnafnorð – X+ari merkir 'sem gerir X' – kennari kennir, leikari leikur, rakari rakar, reddari reddar – og fiskari fiskar. En stundum er „gerandinn“ ekki mannlegur heldur tæki, svo sem lyftari, togari, heftari, magnari, dempari o.s.frv. Sum orð með -ari geta ýmist vísað til fólks eða tækis, þá oft í mismunandi samsetningum, eins og (málm)blásari og (hár)blásari, (bridge)spilari og (geisla)spilari, (einka)ritari og (fjöl)ritari, (viðburða)haldari og (brjósta)haldari, (upp)lesari og (korta)lesari, o.fl. Skemmtilegt dæmi um slíka tvíræðni er prentari sem áður vísaði til stéttar með ákveðna iðnmenntun en sú stétt er horfin og orðið vísar nú orðið einungis til tækis.

Þó er rétt að athuga að mörg orð með -ari eru ekki íslenskar nýmyndanir heldur tekin inn í málið í heilu lagi. Venjulega hafa orðin komið gegnum dönsku og í seinni tíð einnig ensku, og enda oftast á -er í veitimálinu. Þannig er loddari komið af loddere í fornensku, meistari er komið af meister í miðlágþýsku (sem ættað er frá magister í latínu), skraddari er komið af skrædder í dönsku, templari úr (good) templar á ensku, o.s.frv. Þessi orð eiga sér sjaldnast nokkra samsvarandi sögn, en þau eru þó hliðstæð gerandnafnorðum með -ari að því leyti að þau vísa oft til fólks og einhverra athafna eða einkenna þess. Það er þó ekki algilt, eins og sjá má af orðum eins og brandari sem er komið af brander á dönsku og slagari af slager á dönsku.

Eins og áður var nefnt eru orð með -ari stundum leidd af nafnorðum, t.d. svikari af svik, sjóari af sjór, golfari af golf, pönkari af pönk, töffari af töff, o.fl. Þessi orð hafa oft gerandmerkingu eins og þau sem eru leidd af sögnum, þótt ekki sé hægt að umorða merkingu þeirra á sama hátt, þ.e. 'sem gerir X'. Mörg þessara orða eru einkum notuð í óformlegu málsniði og t.d. eru hátt í fimmtíu orð með -ari í Slangurorðabókinni frá 1982, flest mynduð af nafnorðum. Þar má nefna orð eins og blúsari af blús, frónari af Frón, flippari af flipp eða flippa, snobbari af snobb o.fl., en líklega eru mörg þessara orða nú orðin úrelt. Einnig eru dæmi um að -ari sé notað í óformlegum styttingum, eins og pípari af pípulagningamaður og dúkari af dúklagningamaður.

En óformleg orð mynduð með -ari af nafnorðum eru ekki bara gerandnafnorð, heldur líka orð sem tengja fólk við staði og oftast þá stuttmyndir staðanafna – Hólmari af Stykkishólmur, Sandari af Hellissandur, Ólsari af Ólafsvík, Króksari af Sauðárkrókur o.fl. Einnig tengir -ari oft fólk við íþróttafélög – Valsari, Framari, Þór(s)ari, Týrari o.fl. Í sumum þessara orða, eins og t.d. Króksari og Valsari, er grunnorðið í eignarfalli, en annars tengist -ari ævinlega stofni eða rót, án beygingarendingar, eins og viðskeyti yfirleitt. Í Týrari er eins og -ari sé bætt aftan við nefnifallsendingu en væntanlega hefur þessi mynd orðið til í máli fólks sem hafði r-ið stofnlægt, þ.e. lét það haldast í öllum föllum (Týr um Týr í stað hins viðurkennda Týr um ).